XL-7 er 4,68 m á lengd, eða svipaður og Nissan Terrano II.
XL-7 er 4,68 m á lengd, eða svipaður og Nissan Terrano II.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
SJÖ manna jeppi, Suzuki Grand Vitara XL-7, verður kynntur um næstu helgi hjá Suzuki-bílum í Skeifunni. Hér er um að ræða stóran jeppa sem er byggður á sjálfstæða grind og er með háu og lágu drifi.

SJÖ manna jeppi, Suzuki Grand Vitara XL-7, verður kynntur um næstu helgi hjá Suzuki-bílum í Skeifunni. Hér er um að ræða stóran jeppa sem er byggður á sjálfstæða grind og er með háu og lágu drifi. Bíllinn er með V6-vél, 2,7 lítrum að slagrými, en V-6 vélin í Grand Vitara er 2,5 lítrar. Bílnum hefur verið vel tekið í Bandaríkjunum þar sem hann svarar þörfum bílakaupenda um rými og gott afl og ætti væntanlega að eiga vel upp á pallborðið hérlendis af sömu ástæðum. Von er á dísilgerð bílsins á næsta ári.

Við prófuðum XL-7 á dögunum, jafnt beinskiptan og með fjögurra þrepa sjálfskiptingu.

Fullbúinn jeppi

XL-7 er bíll með hefðbundnu jeppalagi og líkist vissulega Grand Vitara að framan, en hliðarsvipurinn minnir um margt á stærri bíla. Þetta er í alla staði snotur bíll og ýmislegt hagnýtt er að finna við hönnun hans, eins og t.a.m. stóra hurðarhúna sem auðvelt er að grípa um jafnvel með þykka ullarvettlinga á höndum. Afturhlerinn opnast í heilu lagi til hliðar, frá hægri til vinstri.

XL-7 er 4,68 metrar á lengd, eða tæpum hálfum metra lengri en Grand Vitara. Með þessari lengd er unnt að bæta við þriðju sætaröðinni, sem eykur strax notagildi bílsins. Sjö sæta jeppar eru orðnir valkostur við stóra fjölnotabíla. Nissan Terrano II hefur einnig verið boðinn sjö sæta en hann er 1,2 cm styttri en XL-7 og auk þess er síðarnefndi bíllinn 2,5 cm breiðari. Dyr eru sömuleiðis stórar sem auðveldar aðgengi að bílnum. Það verður þó að segjast strax að með þriðju sætaröðina í notkun er farangursrýmið í XL-7 lítið. Þegar hún er ekki í notkun er einfalt að fella fram sætisbökin og mynda gott farangursrými, þó ekki alveg flatt, en þar má bæta um betur með því að taka hnakkapúðana úr öftustu sætum og setuna í miðjubekknum.

Miðsætaröðin er bekkur sem skiptist 60/40 og hann er á sleða sem auðveldar færslu hans fram á við til að hleypa farþegum inn í öftustu sætaröðina. Þar er vel búið að farþegum með tveimur hnakkapúðum og tveimur þriggja punkta beltum, en öftustu sætin henta þó ekki fullvöxnum á lengri leiðum. Í miðjusætaröð eru aðeins tveir hnakkapúðar og tvö þriggjapunkta belti.

Allt til alls

Þegar sest er upp í bílinn sést strax að þar er nánast allt til alls. Rúður eru allar rafstýrðar, upphitun er í sætum og þarna er að finna ágæt hljómtæki með geislaspilara. En það er plastkeimur yfir mælaborðinu, sem þó er hagnýtt í útfærslu en dálítið gamaldags í útliti. Eflaust splæsa einhverjir 30.000 krónum í viðarklæðningu í mælaborðið til að hressa upp á það. Sömuleiðis er lítill yndisauki að gúmmíhólknum sem umlykur gírstöngina í beinskipta bílnum.

Framsæti eru stillanleg og fer vel um ökumann undir stýri. Hann hefur líka gott útsýni úr framrúðu en hnakkapúðar og varadekk draga nokkuð úr útsýni úr baksýnisspegli, sem er algengur ókostur í sjö sæta jeppum.

Aflmikil og gangþýð vél

Eins og fyrr segir er bíllinn í fyrstu boðinn einvörðungu með sex strokka bensínvél með 2.736 rúmsentimetra slagrými. Þetta er aflmikil og gangþýð fjölventlavél með tveimur yfirliggjandi knastásum. Hún fer vel við sjálfskiptinguna sem er með yfirgír. Aflið er 170 hestöfl og menn verða þess sannarlega varir á bílnum beinskiptum. Bíllinn togar líka mikið miðað við bensínvél, 231 Nm við 3.200 snúninga á mínútu og bíllinn er eins og hugur manns í framúrtöku á þjóðvegum. Með þessari vél býður bíllinn upp á fágaða og þýða vinnslu og eyðslan er ekkert til þess að hafa áhyggjur af; 10,8 lítrar í blönduðum akstri, (samkvæmt tölum frá framleiðanda), en 12 lítrar á sjálfskipta bílnum. Eyðslan fer reyndar upp í tæpa 14 og 15,6 lítra í bæjarakstri. Vélin er með tímakeðju sem er viðhaldsfrí og endingarbetri en hefðbundnar tímareimar.

XL-7 er fullmótaður jeppi með gormafjöðrun að framan og aftan sem ætti einnig að henta vel til breytinga. Eins og margar nýrri gerðir jeppa hefur hann samt gott aksturslag innanbæjar, altént óbreyttur. Bílnum er að jafnaði ekið í afturdrifi en í hálku og á malarvegum er skipt í fjórhjóladrif með skiptistöng milli sæta. Hægt er að tengja framdrifið á allt að 100 km hraða. Lága drifið er síðan til staðar þegar verulega reynir á drifkraftinn.

XL-7 er fyllilega samkeppnisfær í verði. Grunngerðin kostar 2.980.000 krónur en með sjálfskiptingu bætast við 200 þúsund krónur. Grunngerðin er vel búin. Má þar nefna rafdrifnar rúður, hita í sætum og útispeglum, fjarstýrðar samlæsingar, geislaspilara og álfelgur.

Guðjón Guðmundsson