Rúmlega fimmtíu stúdentar voru brautskráðir frá FS, auk nemenda af iðn- og starfsmenntabrautum.
Rúmlega fimmtíu stúdentar voru brautskráðir frá FS, auk nemenda af iðn- og starfsmenntabrautum.
SJÖTÍU og fimm nemendur voru brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja við hátíðlega athöfn á sal skólans síðastliðinn laugardag. Vorönn skólans, þeirri 49. í röðinni, var slitið að útskrift lokinni.

SJÖTÍU og fimm nemendur voru brautskráðir frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja við hátíðlega athöfn á sal skólans síðastliðinn laugardag. Vorönn skólans, þeirri 49. í röðinni, var slitið að útskrift lokinni.

Af þeim sem brautskráðust voru 53 stúdentar, 20 af starfsnámsbrautum, 11 af iðnbrautum, 2 úr meistaranámi og 1 af vélstjórnarbraut. Auk þess lauk 1 skiptinemi námi frá skólanum. Af útskriftarnemum komu 38 úr Keflavík, 12 úr Njarðvík, 9 úr Sandgerði, 8 úr Garðinum, 7 úr Grindavík og einn úr Vogum. Konur voru 45 en karlar 30.

Fjöldi viðurkenninga

Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Björk Ólafsdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í myndlist, íslensku, frönsku, ensku, dönsku, raungreinum, stærðfræði og sögu. Anna Valborg Guðmundsdóttir fékk viðurkenningar fyrir árangur í ensku, spænsku, dönsku og raungreinum. Anna Albertsdóttir fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur í viðskipta- og hagfræðigreinum, Birna Valborg Jakobsdóttir fyrir uppeldis- og sálarfræði, Einar Þorgeirsson fyrir ensku og Ólafur Þór Þórðarson fyrir vélstjórnargreinar. Christine Buchholz fékk viðurkenningu fyrir góðan árangur á sjúkraliðabraut. Þau Anna Albertsdóttir, Arngrímur Vilhjálmsson, Björk Ólafsdóttir, Einar Þorgeirsson, Hilma H. Sigurðardóttir og Tryggvi Þór Reynisson fengu viðurkenningu fyrir störf í þágu nemenda. Auk þess fékk Lynn Browning skiptinemi gjöf frá skólanum.

Sparisjóðurinn í Keflavík veitir útskriftarnemum frá skólanum viðurkenningar vegna góðs námsárangurs. Að þessu sinni fékk Björk Ólafsdóttir 75.000 kr. námsstyrk fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi og viðurkenningar fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum, erlendum tungumálum og íslensku. Andrea Eiríksdóttir hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í viðskiptagreinum og Anna Valborg Guðmundsdóttir fyrir góðan árangur í erlendum tungumálum.

Veitt voru verðlaun fyrir málmsuðukeppni sem haldin var á önninni en keppnin var nú haldin sjötta árið í röð. Þar varð Eyjólfur Alexandersson í 1. sæti, Guðni Þ. Frímannsson í 2. sæti og Árni Jóhannsson í því þriðja.

Áform um viðbyggingu

Í ávarpi til brautskráðra nemenda lét Ólafur Jón Arnbjörnsson skólameistari þess getið að á þessu ári væri haldið upp á 25 ára starfsafmæli Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Á þessum tíma hafi verið byggt við skólann að minnsta kosti fjórum sinnum og um 2.800 nemendur lokið þar námi. Flestir nemendurnir hafa verið af Suðurnesjum en í vaxandi mæli, meðal annars vegna sérstöðu skólans, hafa nemendur komið frá öðrum landshlutum og nú síðustu árin einnig frá öðrum löndum og öðrum heimsálfum.

Skólameistari gat þess að frá og með næsta hausti muni nemendur geta komið með eigin fartölvur í skólann, tengst innra neti hans og þannig notað tölvuna í náminu. Þá fagnaði Ólafur áformum um byggingu nýrrar álmu. Við það muni vinnuaðstaða nemenda og kennara batna til muna og heildarútlit og umhverfi skólans komast í það horf sem hæfi æðstu menntastofnun Suðurnesja.