Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, Skúli Thoroddsen, formaður Samtaka fræðslu- og símenntunar á landsbyggðinni, og Sigurður Kristinsson, umsjónarmaður kennslu í nútímafræðum.
Páll Skúlason, rektor Háskóla Íslands, Skúli Thoroddsen, formaður Samtaka fræðslu- og símenntunar á landsbyggðinni, og Sigurður Kristinsson, umsjónarmaður kennslu í nútímafræðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
HÁSKÓLI Íslands og samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni staðfestu í gær með sér samkomulag um fjarkennslu frá H.Í til þrjátíu og eins staðar á landsbyggðinni.

HÁSKÓLI Íslands og samtök fræðslu- og símenntunarmiðstöðva á landsbyggðinni staðfestu í gær með sér samkomulag um fjarkennslu frá H.Í til þrjátíu og eins staðar á landsbyggðinni. Er bæði um grunnnám og viðbótar- og starfsréttindanám að ræða og er búist við að um 200 nemendur eigi eftir að nýta sér þennan möguleika á komandi skólaári.

Páll Skúlason rektor H.Í. lýsti yfir ánægju með samkomulag þetta, enda væri mikilvægt að gera það eftirsóknarvert að stunda háskólanám úti á landi. Sagði hann reynslu af fjarkennslu innan Háskólans hafa verið góða og að eflaust yrði æ algengara að fólk stundaði fjarnám, enda væru möguleikar á fyrirkomulagi þess stöðugt að aukast.

Bæði boðið upp á grunnnám og viðbótar- og starfsréttindanám

Boðið er upp á grunnnám í þremur námsgreinum, ferðamálafræði, íslensku og nútímafræði, sem er þverfaglegt nám á sviði hugvísinda og kennt í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Einnig er í boði viðbótar- og starfsréttindanám í hjúkrunarfræði, ljósmóðurfræði, kennslufræði til kennsluréttinda og námsráðgjöf, ásamt því sem Endurmenntunarstofnun býður upp á námskeið í rekstri og stjórnun í heilbrigðisþjónustu sem kennt er til Akureyrar.

Fjarnám við Háskóla Íslands er í örri þróun og bætist sífellt við námsframboðið innan þess. Með samkomulagi þessu er gert ráð fyrir að fjarnám muni festast í sessi sem námsfyrirkomulag sem sé fyllilega sambærilegt við það hefðbundna.

Kennslumiðstöð H.Í. hefur umsjón með náminu, sem er skipulagt af einstökum deildum og unnið í samvinnu við níu fræðslumiðstöðvar um land allt. Kennsla fer fram með fjarfundabúnaði og kennsluhugbúnaðinum WebCT sem er lokað vefkerfi á Netinu þar sem hægt er að hýsa námsefni og aðrar upplýsingar frá kennara, en einnig er þar sérstakt póstkerfi fyrir nemendur, ráðstefnukerfi og spjallrásir.

Fyrirlestrar kennara eru sendir út með áðurnefndum fjarfundabúnaði sem er gagnvirkur sjónvarpsbúnaður. Þá koma nemendur saman í kennslumiðstöðvum sem eru búnar móttökutækjum, hlýða saman á fyrirlestra kennara og hafa tækifæri til að spyrja spurninga og gera athugasemdir líkt og í hefðbundinni kennslustund. Auk þess eru nemendur "tengdir" nemendum annars staðar á landinu, það er að segja þeir heyra spurningar og athugasemdir þeirra sem hlýða á fyrirlesturinn á sama tíma.

Samtök fræðslu- og símenntunnarmiðstöðva á landsbyggðinni voru stofnuð fyrir um ári síðan, en markmið þeirra er að efla endurmenntun, símenntun og háskólanám á landsbyggðinni. Við staðfestingu samkomulagsins í gær sagðist Skúli Thoroddsen, formaður samtakanna, fagna þessu samstarfi enda væri mikilvægt að færa háskólanám nær því fólki sem það vildi stunda en ætti ekki heimangengt. Hann sagði kennslumiðstöðva-fyrirkomulagið, sem notað væri við fjarnámið, hafa reynst mjög vel, enda væri afar mikilvægt fyrir þá sem stunda nám að vera í tengslum við aðra nemendur.

Með kennslumiðstöðvunum hefðu nemendur félagslegan stuðning hver af öðrum auk þess sem þeim gæfist tækifæri til að ræða um námið og vinna saman verkefni.