Hljómar baksviðs á Upprisuhátíð Hljómalindar síðastliðinn sunnudag.
Hljómar baksviðs á Upprisuhátíð Hljómalindar síðastliðinn sunnudag.
HANN er nokkuð sérstakur, dansleikurinn, sem verður haldinn á veitingastaðnum Útlaganum á Flúðum í Hrunamannahreppi í kvöld.

HANN er nokkuð sérstakur, dansleikurinn, sem verður haldinn á veitingastaðnum Útlaganum á Flúðum í Hrunamannahreppi í kvöld.

Þar mun nefnilega hin fornfræga sveit Hljómar leika fyrir gesti en að sögn Árna Hjaltasonar, staðarhaldara hefur þetta staðið til í á annað ár.

"Mig er búið að dreyma um þetta í svolítinn tíma," segir Árni. "Svo þegar ég fór á tónleikana á Gauk á Stöng [til heiðurs Andreu Jónsdóttur útvarpskonu sem fram fóru 5. desember á síðasta ári] varð ég alveg sjúkur! Fór niður á hnén (hlær)."

Hann segir þá Hljómamenn hafa verið ótrúlega jákvæða fyrir þessu og spenningurinn sé orðinn þónokkur í sveitinni. "Það trúa þessu ekkert allir," segir Árni og kímir.

Tónleikarnir hefjast á miðnætti og munu Hljómar renna sér í gegnum á þriðja tug laga, hvorki meira né minna. Húsið opnar kl. 21.00 og verður byrjað á því að hita upp með óvæntum skemmtiatriðum. Miðaverð er 2.000 kr. en aðeins 100 miðar voru til sölu og eru þeir því sem næst á þrotum í þessum skrifuðu orðum.