Bára ásamt starfsmönnum.
Bára ásamt starfsmönnum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jassballettskóli Báru, eða JSB, átti 35 ára afmæli á dögunum. Arnar Eggert Thoroddsen spjallaði við Báru Magnús- dóttur af því tilefni.

SKÓLINN fagnaði 35 ára afmæli sínu með veglegri sýningu í Borgarleikhúsinu 1. maí síðastliðinn. Þetta var fjölmennasta nemendasýning skólans frá upphafi en um 400 manns tóku þátt í henni. Skólinn var stofnaður formlega árið 1967 í Suðurveri við Kringlumýrarbraut og hefur vaxið að styrk og stærð allar götur síðan. Innan skólans var unnið mikið brautryðjendastarf fyrir djassballett hérlendis, en framan af gekk trauðlega að fá þetta form viðurkennt til jafns við þær dansgreinar sem fyrir voru. Í dag er skólinn aðili að Dansráði Íslands og Félagi íslenskra listdansara og eru nemendur sem kennarar útskrifaðir þaðan ár hvert.

Frjálst form

"Þetta varð nú meira svona þróun en að það hafi ætíð verið bjargfastur ásetningur að stofna skóla," segir Bára mér, þar sem hún situr í rúmgóðri skrifstofu sinni. Hún vindur sér því næst í að útskýra um hvað skólinn snýst, þ.e. sjálfan djassballettinn.

"Þetta er listdans með frjálsara tjáningarformi en klassískur listdans sem er okkar elsta form og þróaðasta. Þar er búið að ná ákveðinni hæð sem verður ekki toppuð - það form er eiginlega komið út að enda og verður vart betrumbætt úr þessu. Í frjálsa listdansinum hefur þú meira rými. Þú getur búið til spor og hreyfingar sem hafa aldrei sést áður. Það er nærri því óhugsandi í klassískum ballett þar sem allt byggist á hefðum."

Bára segir skólann vera ungan af listaskóla að vera. "Það tekur ekki minna en mannsævi að koma þessu á, og þá með mjög ötulu starfi. Þetta rennur saman við menningu og þarfir þjóðfélagsins - það er grundvöllurinn að svona listaskólum. Þeir verða að vaxa úr grasrótinni og koma af okkar hvötum. Íslenskur listdans verður ekki til fyrr en Íslendingar fara að semja dansana - og kenna þá!"

Að sögn Báru stendur svo ýmislegt til á þessum tímamótum.

"Það á að reyna að útvíkka þetta svolítið. Úthverfi Reykjavíkur hafa stækkað og borgin er orðin svo breytt. Næsta vetur á að reyna að mæta þörfum krakka í grunn- og framhaldsskólum og fara út í hverfin. Láta unga fólkið dansa."

Hugsjónir

Bára segir hreyfinguna sem fylgir dansinum vera unga fólkinu ómetanleg. Í leiðinni læri það svo skemmtilega listgrein og fái innsýn í sköpun. Enn sem fyrr er kynskiptingin þó óhagstæð karlpeningnum.

"Það á nú að reyna að stíga skref til að breyta því," segir Bára. "Og þetta mun breytast hér eins og í löndunum í kringum okkur. Við þurfum bara að nota sóknarfærið þar sem unga fólkið er mjög opið fyrir dansinum. Nýta þennan meðbyr; t.d. eru samkvæmisdansar komnir inn í grunnskólakerfið. Það mun gera mikið að börn kynnist dansi strax og hann sé ekki bara fyrir stelpur, þetta sé jafn eðlilegt fyrir stráka."

Og Bára er hugsjónamanneskja, á því er ekki vafi. Ánægð með starfsemi skólans og sannfærð um að tilvera hans hefur leitt gott af sér fyrir samfélagið.

"Það eina sem fer í taugarnar á mér er að fólk sé alltaf að telja þessi ár. Ég er rétt að byrja og á a.m.k. eftir önnur 35 ár miðað við allt sem ég þarf að gera. Þessi 35 ár hafa verið mjög fljót að líða."