Karen Birna Erlendsdóttir var fædd á Búðum, Fáskrúðsfirði, 2. febrúar 1928. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu í Reykjavík 31. maí síðastliðinn. Foreldrar hennar voru Erlendur Jónsson, fæddur 1893, og Jóhanna Helga Jónsdóttir, fædd 2.9. 1896, þau eru bæði látin. Systkini hennar eru: Sigurbjörg, f. 26.7. 1922, Anna, f. 10.7. 1924, hún er látin, Valdís, f. 29.11. 1929, Elín, f. 9.3. 1932 og Bragi, f. 20.6. 1937.

Eiginmaður Karenar var Birgir Árnason, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Már Birgisson, f. 30.6. 1949. 2) Jóhanna Helga Diplock, f. 19.6. 1955, maður David Diplock, þau eiga tvo drengi, Michael Diplock og Alex Diplock. 3) Rakel Calabrese, f. 12.12. 1959, maður Sal Calabrese, þau eiga tvö börn, Stefan Calabrese og Conrad Calabrese.

Útför Karenar Birnu fer fram frá Seljakirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 13.30.

Þín mæta minning lifir í muna okkar hér og heljar hafi yfir guðs himin augað sér. Þar blómgast háir hlynir hins hljóða anda-lands, þar hittast horfnir vinir í heimi kærleikans. (Jakob Jóh. Smári.)

Í dag er til moldar borin frá Seljakirkju kær vinkona og fyrrum vinnufélagi, Karen Birna Erlendsdóttir. Fráfall hennar bar skjótt að.

Hún var fædd og uppalin á Fáskrúðsfirði og hafði sterkar taugar til æskustöðvanna, hennar austfirski framburður var og sérstakur og skemmtilegur, orð og orðatiltæki mörg sérstæð, geymum við í minningunni. Frásagnir hennar af mannlífi fyrir austan og víðar er leið hennar lá, hreint óborganlegar. Hún var mannvinur og félagi góður, skemmtileg og ræðin, hún hafði góða nærveru. Ung réðst hún til starfa að Vífilsstöðum en síðar vann hún á Hótel Borg, er virðing og glæsileiki þess staðar reis hæst. Var það henni eftirminnilegur tími, þar naut hún sín í starfi.

Hún hafði til að bera elegant framkomu og hafði heimsborgaralegt fas. Eftirtekt vakti hún fyrir sinn meðfædda glæsileika og tískusýningardama hefði hún verið án nokkurrar æfingar.

"Ljúft er að láta sig dreyma liðna sælutíð", þessar ljóðlínur hafði hún oft yfir, og getum við sem þekktum hana best ráðið nokkuð af að minningar um hið liðna voru henni ávallt ofarlega í huga. Hún var gjörkunnug mannlífinu í Reykjavík þess tíma og kunni frá mörgu að segja.

Sjálfstæð var hún og sjálfstæðiskona, þar um varð engu breytt.

Eftir að hún gifti sig og börnin fæddust eitt af öðru stóð heimili þeirra við Rauðalæk, en síðar var flutt í stórt og vandað einbýlishús á Flötunum í Garðabæ.

Ekki fór hún varhluta af mótlæti í lífinu, við tóku erfiðleikaár í fjarlægu landi en um skeið dvöldu þau í Suður-Afríku, leiddi þar til skilnaðar þeirra.

Ein kom hún heim úr þeirri för og réðst þá fljótlega til starfa að Reykjalundi, var þar hennar heimili og vinnustaður lengi. Bjó hún í starfsmannaíbúðum, en með dugnaði og sparsemi tókst henni að eignast sína eigin íbúð, þar hugðist hún eiga mörg góð ár og athvarf milli þess er hún dvaldi hjá börnum sínum vestanhafs.

Ánægju hafði hún af að ferðast, fór í ýmsar ferðir innanlands og með börnunum ytra. Þá prjónaði hún lopapeysur í frístundum.

Liðtæk var hún og er við skreyttum deildina fyrir jólin, heyrðist þá oft: "aðeins meira greni, stelpur, fáa liti en hefðbundið".

Oft talaði hún um börnin og barnabörnin í Kanada og fylgdumst við með uppvexti þeirra en hún sýndi okkur oft myndir af börnum sínum og barnabörnum, en þeim unni hún mjög.

Við minnumst hennar sem hæfileikaríkrar konu er vann störf sín af natni og samviskusemi og ávann sér vináttu margra.

Undanfarna mánuði hafði hún sótt félagsstarf í dagvist eldri borgara við Vitastíg.

Friður sé með ættfólki og þeim er næst stóðu Karen Birnu Erlendsdóttur. Megi ljós friðar og kærleika lýsa henni á Drottinsbraut.

Þín mæta minning lifir

í muna okkar hér

og heljar hafi yfir

guðs himin augað sér.

Þar blómgast háir hlynir

hins hljóða anda-lands,

þar hittast horfnir vinir

í heimi kærleikans.

(Jakob Jóh. Smári.)

Vinnufélagar á Reykjalundi.

Vinnufélagar á Reykjalundi.