Geir Stefánsson var fæddur í Vopnafirði 22. júní 1912. Hann lést eftir stutta sjúkralegu á Landspítalanum í Fossvogi 25. maí síðastliðinn. Foreldrar Geirs voru Stefán sjómaður, f. 27. júlí 1893, fórst með Leifi heppna 7.-8. febrúar 1925, Magnússonar bónda lengst í Böðvarsdal í Vopnafirði Hannessonar og kona hans Þórunn Sigríður f. 6. október 1884, d. 17. ágúst 1960 Gísladóttir bónda á Stefánsstöðum í Skriðdal Jónssonar. Geir átti fimm systkini, þar af fjögur hálfsystkini. Albróðir hans var Garðar Hólm Stefánsson, f. 6. febrúar 1909, d. 16. febrúar 1961. Bróðir hans sammæðra var Hjálmar Steindórsson, f. 27. apríl 1928, d. 17. maí 1997. Faðir Hjálmars var Steindór Jóhannesson, síðar kaupmaður á Vopnafirði. Stefán kvæntist Jónu Guðnadóttur frá Borgarfirði eystra, dætur þeirra, hálfsystur Geirs samfeðra, eru 1) María, f. 12. október 1919, d. 10. febrúar 1973, 2) Helga, f. 26. apríl 1921, d.2. febrúar 1944, 3) Guðný f. 14.ágúst 1922.

Geir varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1935 og cand. juris frá Háskóla Íslands 1940.

Geir kvæntist eftirlifandi konu sinni, Birnu Hjaltested, 18. maí 1937. Birna er dóttir séra Bjarna Hjaltested, prests og kennara í Reykjavík, og konu hans Stefanie Önnu fædd Berntsen. Börn þeirra eru: 1) Guðrún Sigríður fædd 29. maí 1938 í Reykjavík, gift Stefáni Bjarnasyni skipatæknifræðingi, þau eru barnlaus; 2) Anna Þórunn fædd 3. september 1942 í Reykjavík, maki hennar Justiniano de Jesus, þau skildu. Börn þeirra eru Sigríður (Níní) Hjaltested lögfræðingur og Anna María. Sigríður er gift Halldóri Halldórssyni viðskiptafræðingi og eiga þau tvö börn, Helenu Birnu og Bjarna Geir. Anna María á einn dreng, Filip Má, 3) Birna Hjaltested fædd 11. október 1944 í Reykjavík gift Garðari Halldórssyni arkitekt. Börn þeirra eru Margrét Birna og Helga María viðskiptafræðingur. Margrét Birna á soninn Garðar Árna. Helga María er gift Ingvari Vilhjálmssyni viðskiptafræðingi en þau eiga dótturina Þóru Birnu.

Starfsvettvangur Geirs Stefánssonar var að mestu við verslun og viðskipti. Á stríðsárunum rak hann eigið fyrirtæki í Reykjavík. Haustið 1945 fór hann með fjölskyldu sinni til Stokkhólms þar sem hann hugðist fara til framhaldsnáms í alþjóðarétti með alþjóðaverslunarrétt sem aðalfag. Við það nám var hann í tvö ár en í sumarleyfum árin 1946 og 1947 starfaði hann í sendiráðinu í Stokkhólmi, fyrst sem aðstoðarmaður Vilhjálms Finnsen og síðan Helga P. Briem sendiherra. Árið 1948 hóf hann rekstur út- og innflutningsverslunar einkum með íslenskar afurðir svo sem síld, þar til hann fluttist aftur til Íslands með fjölskyldu sína árið 1954.

Frá árinu 1954 og þar til hann dró sig í hlé frá erli viðskiptalífsins árið 1986 rak hann fyrirtækið Transit Trading Co. og fékkst hin síðari ár við innflutning m.a. á vinnuvélum og byggingavörum einkum frá Bandaríkjunum.

Jarðaför Geirs fer fram frá Dómkirkjunni í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Lát minninganna mildu blóm mýkja og græða sárin, en ljúfra tóna enduróm ylja og þerra tárin. Við skulum láta vorsins yl vekja hjartans gleði og gera öllum gæðum skil, sem gæfan okkur léði. (Ágúst Böðvarsson.)

