Kristín Einarsdóttir
Kristín Einarsdóttir
Í iðjuþjálfun er horft á lífshlaup einstaklingsins, segir Kristín Einarsdóttir, og áhugasvið hans haft að leiðarljósi.

IÐJUÞJÁLFUN á íslenskum hjúkrunarheimilum á sér ekki langa sögu. Þegar þessi orð eru rituð er undirrituð eini starfandi iðjuþjálfinn á hjúkrunarheimili hér á landi. Á næstu mánuðum munu þó að minnsta kosti þrír aðrir iðjuþjálfar koma til slíkra starfa. Hingað til hefur hefðin á hjúkrunarheimilum verið sú að ráða færar hannyrðakonur eða föndurleiðbeinendur til að sjá um afþreyingu fyrir heimilisfólk og er það vel. Verkefni iðjuþjálfa eru aftur á móti önnur.

Viðfangsefnið "iðjuþjálfun á hjúkrunarheimili" er dálítið ólíkt því sem iðjuþjálfar fást við að öllu jöfnu. Þeir vinna oft að endurhæfingu skjólstæðinga. Á hjúkrunarheimili er takmarkið ekki það að fólk útskrifist heldur að viðhalda andlegri og líkamlegri færni þess og gera síðustu ár, mánuði eða vikur ævinnar eins rík af lífsgæðum og mögulegt er. Þessi markmið nálgast iðjuþjálfar með ýmsum hætti.

Dagleg iðja fólks

Iðjuþjálfun byggist á hugmyndum og vísindum er varða iðju. Í iðjuþjálfun er horft á lífshlaup einstaklingsins og áhugasvið hans haft að leiðarljósi. Í náinni samvinnu við skjólstæðinginn, er tekið mið af því vanamynstri sem hann hefur tamið sér í gegnum tíðina. Eins skipa þau hlutverk sem sá hinn sami hefur haft í lífinu stóran sess við skipulagningu íhlutunar.

"Iðja er allt" er setning sem iðjuþjálfar nota gjarnan, þegar lýsa þarf því í hverju iðjuþjálfun felst. Með iðju er átt við öll þau verk og athafnir sem fólk tekur þátt í til að annast sig og sína, njóta lífsins og vera nýtir þjóðfélagsþegnar. Iðjuþjálfar nota öll þau verk sem fólk innir af hendi í daglegu lífi sem þjálfun. Í þessu samhengi er oft talað um "athafnir daglegs lífs" og er þá skammstöfunin ADL gjarnan notuð. Í athöfnum daglegs lífs felst m.a. að klæða sig, borða, snyrta og baða en einnig að komast um, kaupa inn, stunda tómstundaiðju og svo mætti lengi telja.

Heimilisfólk á hjúkrunarheimilum hefur flestallt sökum sjúkdóma eða slysa misst færni til að sinna grunnþörfum sínum af eigin rammleik. Það hefur skerta því ADL-færni. Þótt inn á hjúkrunarheimili sé komið er engu að síður lykilatriði að heimilisfólk viðhaldi daglegri færni sinni eins lengi og kostur er, því virkni einstaklingsins er alltaf jafnmikilvæg. Nauðsynlegt er að fólk hætti ekki að taka ákvarðanir um eigið líf og eigi kost á að sinna innihaldsríkri iðju.

Iðjuþjálfi metur þær iðjuraskanir sem einstaklingurinn glímir við og tekur mið af hreyfifærni og vitrænni getu heimilisfólks. Í náinni samvinnu við heimilismanninn er íhlutun skipulögð og viðeigandi hjálpartæki útveguð ef þörf er á. Iðjuþjálfar reyna ávallt að vinna skjólstæðingsmiðað þannig að þarfir einstaklingsins séu í fyrirrúmi og hann nýti sjálfsákvörðunarrétt sinn. Í raun og veru skipuleggur einstaklingurinn sjálfur sína íhlutun, auðvitað innan þess ramma sem við getum boðið upp á.

Mikilvægi iðjuþjálfunar

Á undanförnum árum hefur færst í vöxt að fjalla um lífsgæði. Stefnt er að því að viðhalda lífsgæðum aldraðra eins lengi og kostur er og hluti af því er að gera umhverfi hjúkrunarheimila heimilislegt og hlýlegt. Engu að síður er sú ákvörðun að flytjast á hjúkrunarheimili líklega ein sú stærsta sem tekin er í lífinu því margir líta svo á að um leið sé verið að afsala sér hluta af eigin frelsi.

Vissulega er hjúkrunarheimili síðasti viðkomustaður okkar í lífinu og einstaklingurinn er kominn í sambýli með fólki sem hann þekkir lítið sem ekkert. Sambýlingar eru í misjöfnu ástandi, andlegu sem líkamlegu. Ennfremur eru aðrir farnir að taka ákvarðanir fyrir þann aldraða, til dæmis um matmáls- og baðtíma. Þegar fólk hættir að taka ákvarðanir tengdar eigin lífi og fer algerlega að reiða sig á hjálp starfsfólks er hætt við að það missi þá litlu færni sem það hafði. Þar geta iðjuþjálfar komið við sögu og aðstoðað heimilisfólk og leiðbeint starfsmönnum þannig að efla megi færni heimilisfólks til að sinna daglegum athöfnum og viðhalda þar með því vanamynstri og þeim hlutverkum sem einstaklingnum er eðlilegt.

Ég hvet stjórnendur hjúkrunarheimila til að taka Hjúkrunarheimilið Skógarbæ og Hjúkrunarheimili aldraðra í Víðinesi sér til fyrirmyndar og ráða til sín iðjuþjálfa. Ljóst er að þörfin fyrir iðjuþjálfun á húkrunarheimili er ekki minni en á hefðbundnum endurhæfingarstöðvum.

Í vor munu 15 iðjuþjálfar útskrifast frá háskólanum á Akureyri og eru það fyrstu iðjuþjálfarnir sem hafa íslenska menntun. Hingað til hafa iðjuþjálfar þurft að mennta sig erlendis. Iðjuþjálfun í Skógarbæ hefur verið vinsæll verknámsstaður fyrir nemendur á iðjuþjálfunarbraut Háskólans á Akureyri og hafa færri komist að en vildu. Iðjuþjálfun á hjúkrunarheimili verður vonandi starfsvettvangur margra iðjuþjálfa á komandi árum. Sjálf á ég mér þá draumsýn að iðjuþjálfar verði starfandi á öllum íslenskum hjúkrunarheimilum í framtíðinni, líkt og tíðkast erlendis.

Höfundur er yfiriðjuþjálfi á Hjúkrunarheimilinu Skógarbæ og Hjúkrunarheimili aldraðra í Víðinesi.