FÆREYINGAR munu nú í fjórða sinn á þessu kjörtímabili fá nýjan mennta- og menningarmálaráðherra.

FÆREYINGAR munu nú í fjórða sinn á þessu kjörtímabili fá nýjan mennta- og menningarmálaráðherra.

Á fimmtudaginn kemur verður hinn 56 ára gamli Óli Holm tilnefndur í ráðherraembætti og mun hann leysa hinn umdeilda fyrrverandi skipstjóra Tórbjørn Jacobsen af hólmi. Tórbjørn Jacobsen hefur verið ötull baráttumaður sjálfsstjórnar Færeyja en hann lætur af embætti vegna ögrandi framkomu og kjarnyrts tungutaks sem hefur móðgað ýmsa.

Óli Holm er, líkt og fyrirrennari hans, félagi í Þjóðveldisflokknum. Hann er menntaður kennari og hefur um árabil verið aðstoðarskólastjóri í sveitarfélaginu Vogi á Suðurey. Óli Holm er formaður stjórnar Þjóðveldisflokksins og var nýlega einnig valinn varaformaður þegar skipulag forystu flokksins var endurskipulagt.

Ráðherrann nýi var valinn af Íhaldsflokknum til að taka sæti Tórbjørns Jacobsens sem sagði sjálfviljugur af sér eftir að hafa fengið á sig mikla gagnrýni. Hinn harðorði Tórbjørn Jacobsen, sem hefur uppnefnt Anfinn Kallsberg "skósvein Dana" og kallaði ríkisendurskoðanda Færeyja nýlega "ómerkilegan bókara", komst aftur í sviðsljósið í síðustu viku eftir fund með fulltrúum grunnskólans í sveitarfélaginu Vestmanna.

Fundur með grunnskólafulltrúum gerði útslagið

Stjórn skólans og kennarar höfðu opinberlega gert grein fyrir því að ef skólinn fengi ekki meira fjármagn fyrir næsta skólaár yrði dregið úr kennslu þar á næsta ári. Vegna þessarar yfirlýsingar kallaði Tórbjørn Jacobsen stjórn skólans á sinn fund í menntamálaráðuneytinu í Þórshöfn. Stjórn skólans og fulltrúar kennara gengu hins vegar af fundi áður en yfir lauk vegna hegðunar ráðherrans.

Í upphafi fundarins bað Tórbjørn Jacobsen einn fulltrúa kennara að ganga af fundi á þeirri forsendu að hún væri gift þingmanni stjórnarandstöðunnar. Þá lýsti ráðherrann því yfir síðar á fundinum að aðstoðarskólastjóri Vestmannaskóla, dönsk kona sem um árabil hefur búið í Færeyjum, yrði að yfirgefa fundinn vegna þess að hún talaði ekki nægilega góða færeysku. Í kjölfarið ákváðu fulltrúar skólans ásamt skólastjóranum að ganga af fundi. Skólastjórinn lýsti því svo yfir að fundi loknum að þrátt fyrir að hann kysi Þjóðveldisflokkinn hefði framkoma Tórbjørns Jacobsen verið ólíðandi.

Ráðherrann, sem fékk um svipað leyti á sig vantraustsyfirlýsingu þingsins fyrir að uppnefna lögmann Færeyja og aðra þingmenn, ákvað í síðustu viku að láta af embætti. Tórbjørn Jacobsen upplýsti í tengslum við afsögn sína að hann teldi að of mikið væri litið til hans persónu en minna til stefnu flokks hans og baráttu hans fyrir fullveldi. Hann kvaðst stefna á að fara aftur að vinna á sjó auk þess sem hann ætlaði sér að skrifa bók.

Høgni Hoydal, formaður Þjóðveldisflokksins og ráðherra sjálfstjórnarmála Færeyja, hefur lýst því yfir að hann harmi afsögn Tórbjørns Jacobsen. Hann sagði Tórbjørn hafa verið mjög ötulan ráðherra sem hefði tekist að leysa mörg verkefni í mennta- og menningarmálum í embætti.

Þórshöfn. Morgunblaðið.