DRÖG að nýju deiliskipulagi fyrir skóla- og íþróttasvæði við Varmá verða á næstunni kynnt hagsmunaaðilum.

DRÖG að nýju deiliskipulagi fyrir skóla- og íþróttasvæði við Varmá verða á næstunni kynnt hagsmunaaðilum.

Að sögn Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns skipulags- og bygginganefndar, verða ekki gerðar stórvægilegar breytingar á íþrótta- og skólamannvirkjum en svæðið sem deiliskipulagið nær til er mun stærra en núverandi skipulag nær yfir. Helstu breytingarnar eru að sögn Eyjólfs þær að tjaldsvæði við íþróttahús verður tekið undir aðra notkun en þar er fyrirhugað að reisa leiktækja- og útvistarsvæði fyrir börn og fullorðna. Núverandi tjaldsvæði verður fært úr stað og fundinn staður hinum megin við Varmá. Þá verður reist þjónustuhús fyrir nýja tjaldsvæðið og hugmyndir eru uppi um að afmarka svæði fyrir húsbíla sem tengt verður við svæðið. Ráðgert er að reisa smáhýsi á sömu slóðum sem verða leigð út fyrir ferðamenn og þá er meðal annars stefnt að því að leggja nýjan grasvöll undir íþróttaiðkun og gert ráð fyrir mögulegri stækkun á stúku.

Tjaldstæði of áberandi frá götu

Í greinargerð sem fjallar um skipulag svæðisins segir að töluverðar breytingar hafi átt sér stað á því svæði sem deiliskipulagið nær yfir og sé það einkum vegna framkvæmda við skólann og íþróttamiðstöðina. Mörg smáatriði séu hins vegar ófrágengin innan skipulagssvæðisins og vert sé að ljúka þeim hið fyrsta. Lagt er til að tjaldstæðið verði fært yfir Varmá skammt frá Ullarnesbrekku. Þykir staðsetning þess í dag vera of nálægt Vesturlandsvegi og umferðarhávaði mikill. Þá þykir aðstaðan vera of áberandi frá götunni en með aukinni skógrækt muni nýja svæðið verða betur varið og ekki eins sýnilegt frá götu.

Gert er ráð fyrir ellefu smáhýsum fyrir ferðaþjónustu í Ullarnesbrekku. Verða þau staðsett þannig að hægt sé að hafa umsjón með rekstri þeirra samhliða rekstri tjaldstæðisins. Þjónustuhús fyrir snyrtingar- og þvottaaðstöðu verður byggt norðan við Varmá.

Lóð undir nýja sundlaug

Þá er lagt til að boltavöllur rísi meðfram gamla íþróttahúsinu. Stefnt er að því að byggt verði framhús við íþróttamiðstöðina. Um er að ræða allt að tveggja hæða byggingu með anddyri á jarðhæð og félagsaðstöðu á efri hæð. Þá hefur svæði undir nýja sundlaug verið tekið frá meðfram núverandi sundlaug. Einnig er gert ráð fyrir töluverðri aukningu á bílastæðum og samnýtingu bílastæða, meðal annars við íþróttahúsið, barnaskólann og gagnfræðaskólann.