Óskarsverðlaunahafinn Cuba Gooding stendur í ströngu í Pearl Harbor.
Óskarsverðlaunahafinn Cuba Gooding stendur í ströngu í Pearl Harbor.
Bíóhöllin, Bíóborgin, Kringlubíó, Háskólabíó, Nýja bíó Keflavík, Nýja bíó Akureyri og fleiri frumsýna bandarísku stórmyndina Pearl Harbor með Ben Affleck.

FRIÐSÆLAN sunnudagsmorgun í desember árið 1941 réðust japanskar árásarflugvélar á flotastöð Bandaríkjanna í Perluhöfn eða Pearl Harbor. Árásin varð til þess að Bandaríkjamenn urðu beinir þátttakendur í síðari heimsstyrjöldinni.

Í bandarísku stórmyndinni Perluhöfn, sem frumsýnd er í fjölda kvikmyndahúsa í dag, segir frá árás Japana á Pearl Harbor og atburðunum lýst frá sjónarhóli tveggja ungra flugmanna (Ben Affleck og Josh Harnett) og hjúkrunarkonu (Kate Beckinsale) og greint frá því hvernig þau upplifa árás Japananna. Framleiðandi myndarinnar er einn fremsti framleiðandinn í Hollywood, Jerry Bruckheimer, en leikstjóri er Michael Bay, sem áður hefur unnið með framleiðandanum m.a. við gerð Armageddon. Handritshöfundur er Randall Wallace.

Perluhöfn er ein dýrasta mynd sögunnar en Bruckheimer sparaði ekkert til þess að koma sögu sinni til skila á hvíta tjaldið. "Árásin á Perluhöfn er einn af afdrifaríkustu atburðunum í sögu Bandaríkjanna," er haft eftir honum. "Hún er ein af hörmulegustu atburðum sögu okkar en minnir okkur einnig á að við getum risið upp úr rústunum og orðið sigurvegarar."

"Þessi mynd er ólík öllum öðrum sem ég hef gert," segir Bruckheimer. "Þótt á yfirborðinu fjalli hún um vinskap og ást þriggja einstaklinga er hún alvarlegt verk um menn sem lifðu á þessum viðsjárverðu tímum. Árásin á Perluhöfn þjappaði bandarísku þjóðinni saman. Við vorum ekki búin undir styrjaldarátök. Drengir urðu að karlmönnum á einni nóttu og ekkert varð eins og áður."

"Ég hefði ekki tekið hlutverkið að mér ef hér væri aðeins á ferðinni einfaldur áróður," segir Ben Affleck. "Við reyndum að vera sanngjörn og heiðarleg. Japönum er lýst sem heiðvirðu fólki. Þeim fannst þeim vera ógnað af Bandaríkjunum og þeir gerðu það sem þeir töldu sig þurfa."

Affleck var sendur ásamt öðrum leikurum í herbúðir þar sem þeir gengu í gegnum stranga þjálfunardagskrá svo þeir kynntust því að nokkru hvað felst í þjálfun hermanna og því að vera hermaður. Einnig las Affleck sér til um atburðina í desember 1941. Hann ræddi við sagnfræðinga, tæknilega ráðgjafa og herfræðinga sem unnu við gerð myndarinnar.

Leikstjórinn Bay stýrði Affleck einnig í Armageddon og segir að hann hafi aldrei leikið betur en í Perluhöfn. "Honum eru allir vegir færir."

Leikarar: Ben Affleck, Josh Harnett, Kate Beckinsale, Alec Baldwin, Jon Voight, Cuba Gooding, Dan Akroyd og William Lee Scott. Leikstjóri : Michael Bay.