Katherine Harris, innanríkisráðherra Flórída.
Katherine Harris, innanríkisráðherra Flórída.
DRÖG skýrslu nefndar sem rannsaka átti framkvæmd kosninganna til embættis forseta Bandaríkjanna í Flórída í nóvember síðastliðnum liggja nú fyrir. George W.

DRÖG skýrslu nefndar sem rannsaka átti framkvæmd kosninganna til embættis forseta Bandaríkjanna í Flórída í nóvember síðastliðnum liggja nú fyrir. George W. Bush vann nauman sigur á Al Gore en skýrslan hefur vakið harðar deilur milli repúblikana og demókrata, að því er segir í The New York Times.

Í skýrslunni segir að ekki hafi fundist sannanir fyrir skipulögðu samsæri en hins vegar hefði Jeb Bush, ríkisstjóra Flórída og Katherine Harris, innanríkisráðherra sambandsríkisins, snemma verið ljóst að miklir annmarkar væru á framkvæmd kosninganna. Þau hafi hins vegar ákveðið að hafast ekkert að.

Meint kynþáttamismunun

Í skýrslunni segir að einstaklingar af öðrum kynþáttum en þeim evrópska hefðu átt í töluverðum erfiðleikum með að kjósa. Hefði túlka vantað í kjördæmi þar sem meirihluti kjósenda er spænskumælandi og kjörseðlar hefðu sums staðar ekki verið til á spænsku. Þá hefðu kjörseðlar svartra kjósenda verið tíu sinnum líklegri til að verða ógiltir en annarra kjósenda.

Talsmaður ríkisstjórans sagði skýrsluna illa unna og hlutdræga. Hefði formaður rannsóknarnefndarinnar, demókratinn Frances Berry, stutt Al Gore í kosningunum og bæri skýrslan þess augljós merki. Talsmaðurinn sagði jafnframt að það væri rangt að kjósendum hefði verið mismunað eftir kynþætti. Það eina sem finna mætti að framkvæmd kosninganna væri að þátttaka svartra íbúa Flórída hefði verið meiri en búist var við og hefði það valdið töfum.