Í uppvexti mínum á árunum 1920 til 1940 gat það verið undir ýmsu komið hverjum nánustu ættingja menn kynntust. Mestu réð hversu dreifðir þeir voru um landið og hvernig samgöngum var háttað við hina ýmsu landshluta. Nú var það svo að föðurfólk mitt bjó flest á Hólsfjöllum, aðeins einn föðurbróðir bjó niðri í Axarfirði. Móðurfólk mitt var flest úr Vopnafirði og víðar af Austfjörðum. Amma okkar Geirs var frá Klaksvík í Færeyjum, skörungur hinn mesti. Henni kynntist ég ekkert en ég sá hana einu sinni áttræða er hún kom með áætlunarbíl á Grímsstaði. Hún ætlaði að halda áfram sama daginn út á Víðirhól um það bil 12 km. leið. Svo illa stóð á að hvorki var hestur né bíll til reiðu til að skjóta gömlu konunni en henni þótti hlægilegt ef menn héldu að hún gæti ekki gengið þennan spöl. Um kvöldið féll nú samt til bílferð.

Meðal frænda minna sem ég kynntist ekki fyrr en seint og um síðir voru bræðurnir Garðar Hólm og Geir Stefánssynir. Þeir bjuggu á Vopnafirði hjá móður sinni en faðir þeirra Stefán Magnússon, móðurbróðir minn, fórst með togaranum Leifi heppna á Halamiðum í miklu ofviðri árið 1925 aðeins 32 ára. Guðfinna Þorsteinsdóttir frá Teigi í Vopnafirði rekur þá atburði í bók sinni Vogrek. Þriðji sonur Þórunnar hét Hjálmar Steindórsson.

Á þessum tíma þurfti bæði hörku og seiglu til að komast í menntaskóla og ljúka stúdentsprófi. Það gerði þó dálítill hópur ungra manna úr Vopnafirði, meðal annarra þeir frændur Geir Stefánsson og Jón Halldórsson, Þórir Guðmundsson, Þorsteinn Valdimarsson og fleiri. Menntaskólapiltar að austan sóttu gjarnan Menntaskólann á Akureyri en það gat verið tafsamt að komast á milli vor og haust. Það var stórhapp að fá skipsferð til Akureyrar en oftast þurfti að fara landleiðina og ganga yfir fjöll og firnindi eða fá lánaðan hest. Mér er minnistætt að kynnast þessum ótrauðu göngumönnum en stundum fékk ég að fylgja þeim frá Grímsstöðum austur að Dimmafjallagarði til að stytta gönguna svolítið. Þeir voru léttir á fæti og vanir göngumenn. Geir af smalamennsku í Möðrudal þar sem hann var nokkur skipti kaupamaður á sumrin.

Eftir stúdentspróf settist Geir í Lagadeild í Háskóla Íslands og lauk embættisprófi árið 1940. Hann hafði í huga að fara í frekara nám í alþjóðarétti og hugðist ráða sig til starfa í utanríkisþjónustuna. Úr því varð þó ekki heldur lagði Geir fyrir sig kaupsýslu og fékkst bæði við inn- og útflutning.

Ævikafli sem Geir hafði gaman af að segja frá voru viðskiptaferðir sem hann fór suður um Evrópu fyrstu árin eftir stríðið meðan hvergi varð komist nema með því að beygja sig undir fáránlegustu reglur og fyrirmæli. Oft voru mútugreiðslur eini möguleikinn til að komast áfram.

Geir var glaðlyndur maður og hrókur alls fagnaðar í samkvæmum. Hann var líka vel máli farinn, málamaður góður og hélt snjallar tækifærisræður. Hann var smekkmaður um klæðaburð og hefði vafalaust sómst sér vel sem fulltrúi landsins á erlendri grund. Kona Geirs er Birna Hjaltested úr Reykjavík, stórfróð kona um marga hluti og kann vel að segja frá, ekki síst ef farið er út í ættfræði. Nú er Birna orðin hálftíræð og furðu hress, aðeins heyrnin farin að bila. Þeim gömlu hjónunum var og er ekki síst mikill styrkur af dótturdóttur sinni sem ólst upp hjá þeim og manni hennar.

