Íranskar konur sitja í skugganum af bíl sem er alsettur myndum af Khatami forseta.
Íranskar konur sitja í skugganum af bíl sem er alsettur myndum af Khatami forseta.
HELSTU stuðningsmenn Mohammads Khatamis Íransforseta spá því að hann muni vinna annan stórsigur í forsetakosningunum er fram fara í dag, og fá endurnýjað umboð til að halda áfram umbótaáætlunum sínum.

HELSTU stuðningsmenn Mohammads Khatamis Íransforseta spá því að hann muni vinna annan stórsigur í forsetakosningunum er fram fara í dag, og fá endurnýjað umboð til að halda áfram umbótaáætlunum sínum.

"Við teljum að atkvæðin verði fleiri en síðast - bæði hlutfallslega og í kjörsókn," sagði Mohsen Mirdamadi, þingmaður Íslömsku þátttökuhreyfingarinnar, flokks sem hlynntur er Khatami.

Sagði hann ennfremur að væntanlegur stórsigur Khatamis á níu öðrum frambjóðendum, íhaldssinnum og óháðum, myndi neyða íslamska harðlínumenn er gegni háum, opinberum embættum án þess að hafa verið kjörnir til þeirra, til að hætta að hindra umbætur.

"Ef Khatami fær fleiri atkvæði þrátt fyrir öll vandamál undanfarinna tveggja eða þriggja ára þýðir það að fólk vill fylgja honum. Þrýstingur frá almenningi og öflugur stuðningur hans getur leitt til breytinga á næsta hálfa ári," sagði Mirdamadi.

Í skoðanakönnun er gerð var í síðustu viku fyrir sjónvarpið í Abu Dhabi var Khatami spáð öruggum sigri með 75% atkvæða. Helsti keppinautur Khatamis er Ahmad Tavakoli, fyrrverandi atvinnumálaráðherra, en hann samkvæmt skoðanakönnunum er fylgi hans mun minna en forsetans, eða aðeins um 11%.

Khatami vann óvæntan sigur á frambjóðanda ráðandi íhaldsafla í Íran í kosningunum 1997, og hlaut 20 milljónir atkvæða. Nú eru um 42,1 milljón á kjörskrá, og hljóti Khatami fleiri atkvæði nú en fyrir fjórum árum myndi það veita honum gífurlegan styrk og auka þrýsting á að andstæðingar hans fari bil beggja.

Þrátt fyrir vinsældir Khatamis hafa íhaldsmenn tögl og hagldir í réttarkerfinu í Íran, hernum, fjölmiðlum, pólitískum eftirlitsráðum og öflugum stofnunum sem svo að segja stjórna efnahagslífinu

Þótt Khatami muni tryggja sér setu á forsetastóli í fjögur ár til viðbótar eru Íranir nú að kjósa "næstæðsta mann" stjórnkerfisins, eins og ríkisfjölmiðlar hafa minnt kjósendur á undanfarið. Völd æðsta leiðtoga landins, Ayatollah Alis Khameneis, eru margfalt meiri en völd forsetans, og hefur Khamenei ekki hikað við að beita sér til þess að hafa hömlur á áætlunum forsetans um félagslegar og pólitískar umbætur.

Khamenei sá sjálfur til þess í fyrra að þingið, þar sem umbótasinnar eru í meirihluta, gæti ekki aflétt fjölmiðlabanni sem sett hefur verið á yfir 40 dagblöð, og varð þetta alvarlegt áfall fyrir umbótastefnu Khatamis forseta.

Þegar Khamenei er ekki sjálfur í sviðsljósinu lætur hið valdamikla Verndararáð til sín taka og notar neitunarvald sitt til að stöðva framgang lagafrumvarpa sem þingið hefur samþykkt. Dómstólar, sem einnig eru í höndum íhaldssinna, hafa undanfarið hneppt fjölda stuðningsmanna forsetans í varðhald, blaðamenn, stúdentaleiðtoga og andspyrnumenn.

Khatami forseti hefur sjálfur barmað sér yfir því hversu lítil völd hann hafi, þótt margir utanaðkomandi stjórnmálaskýrendur hafi haldið því fram að umbótastefna forsetans muni á endanum verða ofan á. "Ég held að við munum sjá umtalsverðar breytingar á næstu tveim til þrem árum," sagði asískur stjórnarerindreki við fréttamann AFP-fréttastofunnar. "Íhaldsmenn einfaldlega geta ekki haldið uppteknum hætti."

Teheran. Reuters.