Umferðaraukning og notkun nagladekkja er talin eiga stóran þátt í svifryksmengun í andrúmslofti. Myndin sýnir mælistöð Hollustuverndar ríkisins við Miklubraut.
Umferðaraukning og notkun nagladekkja er talin eiga stóran þátt í svifryksmengun í andrúmslofti. Myndin sýnir mælistöð Hollustuverndar ríkisins við Miklubraut.
GATNAMÁLASTJÓRI og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafa sent frá sér tillögur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar í andrúmslofti. Tillögurnar hafa verið kynntar bæði í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd.

GATNAMÁLASTJÓRI og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafa sent frá sér tillögur um aðgerðir til að minnka neikvæð áhrif svifryksmengunar í andrúmslofti. Tillögurnar hafa verið kynntar bæði í samgöngunefnd og umhverfis- og heilbrigðisnefnd. Meðal þess sem lagt er til er að hugað verði nánar að því hvort steypt slitlög geti dregið úr svifryksmengun auk þess sem kannaðir verði möguleikar á að selja sérstök kort er heimili notkun nagladekkja en eftirlit með notkuninni yrði þá meðal annars í höndum borgarstarfsmanna.

Einnig er lagt til að rannsóknir á svifryksmengun verði efldar, meðal annars með auknum loftmælingum. Með tillögunum fylgir greinargerð þar sem fjallað er um eðli svifryks, hvernig það er mælt og hversu mikill styrkur þess hafi mælst á undanförnum árum.

Teknar verði upp mælingar á fínna svifryki

"Það sem við viljum fyrst og fremst gera er að auka rannsóknir á svifryki," segir Sigurður Skarphéðinsson gatnamálastjóri. Hann segir að í dag fari eingöngu fram mælingar á grófari tegundum svifryks en lagt er til að einnig verði teknar upp mælingar á fínna svifryki og niðurstöðurnar kynntar almenningi, meðal annars með aðstoð Netsins. Hann sér fyrir sér að jafnvel yrði hægt að birta spár um svifryksmengun.

Í greinargerðinni er svifryk skilgreint og skipt í tvo flokka. Fínt svifryk er 2,5 míkrómetrar eða minna að stærð en gróft svifryk 2,5 - 10 míkrómetrar. Svifryk er af ýmsum toga og myndast meðal annars af völdum yfirborðsslits gatna, frjókorna, ryks frá útblæstri farartækja og frá hemlakerfum bifreiða. Svifryk getur borist inn í öndunarveg fólks en heilbrigt fólk getur losnað við rykagnir sem eru stærri en 5 míkrómetrar og setjast í efri loftveg með því að hnerra eða hósta. Fínasta svifrykið getur hins vegar borist niður í lungu og valdið þar ertingu.

Dagskort fyrir utanbæjarmenn

Það var umhverfis- og heilbrigðisnefnd sem fól gatnamálastjóra og Heilbrigðiseftirliti að vinna sameiginlega að úttektinni. Farið var fram á að sérstaklega yrði kannað hvernig hægt væri að draga úr loftmengun vegna umferðar og notkunar nagladekkja.

Í tillögunum er lagt til að tekið verði til ítarlegrar skoðunar að taka upp gjald fyrir heimild til að aka á nagladekkjum þann tíma sem notkun þeirra er leyfð. Bent er á að ýmsir bæir og borgir í Noregi hafi þegar tekið upp slíkt gjald eða stefni að því og er hvatt til samstarfs við þá aðila.

Til þess að unnt sé að hafa eftirlit með leyfisveitingum er bent á kannaðir verði möguleikar á samstarfi við nágrannasveitarfélögin auk möguleika á því að starfsmenn sveitarfélaganna geti ásamt lögreglu tekið að sér eftirlit með framkvæmdinni.

"Við erum að leggja til að menn velti fyrir sér hvaða lagabreytingar þurfi að gera til að taka gjald af þeim sem aka á nöglum. Menn hafa náð góðum árangri til að mynda í Ósló þar sem notkun nagladekkja hefur á nokkrum árum minnkað úr 50 til 60 prósentum í 20 prósent," segir Sigurður.

Sigurður nefnir að í Noregi séu sérstök árskort sem heimili notkun nagladekkja seld á bensínstöðvum. Verð á slíku korti í Noregi sé tíu þúsund íslenskar krónur. Utanbæjarmenn sem skreppi í bæinn geti hins vegar keypt skemmri kort sem gilda allt frá nokkrum mánuðum og niður í einn dag. Kortinu er þá komið fyrir í mælaborðinu þannig að það sé sýnilegt í gegnum framrúðu og sérstakir eftirlitsmenn athuga kortin. Þetta sé ekki ósvipað og eftirlit með stöðumælagjöldum.