Þegar rætt var við þau hjónin um kynni af öðrum löndum kom fljótt í ljós að þau hjónin höfðu hlýrri hug til Svía en flestra annarra enda voru kynni þeirra af Svíþjóð og Svíum lengri en af öðrum. Það var alltaf gestkvæmt hjá Geir og Birnu, bæði úti í Svíþjóð og hér heima og öllum tekið af rausn og vel veitt. Minnistæður atburður í lífi Geirs og Birnu var krýning tveggja dætra þeirra sem fegurðardrottninga, Íslands og Reykjavíkur. Því fylgdi mikið umstang en líka viðurkenning og athygli umheimsins.

En nú er skarð fyrir skildi og aldursforseti fjölskyldunnar er horfinn á braut. Verður nú að bera sig vel og vona að maður komi í manns stað.

Baldur Ingólfsson.

Kvaddur er tengdafaðir minn Geir Stefánsson, lögfræðingur og stórkaupmaður.

Liðin eru nú full 30 ár síðan ég kynntist Geir Stefánssyni frá Vopnafirði, fjölhæfum og aðsópsmiklum athafnamanni, svo og fjölskyldu hans. Þau hjónin Geir og Birna, eiginkona hans, áttu þá þrjár glæsilegar og gjafvaxta dætur, þegar ég að sumarlagi árið 1970 kynntist yngstu dótturinni Birnu og í framhaldi þar af fjölskyldunni allri. Við Birna giftum okkur ári síðar og hafa leiðir okkar Geirs legið saman síðan. Nú hafa leiðir skilið um sinn en eftir sitja minningar frá mörgum góðum samverustundum. - Það er sjónarsviptir að manni eins og Geir.

Á þeim árum þegar ég fyrst kynntist Geir rak hann heildverslunina Transit Trading Co með dælur,vinnuvélar, heimilistæki og ýmsar járnvörur fyrir innréttingasmíði frá Bandaríkjunum, svo sem skápahöldur, skápabrautir, hurðarhúna og bílskúrshurðarjárn. Jafnframt heildsölunni rak hann einnig smásölu, að Suðurlandsbraut 6, með sömu vörur. Á þann hátt þótti Geir hann ná beinum tengslum við markaðinn og takast best að markaðssetja sínar vörur. Þessar vörur urðu á þessum árum mjög eftirsóttar og lögðu margir leið sína til Geirs, húsbyggjendur, iðnaðarmenn og arkitektar. Var ég einn þeirra sem hafði lagt leið mína í verslunina til Geirs, nokkru áður en við Birna kynntumst. Átti ég oft við hann viðskipti enda Geir afburða sölumaður og vörurnar góðar sem hann seldi. Geir setti sig vel inn í allt sem laut að þessum vörum. Hann var jafnvígur hvort sem hann brá fyrir sig þekkingu iðnaðarmannsins, vélvirkjans eða eðlisfræðingsins allt eftir því sem við átti þegar hann lýsti gæðum þeirrar vöru sem hann var að selja. Þegar ég heyrði hann lýsa því hvernig dælurnar hans unnu þá hélt ég að hann væri verkfræðimenntaður, en komst að því síðar að hann var lögfræðingur. Slík var fjölhæfni Geirs en því átti ég eftir að kynnast betur síðar, þegar hann fjallaði um óskyld svið eins og meðferð sjávarafla, mannkynssögu, ættfræði eða skógrækt.

Geir hóf sinn feril ungur á sjónum og vann fyrir sér með námi á bátum frá Vopnafirði. Áður en hann lauk stúdentsprófi var hann orðinn formaður á bát. Það vegarnesti sem hann fékk í uppeldinu á Vopnafirði við kröpp kjör og mikla vinnu settu mark á hann ungan. Hann var alinn upp af tveimur konum, ömmu sinni Guðrúnu og móður sinni Þórunni. Þórunn sem var einstæð bjó með móður sinni sem var umsjónarkona í barnaskólanum á Vopnafirði og ól þar upp drengina sína þrjá. Þórunn flutti síðar til Reykjavíkur eftir að synirnir höfðu komið sér þar fyrir. Faðir Geirs sem var sjómaður á Vopnafirði og síðar í Reykjavík var bóndasonur úr Böðvarsdal. Hann átti þrjár dætur með síðari konu sinni, en fórst ungur með togara rúmlega þrítugur að aldri, en Geir var þá 13 ára gamall.

