ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tilkynnti í gær að hann ætlaði að fá utanaðkomandi aðila til að meta forsendur og mat Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið, en eins og Jóhann Sigurjónsson, forstjóri stofnunarinnar, greindi frá sl.

ÁRNI M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra tilkynnti í gær að hann ætlaði að fá utanaðkomandi aðila til að meta forsendur og mat Hafrannsóknastofnunar á ástandi nytjastofna við landið, en eins og Jóhann Sigurjónsson, forstjóri stofnunarinnar, greindi frá sl. þriðjudag hefur þorskstofninn verið stórlega ofmetinn undanfarin ár og er nú í sögulegu lágmarki.

Árni M. Mathiesen segir að þótt mat Hafrannsóknastofnunar sé ófullkomið sé vísindaleg úttekt stofnunarinnar besta matið sem Íslendingar hafi til að byggja fiskveiðistjórnun sína á. Hins vegar verði að skoða málið mjög vel í ljósi ríkjandi óvissu og því hafi hann ákveðið að bregðast við með ítarlegri naflaskoðun.

Sjávarútvegsráðherra ætlar að óska formlega eftir skýringum Hafrannsóknastofnunar á ofmati á þorski undanfarin fjögur ár. Hann ætlar einnig að óska eftir því formlega við Fiskistofu að hún geri grein fyrir þeim þáttum sem geti haft áhrif á nákvæmni upplýsinga um landaðan afla. Hann leggur enn fremur áherslu á að störfum aflareglunefndar verði hraðað, að lögin um Hafrannsóknastofnun verði endurskoðuð og athugun fari fram á grundvelli fram kominnar gagnrýni. Niðurstöður eiga að liggja fyrir í haust og að þeim loknum, í lok október eða nóvember, stendur til að skipuleggja sérstakt málþing þar sem almenningi gefst kostur á að fylgjast með og koma á framfæri sjónarmiðum þegar sérfræðingar fara yfir helstu þætti rannsókna og stjórnunar í sjávarútvegi.

Árni M. Mathiesen segir að ekki sé verið að gera Hafrannsóknastofnun að blóraböggli. "Ég er ekki að kasta rýrð á Hafrannsóknastofnun eða vantreysta henni en það hafa komið upp hlutir sem gera það að verkum að við treystum þessu ekki eins vel í dag og við gerðum í gær."