SÍÐARI umræða um ársreikninga fyrir árið 2000 hófst seint í gærkvöldi á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur.

SÍÐARI umræða um ársreikninga fyrir árið 2000 hófst seint í gærkvöldi á borgarstjórnarfundi í Ráðhúsi Reykjavíkur. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, borgarstjóri, sagði í samtali við Morgunblaðið að það væri rangt sem Sjálfstæðisflokkur hefur haldið fram að auknar skatttekjur borgarinnar hafi ekki verið nýttar til að greiða niður skuldir.

"Skuldir borgarsjóðs hafa verið að minnka og það eru þær sem eru greiddar með skattpeningum. Skattpeningar eru ekki notaðir til að greiða skuldir fyrirtækja í eigu borgarinnar," sagði Ingibjörg. Hún segir að Sjálfstæðismenn hafi innleitt nýtt hugtak sem ekki sé notað í reikningum sveitarfélaga en það sé hrein skuldastaða. "En gott og vel, nýtum þetta hugtak, hrein skuldastaða borgarsjóðs fór í 12 milljarða 1996 og 10 milljarða 1994 en er nú 5 milljarðar. Þetta er auðvitað vegna þess að menn hafa greitt niður skuldir, m.a. með skattfé."

Ingibjörg segir að á síðasta ári hafi 4 þúsund milljónir verið afgangs þegar búið var að taka það sem þurfti í reksturinn. "Á sama tíma höfum við farið í endurbætur og viðbyggingar á öllum skólum borgarinnar nema þremur og byggt nýja skóla. Alls hefur verið fjárfest fyrir sjö milljarða í skólum."

Hvað varðar skuldsetningu fyrirtækja borgarinnar segir Ingibjörg að miklar fjárfestingar hafi verið gerðar, t.d. Nesjavallavirkjun, og sú fjárfesting hafi skilað 700 milljónum króna í tekjur á þessu ári og árstekjur af virkjuninni muni ná 1700 milljónum króna þegar fram líða stundir.