Tíminn og vatnið eftir Vigni Jóhannsson á sýningu í nýja glerlistasafninu í Kaupmannahöfn.
Tíminn og vatnið eftir Vigni Jóhannsson á sýningu í nýja glerlistasafninu í Kaupmannahöfn.
Í KAUPMANNAHÖFN var á föstudag opnað fyrsta norræna safnið tileinkað nútíma glerlist. Undirbúningur að stofnun safnsins hefur tekið mörg ár.

Í KAUPMANNAHÖFN var á föstudag opnað fyrsta norræna safnið tileinkað nútíma glerlist. Undirbúningur að stofnun safnsins hefur tekið mörg ár. Þar verða verk eftir alla helstu glerlistamenn Norðurlandanna, en einn Íslendingur, Vignir Jóhannsson, á verk á opnunarsýningunni. Safnið er byggt inn í tvo neðanjarðarvatnstanka, en tankarnir voru byggðir á sínum tíma í þeim tilgangi að safna góðu vatni fyrir Kaupmannahafnarbúa. Það voru þó Carlsbergverksmiðjurnar sem notuðu tankana lengst af til að geyma vatn til ölgerðar. Vignir Jóhannsson segir að unnið hafi verið að því í mörg ár að fá tankana til afnota fyrir safnið. Hann segir safnið mjög sérstakt, og mörg þau verk sem verða á opnunarsýningunni sérstaklega búin til fyrir það. "Ég er búinn að vera að vinna í mínum verkum í á annað ár. Safnið er neðanjarðar, og það er raki hérna inni. Gólfið er blautt og rakinn speglast fallega í verkunum - þetta er mjög sérkennileg stemmning."

Íslensk stemmning í verkum Vignis

Vignir segir mikinn heiður að því að hafa verið boðið að vera með á fyrstu sýningu safnsins. "Ég er að gera svolítið öðruvísi verk en hinir. Miðillinn hjá mér er hert gler sem ég brýt - ég safna sallanum svo saman og bræði hann upp á nýtt. Þannig heldur hann kristallaforminu - það sést að þetta er kurl og þetta er svolítið ískennt; minnir á ís eða vatn. Ég hef að undanförnu verið að vinna með svipað þema; vatn og polla og tímann og vatnið. Tíminn og vatnið er heiti á einu verka minna hérna."

Vignir segir hafa skapast góðan samstarfsanda með þeim hópi sem stendur að sýningunni í glerlistasafninu og að þetta verði byrjun á meira samstarfi. "Við ætlum að setja saman sýningu sem á að ferðast um Norðurlöndin næstu 4-5 árin en svo ætlum við að vera með glersýningu úr þessu safni í nýja sigurboganum í París í nokkra mánuði á næsta ári."

Blaðamaður er svolítið undrandi á því að safni fyrir glerlist skuli hafa verið komið fyrir neðanjarðar - gler er jafnan látið njóta sín í birtu. "Jú - það er von þú spyrjir. En þetta kemur vel út. Öll lýsing í safninu er mjög kontrolleruð. Maður stendur í myrkri með ljós á bak við myndirnar, og samspil ljóssins og verkanna er hannað. Þetta er mjög dramatískt að sjá og gaman að koma þarna inn. Það má segja að þetta sé eins og gamall kastali með myrkum hvelfingum og stemmningin er dularfull. Margar af myndunum eru miðaðar við dagsbirtu, en í safninu er einungis notast við rafljós."

Það var borgarstjórinn í Kaupmannahöfn sem opnaði safnið í gær, en það heitir Cysternerne,

Muséet for moderne glaskunst.