LÍK ÞÚSUNDA barna voru flutt til Bandaríkjanna frá Hong Kong, Ástrarlíu, Bretlandi, Kanada og Suður-Ameríku og þau notuð í leynilegum kjarnorkutilraunum. Þetta kemur fram í gögnum frá bandaríska orkumálaráðuneytinu sem nýlega voru gerð opinber.

LÍK ÞÚSUNDA barna voru flutt til Bandaríkjanna frá Hong Kong, Ástrarlíu, Bretlandi, Kanada og Suður-Ameríku og þau notuð í leynilegum kjarnorkutilraunum.

Þetta kemur fram í gögnum frá bandaríska orkumálaráðuneytinu sem nýlega voru gerð opinber.

Byrjað var á tilraunaverkefninu, sem hlaut leyninafnið "sólskynsverkefnið", að undirlagi Nóbelsverðlaunahafans Willards Libby. Meðal gagnanna sem birt voru er afrit samtals þar sem eftirfarandi er haft eftir Libby: "Við báðum mjög dýra lögfræðistofu um að athuga lög um líkamsþjófnaði. Þau eru ekki mjög uppörvandi". Samt sem áður hvatti hann samstarfsmenn sína til finna leiðir til að útvega mannslíkami í trássi við lögin.

Barnslíkum stolið

Í gögnunum segir að mörg barnslíkanna hafi verið tekin án þess að samráð hafi verið haft við foreldra eða aðstandendur þeirra. Jean Prichard sagði frá því í samtali við breska blaðið Observer að lappir dóttur hennar hefðu verið fjarlægðar að henni forspurðri. Til að koma í veg fyrir að hún kæmist að hinu sanna var henni bannað að klæða lík barnsins fyrir útförina. Fætur barnsins voru notaðir af breskum vísindamönnum sem stunduðu svipaðar rannsóknir og bandaríkjamennirnir.

Ásakanirnar rannsakaðar

Yfirvöld í Hong Kong og Ástralíu eru að rannsaka hvort fullyrðingar um að lík þúsunda barna hafi verið flutt frá ríkjunum tveimur til Bandaríkjanna eigi við rök að styðjast. Ástralska geislavarnar- og kjarnorkuöryggis stofnunin viðurkennir að hún hafi notað barnslík við rannsóknir á geislavirkni nokkurra efna en neitar að áströlsk barnslík hafi verið flutt til bandaríkjanna. Larry Arbeiter frá Chicagoháskóla staðfestir hins vegar að lík ástralskra barna hafi verið notuð við tilraunir í Bandaríkjunum frá árinu 1955.

Sólskinsverkefninu lauk seint á áttunda áratugnum.

London, Hong Kong, Sydney. AFP, The Daily Telegraph.