Heiðar Örn Stefánsson og Sylvía Kristín Ólafsdóttir kynntu starfsemi Jafningjafræðslunnar í sumar.
Heiðar Örn Stefánsson og Sylvía Kristín Ólafsdóttir kynntu starfsemi Jafningjafræðslunnar í sumar.
ÖLVUNARAKSTUR ungs fólks er algengari á sumrin en á öðrum árstíma og þá eiga einnig flestar nauðganir sér stað. Þetta kom fram á fundi sem ýmsir aðilar er koma að vímuefnavörnum stóðu að í Grasagarðinum í Laugardal í gær.

ÖLVUNARAKSTUR ungs fólks er algengari á sumrin en á öðrum árstíma og þá eiga einnig flestar nauðganir sér stað. Þetta kom fram á fundi sem ýmsir aðilar er koma að vímuefnavörnum stóðu að í Grasagarðinum í Laugardal í gær. Þar voru kynntar tölur frá Umferðarráði og Neyðarmóttökunni sem sýna hve margir áttu um sárt að binda eftir síðasta sumar vegna tilfella sem hægt er að rekja til áfengisneyslu.

"Sumarið býður upp á ýmis ævintýri sem við viljum öll að endi vel og þar tel ég að stuðningur heima fyrir skipti mestu," sagði Sigurður Guðmundsson landlæknir í ávarpi sínu á fundinum. "Það er áhyggjuefni hve áfengis- og vímuefnaneysla fer almennt vaxandi hér á landi, jafnvel hefur verið talað um faraldur í þessum efnum. Hafa ber í huga þau vandamál sem tengjast áfengis- og vímuefnaneyslu eins og kynlífsreynslu ýmiss konar, slagsmál, slys, rán og sjálfsvíg."

Þolendur nauðgana áfengisdauðir í 30% tilvika

Flestar nauðganir eiga sér stað í ágúst og næstflestar í júlí að sögn

Katrínar Pálsdóttur hjúkrunarfræðings en hún kynnti tölur frá Neyðarmóttöku vegna nauðgunarmála. "Í yfir 30% nauðgana er þolandi í áfengisdauða og í langflestum tilfellum verða nauðganir heima hjá geranda eða þolanda og yfirleitt þekkjast þeir. Við höfum miklar áhyggjur af þeirri þróun að talið sé eðlilegt og ekkert tiltökumál að drekka svo mikið að manneskjan deyi áfengisdauða eða fari í óminnisástand. Við viljum eindregið koma þeim skilaboðum á framfæri að fólk gæti þess að drekka sig ekki ofurölvi."

Hún segir mjög algengt að nauðganir eigi sér stað í partíum í heimahúsum en næstalgengasti staðurinn sé á víðavangi, oft í húsasundum á bakvið skemmtistaði og á útihátíðum. Langstærsti hópurinn sem leitar til Neyðarmóttökunnar er á aldrinum 15-25 ára en annars er aldursdreifingin allt frá 12-78 ára. Í 80% tilfella eru þolendur nauðgana konur.

Hópnauðganir færst mjög í vöxt

Síðustu ár hafa um 100 mál að meðaltali komið til Neyðarmóttökunnar en það sem af er þessu ári eru málin orðin 30. Katrín segir hópnauðganir hafa færst mjög í vöxt á síðastliðnum árum. "Af 97 málum sem komu til okkar árið 2000 voru fleiri en einn gerandi í 10 málum. Af þeim 30 málum sem komið hafa til okkar á þessu ári er um hópnauðganir að ræða í 8 tilfellum. Þetta er mjög ískyggileg þróun sem við teljum að megi rekja til klámvæðingarinnar í þjóðfélaginu, nektardansstaða og vændis sem þeim fylgir. Skilaboðin eru að það sé ekkert athugavert við að skilja að sál og líkama í kynlífi. Sá hugsunarháttur virðist ýta undir þá hugmynd að í lagi sé að nota fórnarlambið á þennan hátt."

Tvö banaslys tengd ölvun ungs fólks

Síðasta sumar létust fimm ungmenni í tveimur umferðarslysum þar sem ölvun kom við sögu, að sögn Óla H. Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Umferðarráðs, sem kynnti tölur um umferðarslys tengd ölvun ungs fólks frá sumrinu 2000. Þá urðu þrjú önnur slys sem tengdust ölvunarakstri og í þeim slösuðust allir ökumennirnir, þar af tveir alvarlega en einn minna. Tveir farþegar slösuðust, annar mikið en hinn minna.

"Öll þessi slys tengjast því meira og minna að verið var að skemmta sér og skemmtunin endaði með þessum slysum. Það er gjörsamlega óviðunandi að svona lagað gerist."

Áfengis- og vímuefnaneysla loðir við popparaímyndina

Sylvía Kristín Ólafsdóttir og Heiðar Örn Stefánsson frá Jafningjafræðslunni kynntu starfsemi hennar í sumar. "Verið er að þjálfa 15 manna hóp fólks sem mun fara í vinnuskóla og ræða við unglinga í 9. og 10. bekk um vímuefni. Við tölum við unglingana í litlum hópum og leitumst við að svara spurningum sem þau kunna að hafa." Þau segja mikilvægt að gera unglingana tilbúna til að standast hópþrýsting.

"Flestir unglingar eiga einhvern tímann eftir að vera í partíi þar sem verið er að nota áfengi og eiturlyf og við viljum benda þeim á hve mikilvægt er að vera búin að ákveða hvað þau ætla að gera þegar þau verða í þeim sporum."

Jafningjafræðslan starfrækir ferðaskrifstofu sem ber nafnið Flakkferðir en hún býður upp á innan- og utanlandsferðir fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára í sumar. "Innanlandsferðirnar verða á laugardögum í allt sumar og þar verður m.a. farið í fallhlífarstökk og kajaksiglingar en í utanlandsferðunum verður m.a. farið á Interrail og í sólarlandaferðir. Í þessum ferðum er skilyrði að engin vímuefni séu notuð."

Jón Jósep Snæbjörnsson, söngvari hljómsveitarinnar Í svörtum fötum, kynnti þá stefnu hljómsveitarinnar að vera góð fyrirmynd fyrir unglinga t.d. með því að vera vímulausir þegar þeir spila á böllum. "Áfengis- og vímuefnaneysla hefur lengi loðað við popparaímyndina en við erum hins vegar reynslulausir í þeim efnum og teljum það hið besta mál."