Geir vildi brjótast áfram, hann vildi menntast, hann vildi vera sjálfstæður og öðrum óháður.

Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 23ja ára gamall og lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 5 árum síðar. Á háskólaárunum vann hann jafnframt fyrir sér með námi og tók þá sín fyrstu skref í viðskiptalífinu, þegar hann starfaði hjá Eiríki Halldórssyni kaupmanni á Siglufirði. Heildverslunina Geir Stefánsson Co h.f. stofnaði hann 1939 og rak hana með aðsetur að Austurstræti 1 út stríðsárin allt til ársins 1945. Hann verslaði þá einkum með vefnaðarvörur og fatnað. Þessi verslun reyndist honum ábatasöm, hann lagði fyrir fé, en dreymdi stærri drauma.

Að stríðinu loknu ákvað Geir að fara til framhaldsnáms í lögfræði, nánar tiltekið í alþjóðarétti með verslunarrétt sem aðalfag. Hann sagði þá skilið við fyrirtæki sitt og góð lífskjör í Reykjavík og tók sig upp með eiginkonu og þrjár dætur og flutti til Svíþjóðar. - Eiginkona mín Birna var þá tæplega eins árs gömul. - Hann hóf nám við háskólann í Stokkhólmi og tók á leigu glæsilegt hús á mjög fallegum stað í skerjagarðs-bænum Djursholm, útbæ Stokkhólms. Þar undi fjölskyldan við frábærar aðstæður og mjög gott viðurværi næstu níu árin. Geir var við háskólann í tvo vetur en vann jafnframt við sendiráð Íslands í Stokkhólmi á sumrin. Geir hafði ætlað sér að kosta sitt nám og uppihald í Svíþjóð með því fé sem hann hafði lagt til hliðar frá verslunarrekstrinum heima. Það tókst þó ekki eins og nánar verður vikið að og áður en varði var hann kominn út í viðskipti og námið varð að bíða.

Þegar að því kom að flytja þá peninga sem þurfti vegna náms og uppihalds frá Íslandi til Svíþjóðar, þá stóð allt fast vegna þeirra hafta sem þá voru í gjaldeyrismálum hérlendis. Hann tekur því það til bragðs að kaupa íslenskar afurðir og selja þær í Svíþjóð. Verður það upphafið að viðamikilli útflutningsverslun hans með íslenskar landbúnaðar- og sjávarafurðir til Svíþjóðar og Mið-Evrópu. Geir ruddi þar braut á mjög framsækinn hátt. Hann seldi m.a. íslenska ull til Ungverjalands og flutti vín og aðrar ungverskar vörur til Svíþjóðar. Á endanum fór þó fyrir honum eins og mörgum öðrum íslenskum athafnamönnum að stór sending af gallaðri síld frá Íslandi kom honum á kné og batt enda á verslunarrekstur hans í Svíþjóð á þessum árum. Þessi erfiða staða varð til þess að hann fluttist aftur til Íslands ásamt fjölskyldu sinni, vorið 1954, án þess að ljúka sínu framhaldsnámi.

Á árunum í Svíþjóð ráku Geir og Birna heimili sitt með mikilli reisn. Þau voru bæði mjög greiðvikin og gestrisin. Heimili þeirra stóð opið fjölmörgum Íslendingum sem leið áttu um Stokkhólm á þeim árum. Það lenti á Geir að leysa vanda margra enda var hann boðinn og búinn til þess og öllum hnútum kunnugur á þessum slóðum. Það má fullyrða að bæði beint og óbeint hafi Geir verið sendiherrum Íslands í Stokkhólmi mikill stuðningur á þessum árum. Upp úr þeim samskiptum spratt m.a. traust og gagnkvæm vinátta við Helga P. Briem sendiherra og fjölskyldu hans. - Mér hefur fundist af samtölum mínum bæði við Birnu tengdamóður mína og Geir, að árin í Svíþjóð hafi verið hápunktur þeirra sameiginlega lífsferils. Þau voru ungt fólk á uppleið, bjuggu við góð efni í tæpan áratug í stórkostlegu umhverfi með þrjár ungar og tápmiklar dætur.

