Svefninn er að verða aðalatriðið í lífi margra Breta, því kröfurnar á vinnustaðnum fara sífellt vaxandi og tómstundir og vinna verða eitt.
Svefninn er að verða aðalatriðið í lífi margra Breta, því kröfurnar á vinnustaðnum fara sífellt vaxandi og tómstundir og vinna verða eitt.
NÝJASTA tískan í Hollywood er alveg ókeypis, það er, ef maður hefur tíma. Style, eitt helgarblaða The Sunday Times, greinir í það minnsta frá því að kvikmyndastjörnur leggi einna mesta áherslu á það í samningum sínum, að þeim sé tryggður góður...

NÝJASTA tískan í Hollywood er alveg ókeypis, það er, ef maður hefur tíma. Style, eitt helgarblaða The Sunday Times, greinir í það minnsta frá því að kvikmyndastjörnur leggi einna mesta áherslu á það í samningum sínum, að þeim sé tryggður góður nætursvefn. Þokkadísin Penélope Cruz heyrðist nýverið gorta sig af 12 tíma nætursvefni og margir kollegar hennar í kvikmyndaheiminum eru nú sagðir hafna kröfum um myndatökur snemma dags.

"Líkamsrækt hefur verið í tísku um árabil, en góður svefn er ekki síður nauðsynlegur, eins og nú er viðurkennt. Svefnpurkurnar hafa loksins fengið uppreisn æru. Það sem eitt sinn þótti letimerki, er nú beinlínis talið afkastahvetjandi.

Svefninn er heilsubætandi. Góður nætursvefn getur unnið bug á kvefi og slakar á vöðvaspennu, örvar meltinguna og eykur kynlöngun. Vaxtar- og viðgerðarhormónum er líka dælt út í blóðið þegar líkaminn sefur," segir Style.

Okkur dreymir meðan við sofum og vísindamenn telja draumana gegna mikilvægu hlutverki í vellíðan okkar. "Við erum rétt í þann mund að átta okkur á sköpunarmætti svefnsins," er haft eftir Cliff Arnall sem veitir svefnmeðferð án lyfja í Wales og kennir skjólstæðingum sínum góðar svefnvenjur.

"Kristaltærir draumar - leiðin til þess að taka virkan þátt í draumlífi sínu - er aðferð sem kennd er til þess að greiða úr vandamálum í svefni. Sá hluti heilans sem stýrir tilfinningum er oft og tíðum óvirkur í draumsvefninum, sem gerir manni kleift að sjá hlutina úr meiri fjarlægð."

Aukaverkanir nútímans

Helsti draumur margra er hins vegar að geta sofið. "Svefninn er farinn að skipta höfuðmáli í Bandaríkjunum," segir Jim Horne hjá Svefnrannsóknamiðstöðinni við Loughbourough-háskóla. "Svefnleysi er ein af aukaverkunum nútíma lífshátta. New York búar sem stöðugt líta á klukkuna eru ekki að flýta sér, þeir eru að reyna að skipuleggja sinn átta tíma svefn."

Sama þróun er að verða á Bretlandi heldur Style áfram. "Svefninn er að verða aðalatriðið, því kröfurnar á vinnustaðnum eru sífellt að aukast," segir Adrian Monck, fréttaritstjóri hjá Stöð 5. "Öllum er orðið sama um frítíma því félagslífið hefur runnið saman við vinnuna. Áður fyrr stytti maður svefninn til þess að leika sér, núna heyra tómstundir sögunni til."

Nýlegar kannanir hafa ennfremur rennt fleiri stoðum undir kenningar um reglulegan svefn. "Glataður svefntími kemur ekki aftur. Í stuttu máli sagt veldur svefnleysi heimsku. Innan við sex klukkustunda svefn á nóttu, um margra vikna skeið, getur leitt til aukinnar slysahættu, framburðartruflana og minnistaps. Nægur svefn er ódýrasta streitumeðal augnabliksins." En þótt svefninn sé ókeypis er hann ekki alltaf að fá. Eitt glanstímaritanna lýsti því yfir nýverið að svefninn væri langmesti munaðurinn, segir Style að endingu.

hke