Breski Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í gær, ef marka má útgönguspár breska útvarpsins, BBC .

Breski Verkamannaflokkurinn vann stórsigur í þingkosningunum í gær, ef marka má útgönguspár breska útvarpsins, BBC. Með Tony Blair í broddi fylkingar hefur Verkamannaflokknum nú tekist að halda meirihluta í tvennum kosningum, en Íhaldsflokkurinn, sem eitt sinn var sagt að enginn stæði á sporði þegar smala þyrfti atkvæðum, situr eftir með sárt ennið.

Verkamannaflokkurinn hefur að mörgu leyti verið allt annað en sannfærandi undanfarið. Stjórn Blairs var gagnrýnd fyrir það hvernig tekið var á málum þegar gin- og klaufaveiki blossaði upp í breskum búpeningi. Þá hefur einnig verið höfð uppi hörð gagnrýni á stöðu heilbrigðismála, slælegar almenningssamgöngur, skólakerfi í kröggum og að fólk sé ekki óhult á götum úti.

Það er hins vegar til marks um vanda Íhaldsflokksins að honum skyldi ekki takast að færa sér það í nyt að um sveitir Bretlands voru dýrahræ brennd í haugum og í kjölfarið blasti við hrun í ferðaþjónustu. Þótt kjósendur væru óánægðir með frammistöðu Verkamannaflokksins í heilbrigðis-, skóla- og samgöngumálum voru þeir enn síður tilbúnir til að treysta Íhaldsflokknum fyrir þeim málaflokkum.

Verkamannaflokkurinn þótti ekki reka góða kosningabaráttu og fjölmiðlar gagnrýndu Blair og félaga hans harðlega hvað eftir annað fyrir að setja kosningauppákomur á svið. William Hague, leiðtogi íhaldsmanna, leiddi ótrauður flokk sinn og lét ekki deigan síga þótt ljóst hafi verið frá upphafi að hann ætti í vændum slæma útreið. Hague er flugmælskur. Hann hefur hvað eftir annað sýnt það í breska þinginu að hann getur hæglega kveðið andstæðinga sína í kútinn og er Blair þar ekki undanskilinn. Hann þykir hins vegar litlaus persónuleiki og rökfimin ein dugði honum ekki til að afla sér hylli kjósenda. Vangaveltur um framtíð hans eru þegar hafnar.

Íhaldsflokkurinn hefur verið á villigötum um nokkurt skeið. Hann er klofinn í Evrópumálum og kemst ekki út úr þeim vanda. Afstaða hans í málum innflytjenda hefur verið óljós en flokksforustan hefur lítið gert til að hreinsa af sér stimpil andstöðu við útlendinga og hefur síður en svo verið fánaberi umburðarlyndis.

Þá hefur verið ljóst af kosningafundum flokksins að stuðningur þeirra kemur úr einsleitum hópi hvítra og eldra fólks.

Verkamannaflokknum tókst á hinn bóginn að halda miðju stjórnmálanna sem hann sölsaði undir sig undir merkjum hinnar svokölluðu þriðju leiðar 1997. Þá tókst flokknum að sannfæra kjósendur um að hann gæti farið með efnahagsmál og þeirri ímynd hefur hann haldið.

Blair hefur sett sér það markmið að 21. öldin verði öld Verkamannaflokksins við völd líkt og Íhaldsflokkurinn hafði tögl og hagldir mestan hluta 20. aldarinnar. Þegar Morgunblaðið fór í prentun benti allt til þess að hlutföll flokkanna á þingi yrðu lítið breytt. Verkamannaflokkurinn hefur því tryggt stöðu sína en Íhaldsflokkurinn hefur á brattann að sækja.

MIKILVÆGT STARF ÍÐORÐANEFNDA

Öflug nýyrðasmíði hefur verið ein af undirstöðum íslenskrar málræktar. Tökuorð úr erlendum málum eru til dæmis talin hlutfallslega færri í íslensku en í norrænu málunum í Skandinavíu. Þetta starf hefur ekki síst verið unnið í íðorðanefndum á vegum fjölmargra fag- og fræðigreina og þá oftast í sjálfboðavinnu. Í því hefur hinn almenni áhugi landsmanna á verndun og rækt tungunnar endurspeglast skýrlega.

Elsta starfandi íðorðanefndin er orðanefnd rafmangsverkfræðinga en hún varð sextíu ára 16. maí síðastliðinn. Nefndin stendur raunar á enn eldri grunni, eins og fram kom í viðtali við Berg Jónsson formann hennar, þar sem þeir sem stofnuðu hana höfðu sumir hverjir starfað í orðanefnd Verkfræðingafélags Íslands sem stofnuð var 1919. Nefndinni hefur líka haldist vel á fólki en aðeins þrír formenn hafa verið fyrir henni frá stofnun og meðalstarfstími þeirra níu manna sem í henni sitja nú er 23 ár. Í nefndinni hefur þannig safnast mikil þekking og reynsla. Er það tvímælalaust dýrmætt fyrir starf hennar sem hefur verið árangursríkt en á annan tug orðasafna hafa komið út á vegum hennar. Nýyrðin sem nefndin hefur smíðað á sextíu ára starfsferli lita líka daglegt mál flestra Íslendinga en þar má geta orða eins og skjár, segulsvið, raflögn, spennistöð, rofi og tengill, loftnet, myndband og hljóðband.

Nýyrðasmíði miðar að því að Íslendingar geti notað íslensku á sem flestum sviðum. Ekki eru allir sammála um að þetta sé endilega nauðsynlegt og tala um að einfaldara væri að taka erlend orð inn í málið, þannig mætti þar að auki koma í veg fyrir að upphafleg merking hins erlenda orðs og hugsanlegar aukamerkingar glötuðust.

Rökin með nýyrðasmíðinni vega þó þyngra. Þar má nefna hagkvæmnisrök á borð við þau að sjaldnast eru áhöld um rithátt og beygingu nýyrða af íslenskum stofnum og einnig eru þau oftast gagnsæ sem gerir almenningi en ekki aðeins sérfræðingum auðvelt að skilja þau. Menningarleg og þekkingarleg rök eru ekki síður veigamikil. Með hinni sífelldu glímu við tungumálið er því haldið lifandi og í tengslum við nýja tíma. Af þessari glímu spretta líka ný sjónarhorn á hlutina. Með aðlögun tungumálsins að nýrri þekkingu eru Íslendingar einnig að skapa nýja þekkingu þar sem sú hefð sem býr í tungu þeirra og menningu er virkjuð.

Það starf sem íðorðanefndir hafa unnið er sannarlega mikilvægt. Ástæða er til þess að hvetja þá sem það stunda til enn frekari dáða.