Það var mikið áfall fyrir þau öll að flytja aftur til Íslands, aðlaga sig að öðru umhverfi og gjörólíkum lífsstíl og búa fyrstu árin eftir að þau fluttu heim við breytt kjör. Árið 1954 stofnaði Geir fyrirtæki sitt Transit Trading Co sem hann rak síðan í rúm 30 ár. Lengi var hann með aðsetur að Hverfisgötu 106 A, stundaði í fyrstu innflutning, en stofnsetti síðan Saumastofuna Sunnu og framleiddi barna- og unglingafatnað. Sá rekstur gekk þó ekki lengi. Á einni af ferðum sínum til Svíþjóðar um það leyti kynnti hann sér framleiðslu á minka- og refafóðri. Hann keypti sér búnað, leigði frystiaðstöðu og hóf að láta mala og frysta fiskiúrgang og selja sem minka- og refafóður til Norðurlanda, einkum til Svíþjóðar. Þegar þessi nýju viðskipti með minkafóðrið, sem hann átti frumkvæði að, voru farin að reynast arðvænleg, varð hann fyrir enn einu áfallinu á árunum fyrir og um 1960, þegar Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna tók þessi viðskipti yfir og kom í veg fyrir að aðrir kæmust þar nærri. Við lá að þetta áfall gerði hann gjaldþrota. Með seiglu og harðfylgi tókst honum að halda á sínum rétti og ljúka sínum uppgjörsmálum. Hann var á þessum tíma mikið fjarri fjölskyldunni, í ferðum milli Íslands og Norðurlanda og dvaldi um skeið einn í Svíþjóð.

Í framhaldi þar af verður hann nú í fjórða sinn að byrja nánast frá grunni á nýjum viðfangsefnum. Fyrir milligöngu Sigríðar dóttur sinnar, sem þá bjó í Bandaríkjunum, komst hann í samband við bandaríska framleiðendur á vinnuvélum og fjölbreyttri járnvöru og hóf að flytja framleiðslu þeirra til Íslands. Um 1968 kom hann sér fyrir að Suðurlandsbraut 6 og rak þar fyrirtæki sitt næstu 18 árin. - Það er við upphaf þess reksturs sem ég kynnist honum fyrst, sporléttum, kvikum, áhugasömum og kraftmiklum viðskiptamanni sem ávallt hélt ótrauður áfram - fullur af eldmóði og væntingum um betri hag - þótt á móti blési. Fyrirtækið Transit Trading Co rak hann til ársins 1986 þegar hann dró sig út úr daglegum viðskiptum enda þá kominn á áttræðisaldur.

Geir hafði yndi af lestri góðra bóka, hann var þyrstur í allan fróðleik. Hann var gæddur fjölhæfri greind og kom því víða við þegar hann leitaði fanga. Hin síðari árin varð ættfræði honum mjög hugleikin en einnig fróðleikur um jörðina, geiminn og umhverfismál. Geir hafði gaman af að tala um sín hugðarefni, hann var léttur í viðmóti, gleðimaður á mannamótum, söngmaður góður og átti létt með að flytja snjallar tækifærisræður þegar slíkt átti við. Hann hafði gaman af glettni og sprelli og að gantast við sín eigin börn á árunum í Svíþjóð og síðar barnabörnin hér heima. Geir var mikið fyrir útiveru þegar tóm gafst til og stundaði skíðamennsku og skógargöngur með börnunum í Svíþjóð. Hér heima var hans unaðsreitur í sumarhúsinu að Arnarbóli. Þar undi hann best í fríum á sumrin í tengslum við kyrrðina og jörðina og þar braut hann land í erfiðu holti. Þar bera nú slétt tún og gróskumikil skógrækt vitni um elju hans og alúð við gróður og jörð. - Hann er horfinn okkur en andi hans svífur yfir Arnarbóli og Nátthagavatni.

Blessuð sé minning Geirs Stefánssonar, hvíl þú í friði tengdafaðir minn,

Garðar Halldórsson.

