Minkur frá minkabúinu Dalsbúi ehf. hefur valdið nokkrum usla í nágrenninu undanfarin ár.
Minkur frá minkabúinu Dalsbúi ehf. hefur valdið nokkrum usla í nágrenninu undanfarin ár.
BÆJARSTJÓRN Mosfellsbæjar hefur farið fram á skýringar á því hvers vegna heilbrigðisnefnd bæjarins ákvað að fresta innheimtu dagsekta hjá minkabúinu Dalsbúi ehf. í Helgadal.

BÆJARSTJÓRN Mosfellsbæjar hefur farið fram á skýringar á því hvers vegna heilbrigðisnefnd bæjarins ákvað að fresta innheimtu dagsekta hjá minkabúinu Dalsbúi ehf. í Helgadal. Kvartað hefur verið undan frárennsli frá búinu, hreinsibúnaði og lélegri girðingu kringum búið.

Í bókun bæjarstjórnar er farið fram á að heilbrigðisfulltrúi skili inn greinargerð af viðskiptum heilbrigðiseftirlits við minkabúið frá því í október 2000 þar sem þessum spurningum verði svarað. Að auki fer bæjarstjórn fram á að kannað verði hversu margir minkar hafi sloppið úr húsum á sama tíma.

Minkur í eldhúsi

Herdís Gunnlaugsdóttir og Hreinn Ólafsson bóndi búa í Helgadal skammt frá Dalsbúi. Þau hafa verið með fjárbúskap og hesta en að sögn Herdísar hefur minkurinn látið skepnur í friði. Hins vegar sé nokkuð um að minkurinn sleppi úr búrum sínum og leiti þá inn í híbýli í kring.

"Þeir koma ýmist heim til okkar, stundum inn í eldhús eða þá inn í fjárhús, hesthús og bílskúr. Svo fara þeir niður með læknum. Það er lítið fiskeldi hér fyrir neðan og þar fá þeir sér að borða," segir Herdís.

Hún segir heimilisfólk vera ýmsu vant og meðal annars hafi minkurinn borðað skópar sem hún átti en þar fyrir utan hafi heimilisfólk ekki hlotið tjón af. Hún segir miður hvernig gengið sé frá málum við minkabúið og að hún hafi margsinnis komið að máli við eiganda þess.

Að sögn Þorsteins Narfasonar, framkvæmdastjóra Heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis, er rekin fóðurvinnsla samhliða minkarekstrinum en að hans sögn annar rotþró sem þar er ekki frárennsli og er yfirfull. Hugmyndin sé að setja upp hreinsibúnað við hana. Að auki segir Þorsteinn að eiganda hafi verið gert að ganga frá fráveitumálum við haughús sem þar stendur og hýsir minkana. Yfirfallið hafi á sínum tíma lekið frá haughúsi og út í nærliggjandi læk en eigandi hafi að undanförnu brugðið á það ráð að dæla frá yfirfalli og út á túnin í kring. Það sé hins vegar ekki framtíðarlausn.

"Heilbrigðiseftirlitið ákvað í haust að taka upp dagsektir gagnvart búinu ef það skilaði ekki inn framkvæmdaáætlun um hvernig það hygðist ganga frá málum þarna," segir Þorsteinn.

Hann segir ótímasetta framkvæmdaáætlun hafa skilað sér að lokum og því hafi ekki komið til þess að beita dagsektum í bili. Hins vegar hafi fresturinn til að skila inn framkvæmdaáætlun verið runninn út og því hafi dagsektunum verið komið á í stuttan tíma en þeim síðan frestað.

Unnið að úrbótum

Fram kom af hálfu eiganda búsins að vegna mikilla anna í tengslum við pelsunartímabil sem stendur út fyrstu vikuna í desember hafi verið erfitt um vik að aðhafast nokkuð. Frá þeim tíma hafi eigandinn verið að skoða hvaða kostir séu í stöðunni. Meðal annars hafi forsvarsmaður búsins farið til Finnlands og kynnt sér búnað sem notaður er við loðdýrarækt auk þess sem búið hafi fengið til liðs við sig verkfræðistofuna Línuhönnun varðandi úrbætur.

Þorsteinn segir að dagsektum hafi ekki verið beitt hingað til og að bókun bæjarstjórnar komi að líkindum í kjölfar bókunar heilbrigðisnefndar frá 21. maí sem sett var fram í þeim tilgangi að þrýsta á um hugsanlegar úrbætur.

"Mér skilst á verkfræðistofunni að það verði unnið mjög hratt í þessu máli núna. Þannig að það er vonandi að það þurfi ekki að beita þessum dagsektum. Það er aldrei takmarkið í sjálfu sér heldur síðasti kosturinn," segir hann.