"Við erum að benda á þennan möguleika sem að öllum líkindum myndi gagnast hérlendis," segir Sigurður.

Hann segir að ef þessi leið yrði farin yrði vetrarþjónusta stóraukin.

"Af þessu kæmu til að byrja með tekjur sem yrðu að sjálfsögðu ekki tekjuaukning fyrir borgina heldur myndu fara í að auka hálkueyðingu og bæta þjónustu."

Sigurður bendir einnig á fleiri tillögur til úrbóta gegn svifryksmengun. Meðal annars sé hægt að leggja áherslu á uppgræðslu örfoka lands, herða kröfur um hreinsun gatna og tryggja að jarðvegur berist ekki út á þær vegna framkvæmda á aðliggjandi svæðum. Einnig verði að huga að lausagangi bifreiða og draga úr hraðakstri en kannanir í Noregi sýni að sé dregið úr hraðakstri minnki svifryksmengun þótt ekki hafi verið færðar óyggjandi sönnur á orsakasamband þar á milli. Þá er bent á notkun steinsteypu í stað malbiks við gatnagerð.

Sigurður tekur fram í þessu sambandi að litlar upplýsingar liggi fyrir um svifryk frá steinsteypu þótt vitað sé að hún slitni síður en malbikið. Þetta sé meðal þess sem kanna verði nánar.

"Númer eitt í mínum huga er að auka mælingar og umræðu um svifryksmengun og vekja athygli fólks á að þetta sé til án þess að eitthvert fár skapist í kringum það. Þetta er hlutur sem menn telja að til lengri tíma sé óæskilegur og hafi slæm áhrif á heilsu manna en þar erum við að tala um mjög langan tíma," segir Sigurður.

Hluti mengunar frá sjávarúða og salti á götum

Svifryksmælingar hafa verið framkvæmdar af Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur frá árinu 1990 en mælingarnar hafa meðal annars farið fram við Grensásveg um 50 metrum frá Miklubraut. Mælt er samkvæmt svokölluðum sólarhringsgildum og ársgildum þar sem viðmiðunartími fyrir hverja mælingu er ýmist einn sólarhringur eða eitt ár. Meðaltalsgildi er síðan reiknað út frá þessum gildum.

Hollustuvernd hefur einnig stundað mælingar á svifryki við Miklatorg. Meðaltalsgildi á svifryksmengun er hærra við Grensásveg en við Miklatorg en fram kemur að svifryksmengun á báðum stöðum samkvæmt ársgildum mældist minni á síðastliðnu ári en árið þar á undan. Þá er tekið fram í greinargerðinni að samkvæmt lauslegum athugunum Heilbrigðiseftirlits séu 20 prósent af mældu svifryki kristallað salt sem berst sem sjávarúði og frá saltbornum götum.

Enginn hægðarleikur að fylgja tilskipunum

Að sögn Lúðvíks Gústafssonar sviðstjóra umhverfissviðs hjá Heilbrigðiseftirlitinu má ársmeðaltalsgildi ekki fara yfir 40 míkrógrömm á rúmmetra. Ef tekið er saman meðaltal áranna 1994 - 2000 er ársmeðaltalsgildi á svifryksmengun 34 grömm á rúmmetra en stefnir í 38 grömm árið 2005 sé miðað við þróun síðustu ára.

Samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins frá árinu 1999 eiga ársmörkin að vera komin niður í 20 míkrógrömm fyrir 1. janúar 2010. Hins vegar er stuðst við svokölluð sólarhringsgildi sem sýna meðaltal hvers sólarhrings fyrir sig.

Í dag er í gildi hér á landi reglugerð um brennisteinsdíoxíð og svifryk í andrúmslofti en hámarksmengun má samkvæmt henni ekki fara upp fyrir 130 míkrógrömm á rúmmetra í 98 prósentum tilvika. Í sjö daga á ári má mengunin fara upp fyrir þessi mörk.

Evrópusambandið hefur gefið út tilskipun varðandi sólarhringsgildi á svifryksmengun en samkvæmt henni verður mengunin að vera komin niður fyrir 50 míkrógrömm í 90 prósentum tilvika árið 2005 og 98 prósentum tilvika árið 2010. Segir í greinargerðinni að það verði enginn hægðarleikur að fara niður fyrir þessi mörk.