Þegar ég sest niður og hyggst rita um hann afa minn veit ég varla hvar né hvernig ég á að byrja. Það er svo margt sem ég get sagt um hann því ég á svo margar góðar minningar um hann. Það er líka svo margt sem ég myndi vilja segja öðrum um hann því hann var svo eftirminnilegur maður.

Þegar ég var lítil ólst ég upp hjá afa og ömmu. Eftir að ég flutti frá þeim að verða sex ára gömul var þar áfram mitt annað heimili og gekk ég í barnaskóla í hverfinu þeirra. Mér fannst alltaf gott að vera hjá þeim og þarf leið mér ákaflega vel. Afi var mikill vinur minn og við náðum alltaf vel saman. Þegar ég var lítið barn að vaxa úr grasi var hann minn óskaafi. Hann var blíður og næmur á líðan mína. Hann sjálfur var einstaklega skemmtilegur og fróður. Mér leiddist ekki eina einustu stund þegar ég var með honum. Hann kveikti áhuga minn á öllum hlutum í kringum mig og ómerkilegustu hlutir urðu hreint undur þegar hann útskýrði tilgang þeirra eða tilurð. Þolinmæði hans, við oft á tíðum óþolinmóða telpu, var einstök. Ég sé það sjálf í dag sem móðir, hversu vandasamt uppeldið getur verið. Börn vilja fara sínar leiðir og þola lítið andstreymi. Jafnvel þó afi hafi unnið fullan vinnudag þau ár sem ég var að alast upp sem barn, gaf hann sér ávallt tíma fyrir mig. Það varð honum til happs, ef svo má segja, að ég eignaðist góðar vinkonur, en alltaf hélt afi áfram að vera mikilvægur, sérstaklega þegar ég þurfti að fá svör við ýmsum spurningum. Við afi horfðum líka alltaf saman á kúrekamyndir með John Wayne sem var í miklu uppáhaldi hjá okkur. Það var heil athöfn útaf fyrir sig.

Eftirminnilegar eru samverustundir okkar á Arnarbóli, sumarbústað afa og ömmu. Sem barn og unglingur dvaldist ég langdvölum þar með þeim, oft svo dögum skipti. Afi stjórnaði þeim ferðum eins og herforingi. Þegar sólin skein var brunað af stað, við amma ennþá með stírurnar í augunum, því hann afi var mikill morgunhani. Hann kaus Arnarból alla tíð framyfir utanlandsferðir, þar var einfaldlega hans paradís og honum leið hvergi eins vel og þar. Afi kenndi mér að leika mér úti í náttúrunni, að þekkja fuglana og umhverfið í kringum mig. Jafnvel þó að ég væri framanaf eina barnabarnið í fjölskyldunni og hefði þá enga krakka til að leika mér við, skipti það mig engu máli. Ég elti bara afa út um allt og lærði af honum. Ég fékk aldrei á tilfinninguna að ég væri fyrir, hann leyfði mér bara að "hjálpa til", þó hann hafi sagt mér það síðar að verkum hans hafi miðað frekar seint þegar ég bauð fram hjálp mína! Á Arnarbóli átti ég lítið hús og þar fékk ég aðstoð hans við að koma upp mínum eigin kálgarði. Ég lærði af honum að stikla milli steina í grýttu holtinu og svo var hlaupið niður að vatni og vaðið eða siglt á gúmmíbát. Við fórum í langar gönguferðir um næsta nágrenni og lágum á bakinu í lautinni og horfðum á skýin taka á sig hinar ýmsu myndir. Á kvöldin sátum við ásamt ömmu við heita kamínuna og hann las fyrir mig sögur. Þjóðsögurnar voru mitt uppáhald, sérstaklega Búkolla og Gilitrutt, því hann lék alltaf skessurnar með tilþrifum fyrir mig. Þessar sömu sögur les ég fyrir dóttur mína í dag.

