SKIPULAGSSTOFNUN hefur hafið athugun á mati á umhverfisáhrifum nýrra mannvirkja innan hafnarinnar á Seyðisfirði. Hafnarsjóður Seyðisfjarðarkaupstaðar er framkvæmdaraðili en Hönnun hf. vann að gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum.

SKIPULAGSSTOFNUN hefur hafið athugun á mati á umhverfisáhrifum nýrra mannvirkja innan hafnarinnar á Seyðisfirði. Hafnarsjóður Seyðisfjarðarkaupstaðar er framkvæmdaraðili en Hönnun hf. vann að gerð skýrslu um mat á umhverfisáhrifum. Heildarkostnaður er ráðgerður um 500 milljónir króna.

Tilgangur framkvæmdarinnar er að stækka hafnaraðstöðu til að unnt verði að taka á móti stærri ferju Smyril Line þegar hún verður komin í gagnið og bæta afgreiðsluaðstöðu fyrir farþega og ökutæki. Nýja ferjan á að taka um 1.480 manns og 800 bíla en núverandi ferja tekur 1.050 manns og 300 bíla.

Ráðgerð er 50 þúsund fermetra landfylling fyrir nýja hafnarsvæðið frá ósum Fjarðarár og um 250 m út með suðurströnd Seyðisfjarðar. Er svæðið á svokölluðum Leirum fyrir botni fjarðarins og er sjávardýpi þar allt að einum metra. Ekið verður efni í svonefndan fyrirstöðugarð og dýpkað framan garðsins um 7-10 metra. Verður efnið úr dýpkuninni, alls um 110 þúsund rúmmetrar, notað í uppfyllgingu innan garðsins sem alls þarf 149 þúsund rúmmetra efnis. Það sem á vantar verður fengið úr námu á Borgartanga austan kaupstaðarins. Fyrirhugað svæði er utan snjóflóðahættusvæðis samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðu Veðurstofunnar.

"Samkvæmt matsskýrslu munu grynningar í botni Seyðisfjarðar raskast töluvert við framkvæmdirnar en það svæði hafa fuglar nýtt sér sem fæðuöflunarsvæði. Talið er líklegt að fuglanir muni leita í óraskaðar fjörur við Vestdals- og Hánefsstaðaeyri til fæðuöflunar," segir m.a. í frétt frá Skipulagsstofnun. Óvíst er talið hvort framkvæmdirnar hafi áhrif á stöðu sjóbleikju í Fjarðará og talið er ólíklegt að þær hafi varanleg áhrif á lífríki árinnar.

Þá kemur fram að samkvæmt matsskýrslu megi búast við ónæði á framkvæmdatíma og reikna megi með aukinni umferð og meiri umferðarhávaða á komu- og brottfarartímum stærri ferju. Samkvæmt matsskýrslu mun fjölgun ferðamanna hafa jákvæð áhrif á ferðaþjónustu á Austurlandi og reiknað er með að ferðamannatími lengist.