Rob B úr Stereo MC's.
Rob B úr Stereo MC's.
ÓTRÚLEGT en satt, það er búið að taka bresku hipp-hopp/sálar/fúnksveitina Stereo MC's nærri því áratug að fylgja hinu stuðvæna meistaraverki Connected eftir, en fyrir stuttu kom út platan Deep Down & Dirty, sem er fjórða breiðskífa sveitarinnar.

ÓTRÚLEGT en satt, það er búið að taka bresku hipp-hopp/sálar/fúnksveitina Stereo MC's nærri því áratug að fylgja hinu stuðvæna meistaraverki Connected eftir, en fyrir stuttu kom út platan Deep Down & Dirty, sem er fjórða breiðskífa sveitarinnar.

Stereo MC's var stofnuð í Lundúnum árið 1985 samhliða útgáfufyrirtæki meðlima, Gee Street. Fyrsta breiðskífan kom þó ekki út fyrr en 1989 og ber hið fróma nafn 33-45-78. Ári síðar kom platan Supernatural út og varð hún til að vekja þó nokkra athygli á sveitinni. M.a. varð smáskífa af plötunni, "Elevate My Mind" fyrsta breska hipp-hoppsmáskífan til að komast á vinsældalista í Bandaríkjunum. Tónleikaferðalög með EMF og Happy Mondays fylgdu svo í kjölfarið.

Ekki setið auðum höndum

Það var svo árið 1992 sem áðurnefnd Connected kom Stereo MC's á kortið, en platan sú sló rækilega í gegn, en þar má finna sjóðheita smelli eins og "Step It Up", "Connected", "Ground Level" og "Creation". Í kjölfarið á þeirri plötu öðlaðist sveitin að heita má heimsfrægð, hitaði upp fyrir U2 og vann tvenn Britverðlaun árið 1994. Síðan hefur verið fremur hljótt í herbúðunum, þótt meðlimir hafa langt því frá setið auðum höndum, þeir Rob B, rappari og Nic "Head" Hallam, tónsmiður, hafa verið uppteknir við að sinna eigin útgáfu- og umboðsfyrirtækjum ásamt því að hnoða saman nýrri plötu, sem loksins hefur nú litið dagsins ljós.

Við sama heygarðshornið

Illar tungur hafa kallað plötuna nýju "danstónlist fyrir fólk á fertugsaldri", jafnvel, "danstónlist fyrir þá sem hlusta ekki á danstónlist." Vissulega hafa Stereo MC's ekki tekið róttækum breytingum í tónlist sinni - hér er engin "tromma og bassi" eða neitt nýjabrum á seyði. Aðeins hrynheit og pumpandi Stereo MC's tónlist. Og er það ekki dásamlegt?