Nokkrir nemendur Baðstofunnar stilla sér upp fyrir ljósmyndara.
Nokkrir nemendur Baðstofunnar stilla sér upp fyrir ljósmyndara.
BAÐSTOFAN, myndlistarklúbbur frístundamálara í Reykjanesbæ, stendur fyrir yfirlitssýningu á verkum nemenda nú um helgina. Sýningin verður í Svarta pakkhúsinu.

BAÐSTOFAN, myndlistarklúbbur frístundamálara í Reykjanesbæ, stendur fyrir yfirlitssýningu á verkum nemenda nú um helgina. Sýningin verður í Svarta pakkhúsinu.

Á sýningunni verða sýndar myndir sem unnar hafa verið í vetur en fjöldi nemenda þetta starfsárið er tuttugu, 18 konur og tveir karlmenn, frá aldrinum 18 til 75 ára. Í vetur hafa nemendur Baðstofunnar hist vikulega og málað saman og á tveggja vikna fresti hafa þeir unnið undir handleiðslu Kristins Pálmasonar, kennara klúbbsins þetta starfsárið.

Má bjóða í myndir

Baðstofan hefur starfað í hartnær 30 ár, fyrst undir handleiðslu Erlings Jónssonar listamanns en fyrsti formaður klúbbsins var Gunnar Dal.

Hjördís Árnadóttir, formaður myndlistarklúbbsins, segir að myndirnar séu ekki sérstaklega verðlagðar en það megi án efa bjóða í þær. "Við höfum aldrei verið með sérstaka sölusýningu á verkum okkar og Baðstofan er meira fyrir fólk sem málar myndir sér til ánægju og til að gefa sínum nánustu. Þó hafa ýmsir nemendur hópsins lagt málaralistina fyrir sig og má nefna Ástu Árnadóttur og Ástu Pálsdóttur í því sambandi. Jafnframt hafa sumir farið í frekara listnám og að minnsta kosti fjögur ungmenni sem starfað hafa með Baðstofunni eru nú í myndlistarnámi á Íslandi og Ítalíu."

Sýning Baðstofunnar verður haldin í Svarta pakkhúsinu, Hafnargötu 2 í Keflavík, og verður hún opin á milli klukkan 14 og 18, laugardag og sunnudag.