Body Shop rekur 1.840 verslanir um allan heim og sérhæfir sig í umhverfisvænum snyrtivörum.
Body Shop rekur 1.840 verslanir um allan heim og sérhæfir sig í umhverfisvænum snyrtivörum.
HUGSANLEGT er að breska snyrtivörufyrirtækið Body Shop verði keypt af mexíkóska fyrirtækinu Grupo Omnilife, en talið er að síðarnefnda fyrirtækið hafi boðið um 350 milljónir punda í Body Shop. Upphæðin samsvarar um 51 milljarði íslenskra króna.

HUGSANLEGT er að breska snyrtivörufyrirtækið Body Shop verði keypt af mexíkóska fyrirtækinu Grupo Omnilife, en talið er að síðarnefnda fyrirtækið hafi boðið um 350 milljónir punda í Body Shop. Upphæðin samsvarar um 51 milljarði íslenskra króna. Að því er fram kemur í Evrópuútgáfu Wall Street Journal er talið að Omnilife geti keypt Body Shop ef fyrirtækið getur fengið lán fyrir helmingi þessarar upphæðar.

Ekkert hefur frekar verið staðfest um viðræður eða hugsanlega yfirtöku á Body Shop. Talsmenn fyrirtækjanna segja málið á frumstigi en yfirlýsinga gæti verið að vænta eftir helgi.

Body Shop rekur 1.840 verslanir um allan heim og sérhæfir sig í umhverfisvænum snyrtivörum. Nokkrir erfiðleikar hafa verið í rekstrinum en gengi hlutabréfa Body Shop hækkaði um 20% þegar fréttist af hugsanlegu yfirtökutilboði Grupo Omnilife, að því er greint er frá í Financial Times.

Stofnendur Body Shop, Anita og Gordon Roddick, eiga um fjórðung fyrirtækisins en Ian McGlinn, sem lánaði fé til stofnunar fyrirtækisins árið 1976, á tæp 24%. Hagnaður hefur farið minnkandi og var um 20% minni á síðasta ári en árið áður. Í mars sl. vísaði Anita Roddick því á bug að viðræður um samruna Body Shop og snyrtivöruframleiðandans Lush ættu sér stað. Fyrrverandi starfsmaður Body Shop stofnaði Lush.

Forstjóri Grupo Omnilife er Jorge Vergara, sem hefur náð miklum árangri í viðskiptum. Hann er eigandi fyrirtækjasamsteypu í Mexíkó sem flytur út til tólf landa og selur fyrir sem nemur 62 milljörðum íslenskra króna á ári. Aðalframleiðsluvara Omnilife eru fæðubótarefni.