FRANSKA stjórnin hefur vikið hershöfðingjanum Paul Aussaresses úr varaliði franska hersins fyrir að verja pyntingar og aftökur á skæruliðum og óbreyttum borgurum í stríðinu í Alsír á árunum 1954-62.

FRANSKA stjórnin hefur vikið hershöfðingjanum Paul Aussaresses úr varaliði franska hersins fyrir að verja pyntingar og aftökur á skæruliðum og óbreyttum borgurum í stríðinu í Alsír á árunum 1954-62. Stjórnin sagði að hershöfðinginn hefði valdið hernum álitshnekki með því að "verja óréttlætanlegt framferði" sveita hans í Alsírstríðinu. Aussaresses er 83 ára og settist í helgan stein fyrir mörgum árum en hefur verið í varaliði hersins þar til nú.

Skjalamál Kohls verði rannsakað

ÞÝSKA stjórnin hefur hvatt saksóknara til að endurskoða þá ákvörðun að hætta rannsókn á ásökunum um að tveir starfsmenn kanslaraembættisins hafi eytt skjölum með ólöglegum hætti áður en Helmut Kohl lét af embætti árið 1998. Saksóknararnir ákváðu að hætta rannsókninni í apríl og sögðu að ekkert hefði komið fram sem benti til þess að mennirnir hefðu gerst sekir um lögbrot. Talsmaður þýsku stjórnarinnar, Uwe-Karsten Heye, sagði í gær að hún teldi ástæðu til að rannsaka ásakanirnar frekar og hefði sent saksóknurum yfirlýsingu um málið í vikunni sem leið. Hann vildi ekki veita frekari upplýsingar um yfirlýsinguna.

20 ár frá greiningu alnæmis

SAMEINUÐU þjóðirnar minntust þess í fyrradag að tuttugu ár eru liðin síðan alnæmi var fyrst skilgreint sem sjúkdómur og vöruðu við því að útbreiðsla þess ætti eftir að aukast til muna. "Það var ekki hægt að gera sér í hugarlund að útbreiðsla alnæmis yrði svo hröð að innan tuttugu ára hefðu 58 milljónir manna fengið sjúkdóminn og þar af hefðu 22 milljónir látist af hans völdum," sagði yfirmaður alnæmisverkefnis SÞ, Peter Piot, á ráðstefnu í Höfðaborg í Suður-Afríku. Hvergi eru fleiri smitaðir af HIV-veirunni en þar: 4,7 milljónir eða níundi hluti íbúa landsins. Fyrst var fjallað um alnæmi sem sérstakan sjúkdóm í skýrslu bandaríska smitsjúkdómaeftirlitsins í júní 1981. Fjórum árum síðar hafði alnæmi greinst í öllum heimsálfum.