[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni af alþjóðlegu tungumálaári birtir Morgunblaðið nokkrar greinar tengdar hinum ýmsu tungumálum. Hér fjallar Gérard Lemarquis um það að kenna Íslendingum frönsku. Greinar þessar eru birtar í samvinnu við Stíl, samtök tungumálakennara.

ÞAÐ að læra íslensku er fyrst og fremst kennsla í hógværð. Sama hversu flinkir við útlendingarnir teljum okkur vera, íslenskan slær okkur alltaf við. Hins vegar halda margir Íslendingar, sem plumma sig vel í útlöndum, að það sé vegna eigin snilldar en ég mundi halda að það sé oftast hæfileika Íslendinga til að læra erlend tungumál að þakka. Íslenskan er dásamlegt hjálpartæki.

Það er bara verst að maður skuli þurfa að fara til landa þar sem enginn talar hana til að upplifa það.

Íslensk tunga er næstum alltaf málfræðilega flóknari en franskan. Sjaldan verð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að hefna mín en það kemur þó fyrir. Tilvísunarfornöfn til dæmis. Á meðan íslenskan notar einfaldlega "sem" í öllum útgáfum, býður franskan upp á fjölda valmöguleika í ýmsum tóntegundum, með óteljandi tilbrigðum. Ég nýt þess í laumi að sjá nemendur mína flækjast, vaða mýrarfen og sökkva, þar til ég kem þeim til bjargar. Því oftar en ekki er það ég sem er í þessum sporum.

Í aldarfjórðung hef ég kennt Íslendingum móðurmál mitt. Alltaf er allt eins en þó allt öðruvísi. Kennsluaðferðirnar breytast. Málfræðikennsla var ekki í náðinni þegar ég byrjaði en hefur komið aftur. Maður kenndi með skyggnum og segulbandi og síðan kom myndvarpinn. Í dag er það sjálfsnám fyrir framan tölvu sem háskólanemar eru vitlausir í. Fínt! Áður en ég varð þátttakandi í ljósritasvallinu sneri ég sprittstenslum og nemendurnir önduðu áfengisþefnum að sér af áfergju. Persónulega hef ég alltaf verið hálfhræddur við rafknúin kennslutæki. Ég kýs heldur að vera aleinn á pallinum fyrir framan nemendur með krít í hendi. Línudansari án öryggisnets. Og það er engin æfing tilbúin í minni tölvu.

Nemendur hafa upplifað mig í gegnum tíðina sem svolítið eldri en þau, yngri en foreldrarnir, jafngamlan, eldri en ... Mér hefur farið fram í íslenskunni og ég þarf ekki lengur að vera með kúnstir til að gera mig skiljanlegan.

Reyndar geri ég það ennþá en bara nemendum mínum til skemmtunar.

Frakkland sem ég vísa til hefur breyst og Ísland ekki minna. Sem betur fer hafa málfræðireglurnar ekkert breyst. Maður þarf fasta punkta í lífinu. Ég verð að eilífu þakklátur (við hvern á ég að segja takk?) fyrir að vera í vinnu þar sem það að vera öðruvísi er kostur. Kannski hefur kennslan verið þerapía fyrir mig.

Ég hef alltaf haft gaman af því að kenna byrjendum. Mér líkar þessi galdrastund þegar allt byrjar. Að læra nýtt tungumál er að byrja frá núlli. Ég veit ekkert um nemendurna og skólafortíð þeirra. Þeir eru hvorki góðir né lélegir. Þeir eru fyrir framan mig. Önnin byrjar og viðhorf mótast. Þessi viðhorf sem þola vonbrigði ef þau eru góð en sem svo erfitt er að leiðrétta ef þau verða neikvæð. Allir nemendur eru jafnir í byrjun. Ennþá hefur enginn fengið einkunn en síðan kemur þessi óhjákvæmilega stund þegar gjáin opnast á milli þeirra sem læra hratt og hinna. Þetta er spennandi tímabil fyrir kennarann þegar stroka þarf út ójafnvægið með því að spyrja veikustu nemendur auðveldra spurninga til að skapa vellíðan og samkennd í hópi þar sem allir geta hlegið saman og verið þátttakendur í sameiginlegri upplifun.

Tungumálakennari sem kennir byrjendum spyr heimskulegra spurninga sem hann kann svörin við. Guðrún, comment tu t'appelles? (Guðrún, hvað heitir þú?) Sem betur fer sjá nemendurnir ekki hvað ástandið er fáránlegt, því þeir eru uppteknir af því að bera orðin fram. Quel âge as-tu? (Hvað ert þú gamall/gömul?) Spyr maður einhvern sem maður þekkir ekki að þessu? Où est-ce que tu habites? (Hvar átt þú heima?) Kemur það mér við? Og það er ekki allt talið: Kennarinn sem bendir á borð og spyr hvað þetta sé eins og hann sé að sjá það í fyrsta skipti og nemendinn sem svarar kannski að þetta sé gluggi. Gettu betur! Tungumál gleymast sem betur fer. Þau éta hvert annað upp. Fyrsta erlenda tungumál heldur velli en öðru og þriðja er ýtt til hliðar af því fjórða. Orðaforði og lymskulegar málfræðireglur gleymast eins og minningar. Heilabúið vinnur ekki betur en tölvuskepnan. Vinnuskapandi fyrir tungumálakennara! Án eftirsjár minnist ég tíma í latínustílum. Eru þeir ennþá til? Það hefur hins vegar veitt sjálfum mér sífellt endurnýjaða ánægju að kenna í mörg ár franska stílagerð við Háskóla Íslands. Friðsamlegt mót tveggja tungumála er krefjandi og um leið blekkjandi æfing, þar sem nemandinn lærir meira um sitt eigið tungumál sem hann uppgötvar en um erlenda tungumálið sem hann er að læra. Og ég í sömu glímu er að uppgötva hið gagnstæða á meðan ég byggi hverja brúna á fætur annarri yfir lækinn sem aðskilur tungumálin tvö eða kasta stiklum út í vatnið til að hægt sé að vaða yfir fram og til baka að eilífu.

Höfundur er kennari við Menntaskólann í Hamrahlíð og Háskóla Íslands.