HINDRUNARSAGNIR bera nafn með rentu - þær taka rými af mótherjunum og koma oft í veg fyrir að þeir geti lýst spilum sínum af nákvæmi. En stundum heldur makker á öllum spilunum og þá beinist hindrunin óviljandi að honum.

HINDRUNARSAGNIR bera nafn með rentu - þær taka rými af mótherjunum og koma oft í veg fyrir að þeir geti lýst spilum sínum af nákvæmi. En stundum heldur makker á öllum spilunum og þá beinist hindrunin óviljandi að honum. Það gerðist í þessu spili frá æfingu landsliðsins um síðustu helgi:

Norður gefur; NS á hættu.

Norður
Á107654
--
642
10965

Vestur Austur
98 DG2
8765 G4
95 Á1083
ÁG873 KD42

Suður
K3
ÁKD10932
KDG7
--

Matthías Þorvaldsson og Þorlákur Jónsson voru í NS gegn Sigurbirni Haraldssyni og Bjarna Einarssyni:

Vestur Norður Austur Suður
Bjarni Matthías Sigurbjörn Þorlákur
-- 2 spaðar Pass 3 hjörtu
Pass 3 spaðar Pass 4 tíglar
Pass 5 tíglar Pass 6 hjörtu
Pass Pass Pass

Opnun Matthíasar er veik með sexlit í spaða. Matthías er á hættu gegn utan hættu og í því ljósi keyrði Þorlákur í slemmu, þótt hann hefði svo sem enga fullvissu fyrir því að makker ætti ás í spaða eða tígli. Bjarni lagði niður laufás og Þorláki var létt þegar hann sá spaðaásinn birtast í borði. Það þýddi að spilið var ekki vonlaust, en hins vegar þurfti legan að vera hagstæð - hjartagosinn varð að falla og tígullinn helst 3-3. Þó var sá aukamöguleiki fyrir hendi að sami mótherji héldi á lengd í tígli og spaða. Og sú var raunin hér.

Þorlákur trompaði laufásinn, tók fjórum sinnum hjarta og spilaði tígulkóng. Sigurbjörn drap strax með ás og spilaði laufi. Þorlákur stakk og tók síðasta trompið. Það var of mikil pressa fyrir austur, sem gat ekki valdað bæði tígul og spaða, svo slemman vannst.

Eftir á að hyggja virðist ekki fráleitt að nota "Voidwood" í þessari stöðu, en það er ásaspurning á fimmta þrepi, sem útilokar einn lit - eyðulitinn. Það mætti hugsa sér að stökk beint í fimm lauf við tveimur spöðum væri slík spurning (og þá með spaða sem tromplit til að byrja með), en Matthías og Þorlákur höfðu ekki komið sér saman um þessa aðferð og Þorlákur hafði ekki áhuga á að spila fimm lauf á eyðuna.