FIMM liðsmenn landsliðs Norður-Írlands í knattspyrnu voru handteknir í Prag í fyrrinótt. Einn þeirra var grunaður um að hafa slasað gengilbeinu á næturklúbbi í Prag, sem þeir sóttu heim eftir 3:1 tap gegn Tékkum í 3.
FIMM liðsmenn landsliðs Norður-Írlands í knattspyrnu voru handteknir í Prag í fyrrinótt. Einn þeirra var grunaður um að hafa slasað gengilbeinu á næturklúbbi í Prag, sem þeir sóttu heim eftir 3:1 tap gegn Tékkum í 3. riðli, en það er sami riðill og íslenska landsliðið leikur í. Hinir handteknu eru markvarðaþjálfarinn Tommy Wright, fyrirliðinn Michael Hughes, útherjinn Peter Kennedy og framherjarnir Glenn Ferguson og David Healy. Mennirnir fimm voru yfirheyrðir á hóteli liðsins en síðan færðir í fangaklefa þar sem þeir eru enn í varðhaldi. Var tekin af þeim blóðprufa til að mæla áfengismagn. Starfsmaður næturklúbbsins mun hafa hlotið skurð við auga, sem saumaður var saman á sjúkrahúsi. David Bowen, framkvæmdastjóri norður-írska knattspyrnusambandsins sagðist í gærmorgun vona að leikmennirnir og þjálfarinn fengju að snúa heim sem allra fyrst. Staðfesti hann að þeir væru sakaðir um atvikið á næturklúbbnum í nótt en þeir hefðu þó ekki verið ákærðir og sambandið liti svo á að þeir teldust saklausir uns sekt væri sönnuð.