Alexander við sleðann sem hann væntanlega flytur út til Bandaríkjanna næsta vetur til að keppa þar á X-Games.
Alexander við sleðann sem hann væntanlega flytur út til Bandaríkjanna næsta vetur til að keppa þar á X-Games.
ALEXANDER Kárason, Íslandsmeistari í snjókrossi 2001, hefur varpað fram þeirri hugmynd að setja upp leika í Hlíðarfjalli að vetrarlagi í líkingu við svonefnda X-Games sem haldnir eru árlega í Vermont, skammt frá Boston.

ALEXANDER Kárason, Íslandsmeistari í snjókrossi 2001, hefur varpað fram þeirri hugmynd að setja upp leika í Hlíðarfjalli að vetrarlagi í líkingu við svonefnda X-Games sem haldnir eru árlega í Vermont, skammt frá Boston. Á þessum leikum er keppt í margvíslegum jaðaríþróttum og óhefðbundnum vetraríþróttum.

"Það hefur verið vel tekið í þessar hugmyndir og ég vona að við getum verið með svona leika í fjallinu næsta vetur. Þarna yrði um að ræða nýbreytni í starfseminni sem ekki kostar mikla peninga, en gæti opnað mikla möguleika. Leikar af þessu tagi draga yfirleitt að sér fjölda áhorfenda," sagði Alexander. Auk þess sem keppt yrði í snjókrossi á vélsleðum nefndi hann einnig keppni á fjallahjólum, skíðakross, þar sem fimm keppendur leggja af stað samtímis og renna sér eftir stuttum brautum með stökkpöllum, brettaíþróttir ýmiskonar, stökkkeppnir og eins nefndi hann keppni á Stiga-sleðum. "Það er nægt pláss í Hlíðarfjalli og að mínu mati væri hið besta mál að hleypa að fleira fólki, sem áhuga hefur fyrir öðrum vetraríþróttum en skíðum," sagði Alexander.

Hann keppti á X-Games í Bandaríkjunum á síðasta ári og var hann eini áhugamaðurinn sem þátt tók í leikunum. Hann hefur með Íslandsmeistaratitlinum nú í vor unnið sér rétt til að taka þátt í næstu leikum sem verða í febrúar á næsta ári.

Árangur Alexanders í vetur hefur vakið athygli, ekki síst meðal áhugamanna um þessa íþrótt í útlöndum, en nú nýlega kom í ljós að hann hefur keppt mjaðmagrindarbrotinn mestallt tímabilið. Hann slasaðist á æfingu fyrir mót á Dalvík, en ekki kom í ljós hvers kyns var fyrr en rétt fyrir síðasta mótið sem haldið var í Ólafsfirði í lok apríl. "Ég skildi ekkert í því hve illa gekk að komast í samt lag, en það var svo ekki fyrr en nýlega sem kom í ljós að ég var brotinn, það var þriggja sentímetra gliðnun á beininu," sagði Alexander sem nú hefur gengist undir aðgerð vegna meiðslanna.

"Ég var oft sárþjáður, en beit á jaxlinn, ég ætlaði mér að komast í gegnum mótaröðina og það tókst. Þetta er mikil átakaíþrótt og ekki óalgengt að menn séu marðir og hruflaðir, en það verður bara að taka því, þetta fylgir," sagði Alexander.

Hann kvaðst ætla að taka það rólega til að byrja með eftir aðgerðina, en hefja síðan æfingar af fullum krafti fyrir næsta vetur, m.a. vegna þátttöku sinnar í X-Games í Bandaríkjunum.

"Þetta er einn stærsti viðburðurinn í vetrarsporti í heiminum og útsendingar frá leikunum eru á fjórum sjónvarpsstöðvum í Bandaríkjunum. Talið er að um 20 milljónir áhorfenda í um 180 löndum fylgist með þessum leikum.

Íslenski snjómaðurinn

Töluvert hefur verið skrifað um Alexander í blöð sem fjalla um vélsleðaíþróttir og hefur hann m.a. fengið viðurnefnið Íslenski snjómaðurinn. Þá hafa einnig verið tekin við hann viðtöl í sjónvarpsþáttum sem fjalla um þessa íþrótt. Þátttaka hans á mótum erlendis hefur komið honum í kynni við fjölda fólks sem er viðloðandi íþróttina og í vetur hafa komið hópar norður til Akureyrar, m.a. þáttagerðarfólk og framleiðendur sjónvarpsþátta og myndbanda.

Nú nýlega voru á ferð framleiðendur Sleednecks og unnu þeir efni á myndband sem tilbúið verður í haust. Þeir lýstu að sögn Alexanders áhuga á að koma aftur og vinna efni á fleiri myndbönd. Alls tók hann á móti fjórum sjónvarpshópum í vetur, tveimur frá Bandaríkjunum og tveimur frá Bretlandi.

"Það felast í þessu gríðarlegir möguleikar, en ég hef aðallega verið einn að brasa í þessu, taka á móti fólkinu og setja upp fyrir það dagskrá í samráði við það. Áhuginn fyrir landinu og vetraríþróttum af þessu tagi er mikill og ljóst að margt fólk væri til í að koma og fylgjast með því sem hér er að gerast. Ég hef verið að reyna að afla mér stuðnings til að fjölga ferðum þessa fólks hingað að vetrarlagi, en ekki orðið mikið ágengt enn. Það er mikil framtíð í þessu og ég vona að ég finni einhver fyrirtæki sem eru tilbúin að styðja þetta framtak," sagði Alexander.