SEX stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa sameinast um starfshóp til að vinna að áætlun og greinargerð um fyrirhugað álver á Reyðarfirði til að leggja fyrir stjórnir sjóðanna.

SEX stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa sameinast um starfshóp til að vinna að áætlun og greinargerð um fyrirhugað álver á Reyðarfirði til að leggja fyrir stjórnir sjóðanna. Að sögn Þorgeirs Eyjólfssonar, forstjóra Lífeyrissjóðs verslunarmanna sem fer fyrir starfshópnum, þarf að hafa hraðar hendur því ætlunin sé að segja af eða á um hvort ráðist verður í stóriðju á Austurlandi í félagi við Norsk Hydro strax upp úr áramótum.

Þeir lífeyrissjóðir sem aðild eiga að starfshópnum eru Lífeyrissjóður verslunarmanna, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, Lífeyrissjóðurinn Framsýn, Sameinaði lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður sjómanna og Lífeyrissjóður Norðurlands. Það eru framkvæmdastjórar sjóðanna sem eiga sæti í starfshópnum fyrir þeirra hönd og eiga að afla nægilegra upplýsinga á næstu vikum og mánuðum til að í haust og vetur verði hægt að taka endanlega ákvörðun.

"Það er ljóst að við verðum að halda vel á spilunum og nýta sumarið vel. Eigi tímamörk að standast þarf að hraða uppbyggingu fyrir austan og fá til þess umtalsvert erlent lánsfé," sagði Þorgeir við Morgunblaðið. Hann segir að viðræður við erlend lánafyrirtæki hefjist innan tíðar.

Fundur var haldinn meðal fjármálafyrirtækja, stórfyrirtækja og lífeyrissjóða um Reyðarálsverkefnið á Hótel Sögu á dögunum þar sem farið var yfir stöðu mála og þann fjárfestingarkost sem fyrirhugað álver er. Að sögn Þorgeirs kom m.a. fram á fundinum að samanlagður kostnaður við byggingu álvers og rafskautaverksmiðju á Reyðarfirði yrði ekki undir 100 milljörðum króna.

Formaður stjórnar eins stærsta lífeyrissjóðs landsins, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, er Ögmundur Jónasson, alþingismaður vinstri- grænna og formaður BSRB. Hann segir málið hafa verið lítillega rætt innan stjórnar sjóðsins en telur ekki raunhæft að fjalla um það af alvöru á þessu stigi málsins. Til þess skorti enn of miklar grunnupplýsingar.

"Við höfum orð ríkisstjórnarinnar fyrir því að Landsvirkjun muni ekki fara út í framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun nema hún hafi tryggt sér orkusölusamning sem felur í sér 5-6% arðsemi af fjárfestingum vegna virkjunarinnar," segir Ögmundur. "Samkvæmt mínum kokkabókum mun slík arðsemi þýða mjög hátt orkuverð og verði orkuverðið eins hátt og ég hef grun um að það þyrfti að vera er ljóst að það verður ekkert af þessum framkvæmdum."

Ögmundur segir að af þessum sökum eigi lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar að fara sér hægt. "Mér þætti mjög óábyrgt að fara fram með þessi mál áður en orkusölusamningar liggja fyrir," sagði hann.