Á námsárum mínum í gagnfræðaskóla og menntaskóla var það námsefni mitt sem við lásum saman. Alltaf bætti hann við einhverjum fróðleik sem ekki var í bókunum. Frásagnargáfa hans var einstök og jafnvel það sem mér virtist þurr og leiðinleg lesning gæddi hann lífi þegar hann tók upp bókina og las. Hvort sem viðfangsefnið var latína eða landafræði gat hann útskýrt það sem að vafðist fyrir mér. Mannkynssaga var þó í sérstöku uppáhaldi hjá honum og það fag lásum við alltaf saman.

Þegar ég var 16 ára kom eiginmaður minn inn í líf mitt. Ég vissi vel að afi var sko aldrei að liggja á skoðunum sínum, hann gat verið mjög stóryrtur og átti til að segja nákvæmlega það sem hann var að hugsa hvort sem manni líkaði það betur eða verr. Það var því ekki að undra að ég væri svolítið stressuð yfir þessu öllu saman, því að þó að mér líkaði pilturinn var allsendis óvíst að afa líkaði við hann. En sem betur fer blessaðist það allt saman og þeir urðu strax hinir mestu mátar. Ferðir mínar til afa og ömmu héldu því sínum sessi og nú fórum við öll saman á Arnarbólið.

Þegar við Dóri giftum okkur í október 1996 leiddi afi mig upp að altarinu. Mikið hlýnar mér um hjartaræturnar nú þegar ég hugsa til baka til þess dags. Hann hafði þá nokkru áður átt við veikindi að stríða sem tóku sinn toll. Engu að síður hélt hann eftirminnilega ræðu í veislunni minni og flutti hana eins og hann gerði ætíð þegar hann hélt ræður, af fingrum fram.

Honum afa þótti vænt um langafabörnin sín Helenu Birnu og Bjarna Geir. Í fyrrasumar vorum við fjölskyldan mikið með afa og ömmu á Arnarbólinu með börnin. Helena Birna fór þá með langafa og labbaði með honum í birkilundinum sínum sem honum þótti svo vænt um. Mér fannst ég sjá sjálfa mig litla þegar ég horfði á þau.

Eins og ég sagði í upphafi þessarar greinar er svo ótalmargt sem ég myndi vilja segja en get skiljanlega ekki komið öllu að hér. Sú tilfinning sem situr eftir þegar ég hef skrifað þessar línur, er þakklæti og ást í garð afa míns. Orðin eru kannski ekki það sem skiptir mestu máli heldur það hvernig hann lifir í minningu minni og þeirra sem þótti vænt um hann og minnast hans með hlýjum hug. Það er það sem verður að lokum söknuðinum yfirsterkara.

Sigríður (Níní).

Í dag kveðjum við elskulegan afa okkar Geir Stefánsson. Það að kveðja ástvini sína er ávallt erfiður tími, tími minninga og söknuðar. Það er þó huggun harmi gegn að vita að þjáningu hans í veikindum er lokið og hefur sálin fengið hvíld á nýjum stað.

Margs er að minnast því við systurnar höfum átt margar góðar samverustundir með afa og ömmu. Afi var mikil barnagæla, nutum við þess allar stelpurnar hans og síðar barnabarnabörnin nú síðustu ár. Hann var fjörugur og sprellaði oft með okkur og kenndi okkur að dansa vals. Hann matbjó heimsins besta lambahrygg og leyfði okkur að borða karamelluna af kartöflunum þegar mamma sá ekki til. Það var ekki ósjaldan sem hann horfði yfir stelpnahópinn sinn, ömmu, mömmu og systur hennar tvær og okkur fjórar dætradætur sínar og sagði sig ríkasta mann í heimi, já hann var ánægður með kvennaskarann.

Afi var einstaklega mikið náttúrubarn og lifði hann fyrir stundir sínar á Arnarbóli, unaðsreit þeirra ömmu í sveitinni. Það er okkur minnistætt hvað okkur þótti gaman að heimsækja afa og ömmu á Arnarbóli.

