Eyjólfur Guðmundsson fæddist að Brekkum í Mýrdal 27. mars 1910. Hann lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. maí síðastliðinn. Útför Eyjólfs fór fram frá Víðistaðakirkju 8. júní.

Eyjólfur fóstri minn er látinn í hárri elli á nítugasta og öðru aldursári. Hann var Skaftfellingur, fæddur að Brekkum í Mýrdal sonur Guðmundar Eyjólfssonar og Ragnhildar Stígsdóttur og elstur þeirra barna sem upp komust.

Eyjólfur fór að heiman og menntaði sig fyrir sunnan og fór í framhaldsnám í Danmörku. Eftir kennaranám gerðist hann kennari á Ísafirði þar sem hann kynntist tilvonandi eiginkonu sinni, Sigrúnu móðursystur minni. Hann bjó henni gott heimili í Hafnarfirði og þar ólu þau upp tvo mannvænlega syni; Guðna Ragnar og Þóri Björn, auk undirritaðs.

Hjá þeim hjónum var ég alinn upp frá tveggja ára aldri og fram yfir fermingu. Fyrir það skal þakka enda ekki í kot vísað, því Eyjólfur bjó fjölskyldu sinni menningarlegt heimili og með elju og sparsemi hans var séð fyrir því að aldrei skorti neitt, en fyllstu aðhaldssemi gætt, engu að síður.

Hann var góð fyrirmynd, gerði allt í hófi, var glaður í lund, sanngjarn og réttvís og vinur vina sinna. Þegar fóstra mín varð heltekin af Alzheimer-sjúkdómnum og varð að leggjast inn á sjúkrahús, heimsótti hann hana á hverjum degi þar til yfir lauk.

Hann sinnti börnum og barnabörnum eindæma vel; mundi afmælisdagana og kom eða hringdi til að samgleðjast ef nokkur kostur var. Síðari árin bauð hann allri hersingunni árlega á veitingahús og var manna glaðastur í hópnum sínum.

Eyjólfur var ákveðinn og stefnufastur, jafnaðarmaður fram í fingurgóma og glaðsinna og jákvæður alla tíð. Sennilega hefur hans hái aldur og skýr hugsun í hraustum líkama m.a. helgast af þeim lyndiseinkennum framar öðru.

Á sumrum var ég í sveit hjá Stígi bróður Eyjólfs að Steig í Mýrdal. Þar bjó þá Guðmundur sem sat í skjóli Stígs yngsta sonar síns. Guðmundur afi var af gamla skólanum, skuldaði engum neitt og lagði ullina sína inn í Verslunarfélagið í Vík, ekki í Kaupfélagið. Hann var blindur eins langt sem ég man, farlama og gekk við tvo stafi og honum féll samt aldrei verk úr hendi, þeim gamla, og saumaði yfirbreiðslur yfir heynálar nágrannabændanna úr strigapokum og fékk fáeinar krónur fyrir. Fyrir þær keypti hann kandís, rúsínur og kex og þegar vel lá á honum fékk ég; herbergisnautur hans á sumrin, að njóta þess að hann opnaði kistuna sína og laumaði góðgæti að drengnum. Sannarlega trúr yfir litlu en hélt sinni reisn og sínu stolti. Skuldaði engum neitt, kaus alltaf íhaldið og skildi ekki að yngsti sonurinn kysi Framsókn og léti skrifa hjá sér í Kaupfélaginu.

Eyjólfur kenndi alla tíð í Hafnarfirði utan áranna á Ísafirði og skamms tíma í Njarðvíkum. Fyrst við Lækjarskóla og síðari árin í Flensborg. Hann þótti strangur kennari en réttsýnn og honum var gjarnan trúað fyrir erfiðari nemendunum sem flestir minnast hans með jákvæðum hætti.

Hann var ólatur við að koma unglingum til manns. Hann kom á fót unglingavinnu í Krýsuvík á vegum bæjarins og stjórnaði henni um margra ára skeið. Munu margir eiga minningar um kartöflu- og rófnarækt á þeim stað, auk þess sem sund var stundað í heimagerðri laug í nágrenninu.

Auk kennslunnar sinnti hann stjórnmálum og félagsmálum í bænum, var um skeið í framboði fyrir Alþýðuflokkinn og ritstýrði Alþýðublaði Hafnarfjarðar. Fulltrúi barnaverndarnefndar og Rauða krossins um tíma auk þess sem hann stundaði þýðingar og skrifaði um kennslumál.

Hann lærði seint að aka bíl og minnist ég þess með skelfingu þegar ég fór eitt sinn með honum og fóstru minni í ökuferð til Reykjavíkur og sat í aftursæti bifreiðarinnar. Stuttu eftir að komið var til höfuðborgarinnar skreið ég niður á gólf og hélt mig þar meðan martröðin stóð yfir. Hafði einhverjar afsakanir fyrir að vera heima, næst þegar boðið var í bíltúr. Í hálfa öld ók sá gamli samt án verulegra stórslysa og hætti ekki að aka fyrr en fyrir u.þ.b. einu ári að hann sagðist vera farinn að sjá fjögur framhjól á bílunum sem hann mætti, þá þótti honum komið nóg.

Þegar Eyjólfur neyddist til að hætta að vinna og var orðinn einbúi, sá það á að hann var sonur hans föður síns og engin ástæða til að vera verklaus. Hann sótti hvert námskeiðið af öðru; í matreiðslu, útskurði, bókbandi o.fl. Auk þess sem hann ferðaðist bæði innanlands og utan. Hann tók m.a. að sér að koma upp bókasafni fyrir Hjúkrunarheimilið Skjól í Reykjavík og las þar líka upphátt fyrir íbúana, og sagði þá gjarnan við okkur börnin að hann væri að lesa fyrir "gamla fólkið" - en það var margt hvert miklu yngra en hann sjálfur. Sannaðist þar með að maður er ekki eldri en manni sjálfum finnst maður vera.

Mýrdalurinn er í mínum augum einn fegursti staður á landinu; með jökulinn á aðra hönd sem hefur um aldir ógnað byggðinni með vatnsflóðum og aurburði og hafið á hina en fjöll og sandar og grænar grundir á milli. Og öll þessi fallega formuðu fjöll. Ég hef alltaf öfundað fóstra minn af að hafa fæðst þarna, og var samt svo heppinn að fyrir hans tilstilli eyddi ég átta sumrum á þessum stað. Þar hef ég staðið aleinn á fjallstindi á sólríkum degi og hágrátið yfir fegurð landsins. Nú getum við grátið yfir því að höfðinginn kemst ekki með okkur á ættarmótið í Steig í sumar eins og ætlunin var. Síðast þegar ættarmót var haldið var hann fjarverandi, hann hafði fótbrotnað daginn fyrir ferðina, nú er hann enn fjær en það er okkar að líta þar við og minnast hans og gleðjast saman.

Bræður, frændsystkin og vinir, þannig hefði hann viljað hafa það.

Þórarinn.

Þórarinn.