STJÖRNUMENN sýndu Víkingum í tvo heimana í Laugardalnum í gærkvöldi og unnu sannfærandi sigur, 3:1, sem skilar þeim í þriðja sæti 1. deildarinnar í knattspyrnu. Garðbæingar voru einbeittari með snörpum sóknum og sterkum varnarleik og þeir eru taplausir eftir fyrstu fjórar umferðir deildarinnar.

Fljótlega náðu Stjörnumenn tökum á leiknum og Björn Másson skoraði af stuttu færi eftir góða sendingu Adolfs Sveinssonar. Garðbæingar bættu sig enn meir eftir markið og máttu Víkingar hafa sig alla við að fá ekki á sig fleiri mörk, vörðu meðal annars á línu, en á 35. mínútu skoraði Arnór Guðjohnsen beint úr aukaspyrnu rétt utan vítateigs. Undir leikhlé fengu Víkingar sitt langbesta færi en Hólmsteinn G. Sigurðsson varði mjög vel gott skot Sváfnis Gíslasonar af stuttu færi.

Eftir hlé hélt atið áfram og Stjörnumenn hröktu Víkinga sífellt aftar en tókst þó ekki að nýta góð færi. Garðar Jóhannsson skaut í slá eftir að komast einn í gegn en honum brást ekki bogalistin þegar hann skoraði úr endurtekinni vítaspyrnu sem Rúnar P. Sigmundsson fékk eftir að honum var brugðið innan teigs. Vítaspyrnan var endurtekin því leikmenn hlupu inn í teig áður en skotið reið af. Stjörnumenn fengu eftir það tvö ágæt færi en þegar rúmar 15 mínútur voru eftir fór að draga af þeim. Víkingar gengu strax á lagið og á 87. mínútu skoraði Sumarliði Árnason eftir góða fyrirgjöf Ágústs Guðmundssonar.

Víkingar náðu ekki að stilla saman strengi sína. Vörnin átti í basli með snögga sóknarmenn og í framlínunni var reynt að brjótast upp í gegnum miðjuna. Sigurður Sighvatsson var fastur fyrir í vörninni og Daníel Hafliðason átti góða spretti en Sumarliði fékk úr litlu að moða.

Stjörnumenn vantaði ekki baráttuandann og öryggið fylgdi fast á eftir. Garðar og Adolf áttu góða spretti frammi, Ragnar Árnason var traustur í vörninni og Arnór ágætur á miðjunni. "Við spiluðum ágætlega og vorum ofan á í allri baráttu frá byrjun leiks og ég er þokkalega ánægður því við náðum að halda uppi baráttu í 85 mínútur," sagði Arnór leikmaður og þjálfari Stjörnunnar.

Maður leiksins: Ragnar Árnason, Stjörnunni .

Glæsimark hjá Arnari

Knattspyrnan sem boðið var upp á á ÍR-velli í gærkvöld þegar heimamenn tóku á móti botnliði Dalvíkur í 1. deild karla var ekki rishá. ÍR-ingar höfðu þó betur þegar upp var staðið og skoruðu tvö mörk gegn engu marki Dalvíkinga.

Dalvíkingar, sem ekki hafa riðið feitum hesti úr viðureignum sínum í deildinni og sitja á botninum án stiga, byrjuðu leikinn af miklum krafti. Í fyrstu sókn þeirra komst Jón Örvar Eiríksson í ákjósanlegt færi við mark ÍR en Tómas Ingason var vel á verði í markinu. Eftir þessa ágætu sókn norðanmanna tóku ÍR-ingar leikinn í sínar hendur án þess þó að skapa sér hættuleg marktækifæri. Hápunktur leiksins var á 19. mínútu þegar ÍR vann boltann við miðlínuna, Brynjólfur Bjarnason fékk boltann út við hliðarlínu vinstra megin og hann sendi fastan bolta yfir til hægri og inn fyrir vörn Dalvíkur. Þar kom Arnar Þór Valsson á mikilli ferð, hann skaut boltanum viðstöðulaust og hnitmiðað efst í markhornið vinstra megin, algjörlega óverjandi fyrir Sævar Eysteinsson í marki Dalvíkur. Stórglæsilegt mark sem gaf fyrirheit um að skemmtilegur leikur væri fram undan. Því miður varð ekkert úr því og leikurinn fjaraði smátt og smátt út. Björgvin Vilhjálmsson náði þó að bæta við öðru marki ÍR á 85. mínútu eftir að Dalvíkingum hafði mistekist að hreinsa frá marki eftir hornspyrnu.

Maður leiksins: Arnar Þór Valsson, ÍR.

Fyrsti sigur Tindastóls

Tindastóll vann sinn fyrsta sigur í deildinni í ár þegar Leiftursmenn komu óvænt í heimsókn á Krókinn í gærkvöld en leikurinn var færður þangað vegna vallarskilyrða á Ólafsfirði. Lokatölur urðu 2:0 eftir tvö mörk heimamanna á síðustu 20 mínútunum.

Tindastóll hafði yfirhöndina undan köldum vindi í fyrri hálfleik og þeir Hörður Guðbjörnsson, Eysteinn Lárusson og Jón Fannar Guðmundsson réðu ríkjum á miðjunni. Bæði lið fengu nokkur færi en heimamenn voru nær því að skora því þeir áttu tvö skot í stöng.

Davíð Rúnarsson kom Tindastóli yfir á 70. mínútu með góðum skalla eftir aukaspyrnu Harðar. Undir lokin var dæmd óbein aukaspyrna við markteig Leifturs þegar Chris Porter, markvörður og besti leikmaður Ólafsfirðinga, handlék knöttinn eftir sendingu samherja. Upp úr henni skoraði Jón Fannar Guðmundsson og tryggði sigur Tindastóls.

Maður leiksins: Hörður Guðbjörnsson, Tindastóli.

Stefán Stefánsson skrifar