VEGNA ummæla Atla Eðvaldssonar, landsliðsþjálfara í knattspyrnu, í viðtali við Morgunblaðið í gær vill Þórður Guðjónsson taka fram að hann hafi aldrei gagnrýnt íslenska landsliðið né einstaka leikmenn þess.

VEGNA ummæla Atla Eðvaldssonar, landsliðsþjálfara í knattspyrnu, í viðtali við Morgunblaðið í gær vill Þórður Guðjónsson taka fram að hann hafi aldrei gagnrýnt íslenska landsliðið né einstaka leikmenn þess. "Eina sem ég er ósáttur við er að komast ekki í liðið og spila með því. Eftir leikinn við Möltu spurði blaðamaður Fréttablaðsins mig hvort ég væri ekki ósáttur við að fá ekki að leika með, jafnframt lét hann þau orð falla í framhaldinu að leikurinn hefði verið lélegur. Þá svaraði ég því til að sigurinn hefði verið góður, en leikurinn ekki eins góður sem slíkur. Við verðum að gera betur til þess að vinna Búlgara, annað sagði ég ekki," segir Þórður og bætir við.

"Fyrir leikina gen Möltu og Búlgaríu hafði ég samband við Atla til að fá hans skoðun á því hvort ég ætti að sleppa landsleikjunum og fara þess í stað í aðgerð vegna meiðsla í ökkla sem hafa plagað mig í tvö ár. Atli lagði ríka áherslu á að ég kæmi í leikina, en síðan fékk ég ekki tækifæri til að leika eina einustu mínútu þegar á hólminn var komið. Vegna þess að ég gaf kost á mér hef ég neyðst til að fresta aðgerðinni á ökklanum um eitt ár."