Ósjaldan náði afi í okkur þegar við vorum litlar snemma á laugardagsmorgnum og tók okkur með í sveitina. Sem telpum fannst okkur Arnarbólið búa yfir gríðarlega miklum ævintýraljóma sem heillaði okkur og afi jók á ljómann með ævintýrum og sögum. Afi var duglegur að taka okkur með í könnunarleiðangur um landið sitt sem hann var svo stoltur af og ræktaði upp af einstakri alúð. Spenntar fylgdust við með trjánum sem hann hafði skírt í höfuð á okkur barnabörnunum. Á hverju hausti var gaman að sjá hvort við eða trén höfðum vaxið meira. Hann fann með okkur hreiður og kenndi okkur að við mættum aldrei snerta eggin því þá myndi fuglamamman yfirgefa hreiðrið og þá myndu ungarnir deyja því þeim yrði svo kalt. Að sjálfsögðu var svo fylgst grannt með úr fjarska þegar ungarnir komu úr eggjunum og mamman sótti handa þeim orma.

Það verður tómlegt á Arnarbóli í sumar nú þegar afa nýtur ekki lengur við. Þegar við fjölskyldan fórum að flagga í hálfa stöng á Arnarbóli átti maður ósjálfrátt alltaf von á að sjá hann koma labbandi milli trjánna með rauðu derhúfuna sína tilbúinn að sýna okkur hvernig skógurinn hans væri að byrja að springa út. Minning hans mun fylgja staðnum um framtíð alla.

Lát minninganna mildu blóm mýkja og græða sárin,

en ljúfra tóna enduróm ylja og þerra tárin.

Við skulum láta vorsins yl vekja hjartans gleði

og gera öllum gæðum skil, sem gæfan okkur léði.

(Ágúst Böðvarsson.)

Hvíl þú í friði, afi okkar, og megi andi þinn vaka yfir okkur.

Þínar dótturdætur,

Margrét Birna og Helga María Garðarsdætur.

Í dag kveð ég vin minn Geir Stefánsson, afa eiginkonu minnar. Ég kynntist Geir fyrir um 15 árum síðan og náðum við strax vel saman þó aldurmunurinn væri rúm hálf öld. Strax leyndi sér ekki að þar fór skemmtilegur, fróður og vel lesinn maður. Geir, sem var lögfræðingur að mennt, hafði stundað viðskipti megin hluta ævi sinnar og var að segja skilið við þann þátt þegar ég kem inn í fjölskylduna. Vegna aðstæðna stuttu síðar hóf hann lítisháttar innflutning aftur sem ég aðstoðað hann við. Samskipti okkar voru mikil þessi ár og áttum við saman góðar stundir hvort sem það var heima hjá Birnu og Geir eða á Arnabóli, sumarbústaði þeirra. Á sumarkvöldum, eftir viðvik dagssins, sátum við Geir oft einir eftir og fengum okkur eilítið í stóru tána, virtum fyrir okkur Nátthagavatnið og fjallahringinn og gáfum okkur tíma til að ræða um menn og málefni. Voru samræður við Geir sérstaklega skemmtilegar vegna fróðleiks hans og frásagnagáfu. Þessi augnablik eru mér mikils virði.

Fram til ársins 1990 átti Geir því láni að fagna að njóta góðrar heilsu en þá lagðist hann á sjúkrahús með blóðtappa í höfði. En með ákveðni og þrjósku náði hann nær fullum bata á ný. Hann keyrði til að mynda bíl fram að aldamótum eins og hann orðaði það. Ég var alltaf hálf hræddur í bíl hjá honum þar sem að hann hafði lagt í vana sinn að keyra frekar greitt. Það voru fleiri hlutir sem skelfdu mig eins og það þegar fúaverja þurfti mæninn á Arnabóli. Ég var sendur af stað en kláraði verkið ekki alveg. Geir skemmti sér mikið yfir lofthræðslu minni þegar hann hafði gengið upp fúinn stigann og lokið verkinu.

Segja má að Geir hafi verið mjög sjálfbjarga með alla hluti en það er ekki alltaf sjálfgefið þegar fólk er orðið mjög fullorðið. Hann var ennfremur alltaf tilbúinn að læra eitthvað nýtt þó aldur færðist yfir.

Geir kenndi mér margt og mér þótti vænt um hann. Ég er þakklátur fyrir ánægjuleg og eftirminnileg kynni mín af honum. Megi hann hvíla í friði. Ég sendi Birnu og öðrum aðstandendum mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Halldór Halldórsson.

Baldur Ingólfsson.