UM síðustu helgi birtist hér í blaðinu athugasemd mín vegna setu Garðars Garðarssonar hrl. í gerðardómi samkvæmt lögum nr. 34/2001.

UM síðustu helgi birtist hér í blaðinu athugasemd mín vegna setu Garðars Garðarssonar hrl. í gerðardómi samkvæmt lögum nr. 34/2001. Með þeim lögum voru sjómenn sem kunnugt er sviptir samningsrétti og ákveðið að svokallaður gerðardómur skyldi ákveða kjör þeirra.

Athugasemd mín spratt af því að ég taldi óviðeigandi að Garðar ætti sæti í gerðardómnum með því að ég tel að hann hafi í svo ríkum mæli komið að málum á undanförnum árum sem talsmaður útgerðarmanna að hann gæti ekki talist hlutlaus og þar með hæfur til setu í slíkum gerðardómi. Þá tilfærði ég sérstakt dæmi um þetta.

Á fundi gerðardómsins þann 5. júní sl. lagði fulltrúi Sjómannasambands Íslands fram yfirlýsingu sambandsins þar sem m.a. kom fram þessi yfirlýsing:

"Sjómannasambandið vill einnig koma þeirri athugasemd á framfæri við gerðardóminn að það telur að formaður hans sé vanhæfur til setu í gerðardómnum vegna umfangsmikilla starfa hans um langt árabil í þágu útgerðarmanna og samtaka þeirra."

Í kjölfar athugasemda minna komu fram yfirlýsingar á opinberum vettvangi frá Garðari þar sem fram kom að hann taldi þær byggja á misskilningi. Gerðardómurinn sjálfur virðist í kjölfar athugasemdar Sjómannasambandsins ekki hafa séð neina ástæðu til að taka málið til skoðunar. Þó er það svo að það er gerðardómurinn sjálfur sem samkvæmt stjórnsýslulögum tekur afstöðu til hæfis einstakra nefndarmanna.

Í ljósi alls þessa er ég knúinn til þess að koma enn á framfæri þeirri athugasemd að ég tel Garðar Garðarsson hrl. vanhæfan til að eiga aðild að gerðardómi til að ákveða kjör sjómanna. Ekki aðeins vegna þess sem ég hef þegar nefnt og sem er alkunna og varðar störf hans í þágu útgerðarinnar heldur einnig vegna þess að ég hef nú haft af því spurnir að hann, að minnsta kosti þar til alveg nýlega, er sjálfur útgerðarmaður. Þannig sést af opinberum gögnum úr hlutafélagskrá að Garðar var frá stofnun formaður stjórnar útgerðarfélagsins Hríshóls ehf. á Höfn í Hornafirði. Það var ekki fyrr en nú í maí sem hlutafélagaskrá barst um það tilkynning að Garðar hefði látið af störfum í stjórn félagsins.

Athugasemd mín um vanhæfi Garðars Garðarssonar hrl. til setu í gerðardómi samkvæmt lögum nr. 34/2001 er því studd enn betri rökum en mér var sjálfum ljóst þegar hún kom fram upphaflega.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður.