ÁRNI M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að aflareglunefnd hafi verið endurvakin til að meta sérstaklega hvaða áhrif reglan hefði haft og bera það saman við hvaða áhrif nefndin hafði gert ráð fyrir að reglan hefði.

ÁRNI M. Mathiesen, sjávarútvegsráðherra, segir að aflareglunefnd hafi verið endurvakin til að meta sérstaklega hvaða áhrif reglan hefði haft og bera það saman við hvaða áhrif nefndin hafði gert ráð fyrir að reglan hefði.

Sjávarútvegsráðherra skipaði nefndina fyrir nokkru er verkefni hennar að endurskoða skýrslu vinnuhóps Hafrannsóknastofnunarinnar og Þjóðhagsstofnunar, sem skilaði af sér í maí 1994, varðandi nýtingu einstakra fiskistofna. Nefndinni er ætlað að meta þann árangur sem náðst hefur í nýtingu þorsks, ýsu og rækju og líta í því sambandi m.a. til reynslu annarra þjóða. Nefndinni er einnig falið það hlutverk að skoða hvort unnt sé að ákvarða langtímanýtingu annarra nytjastofna hér við land.

Breyttar aðstæður

Árni M. Mathiesen segir að áður en hann hafi fengið skýrslu frá fyrri aflareglunefnd í fyrra hafi hann hugleitt að endurvekja nefndina til að fara yfir málin í ljósi breyttra aðstæðna. Þá hafi þessar breyttu aðstæður falist í því að nýir stórir árgangar hafi komið í veiðina og menn séð fyrir sér að hægt væri að auka kvótann. Rallið í fyrra og skýrsla Hafrannsóknastofnunar hefðu hins vegar frestað ákvarðanatöku.

Nefndin er að mestu leyti skipuð sömu mönnum og voru í fyrri nefnd eða störfuðu með henni. Brynjólfur Bjarnason er formaður nefndarinnar en í henni sitja einnig Friðrik Már Baldursson, varaformaður, Jóhann Sigurjónsson, Gunnar Stefánsson, Þórður Friðjónsson, Sævar Gunnarsson, Ásgeir Daníelsson og Kristján Þórarinsson.

Árni M. Mathiesen segir að það sé að vissu leyti galli að nefndin eigi að endurskoða eigin verk en í skýrslunni séu ýmsar væntingar og því sé mjög nauðsynlegt að sömu menn komi aftur að málinu. Til viðbótar komi svo annar utanaðkomandi aðili sem hafi ekki komið að málinu. Hann segir það hafa verið mikinn sigur þegar aflareglan hefði verið tekin upp og hann hefði ekki gefið þá hugsun upp á bátinn en hugmyndafræðin byggi á því að stofnstærðarmatið sé nákvæmara en það hafi reynst vera undanfarin fjögur ár.

Upphafið 1992

Það var í júlí 1992 sem Þorsteinn Pálsson, þáverandi sjávarútvegsráðherra, fólHafrannsóknastofnun að gera tillögur til ráðherra um hvernig nýtingu einstakra fiskistofna skyldi háttað með það að markmiði að hámarksafrakstri Íslandsmiða yrði náð til lengri tíma. Í framhaldi af því óskaði stjórn Hafrannsóknastofnunar eftir samstarfi við Þjóðhagsstofnun um þetta verkefni og í janúar árið eftir var myndaður sérstakur vinnuhópur eða nefnd, en þá þegar var fyrirsjáanlegt að mati fiskifræðinga að draga þyrfti verulega úr fiskveiðum.

Fyrir það fiskveiðiár höfðu fiskifræðingar lagt til að veidd yrðu 250.000 tonn af þorski, en heildarafli varð 274.000 tonn. Fyrir næsta fiskveiðiár lögðu fiskifræðingar til að veidd yrðu190.000 tonn, en heildarafli varð 197.000 tonn.

Við þessar aðstæður hóf nefndin störf sín. Fyrst í stað var lagt mat á þrjár leiðir við stjórnun þorskveiða; að áfram yrði haldið að veiða um 225.000 tonn, að þorskaflinn yrði takmarkaður við 175.000 tonn þar til stofninn bæri meiri veiði og loks að aflinn yrði takmarkaður við 125.000 tonn þar til stofninn rétti sig af. Niðurstöður úr reiknilíkönum sýndu þá 30% líkur á hruni þorskstofnsins við 225.000 tonna veiði. Við veiði á 175.000 tonnum myndi hrygningarstofninn standa í stað. Yrðu aðeins veidd 125.000 tonn, myndi stofninn eflast og engar líkur væri á hruni hans.

Í skýrslu nefndarinnar er talað um aflareglu sem kost við veiðistjórnun. Þá er annars vegar miðað við hlutfall úr hrygningarstofni og hins vegar veiðistofni. Nefndin kom ekki með neinar beinar tillögur í skýrslu sinni, sem hún skilaði af sér í maí 1994.

Nefndina skipuðu: Brynjólfur Bjarnason, formaður, Jakob Jakobsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Gunnar Stefánsson, Hafrannsóknastofnun, Þórður Friðjónsson, forstjóri Þjóðhagsstofnunar, Friðrik Már Baldursson, Þjóðhagsstofnun, Ásgeir Daníelsson, Þjóðhagsstofnun og Kristján Þórarinsson, stofnvistfræðingur LÍÚ. Ritari nefndarinnar var Halldór Árnason, aðstoðarmaður sjávarútvegsráðherra.

Fyrir það fiskveiðiár lögðu fiskifræðingar til 150.000 tonna þorskafla og næsta fiskveiðiár töldu þeir ekki óhætt að veiða meira en 130.000 tonn. Bæði árin var mun meiri veiði leyfð. Það var svo fiskveiðiárið 1995/1996, sem aflareglan var tekin upp. Hún kvað á um 25% veiði úr veiðistofni, en þó aldrei minna en 155.000 tonn, sem var leyfilegur afli þá. Síðan hefur aflareglunni verið beitt óbreyttri þar til í fyrra er 30.000 tonna sveiflujöfnun var tekin upp.