Borgar Þorsteinsson er einn af eigendum Rover Expeditions sem leiða Íslendinga inn í ævintýraheim Kenýa. Hér er hann ásamt Samburu-stríðsmönnunum frá Maralal, þeim Ernest, Balance, Idi, Topiah og Palias.
Borgar Þorsteinsson er einn af eigendum Rover Expeditions sem leiða Íslendinga inn í ævintýraheim Kenýa. Hér er hann ásamt Samburu-stríðsmönnunum frá Maralal, þeim Ernest, Balance, Idi, Topiah og Palias.
Það var íslensk-kenýska ferðaskrifstofan Rover Expeditions sem skipulagði úlfaldasafaríið fyrir blaðamenn Morgunblaðsins og kom þeim í kynni við hina kynngimögnuðu félaga Idi og Ernest og vini þeirra. Rover Expeditions er ungt fyrirtæki.

Það var íslensk-kenýska ferðaskrifstofan Rover Expeditions sem skipulagði úlfaldasafaríið fyrir blaðamenn Morgunblaðsins og kom þeim í kynni við hina kynngimögnuðu félaga Idi og Ernest og vini þeirra. Rover Expeditions er ungt fyrirtæki. Það var stofnað í Danmörku árið 1997 en var flutt til Kenýa árið 2000. Eigendur þess eru bræðurnir Borgar og Svanur Þorsteinssynir ásamt Kenýamanninum Philip Odour Otienno. Borgar og Svanur hafa farið árlega til Afríku frá árinu 1992 og dvalið allt frá einum mánuði upp í sex mánuði í senn.

"Þetta ævintýri hefur farið hægt af stað hjá okkur því það tekur langan tíma að afla upplýsinga og tengiliða á hverjum stað. En nú erum við heldur betur klárir í slaginn, búnir að koma hingað árlega í níu ár. Við gerum út á þremur Land Roverum og förum ótroðnar slóðir sem stóru trukkarnir fara oft ekki. Við erum með fámenna hópa en það er eina leiðin til að komast í alvöru samband við innfædda," segir Borgar sem er þessa dagana að skoða fjallagórillur í Rúanda og Kongó ásamt íslenskum ferðamönnum.

Borgar segir að viðskiptin vindi sífellt upp á sig en þeir félagar hafa ekki stundað neina beina markaðssetningu heldur styðjast við "maður segir manni" aðferðina. Sú aðferð kemur vel heim og saman við þjónustu fyrirtækisins sem er mjög persónuleg en allar ferðir eru klæðskerasniðnar að þörfum og áhuga hvers hóps. Hann segir að ferðamöguleikarnir í Kenýa séu nánast óendanlegir: gönguferðir upp hæsta fjall Afríku, Kilimanjaro eða Mt. Kenya, hjólaferðir, jeppa-, rafting- eða úlfaldaferðir auk þess sem forvitnilegt sé að komast í kynni við hina ólíku þjóðflokka landsins, en fjöldi þeirra hleypur á nokkrum tugum. Þeir hugrakkari geta svo átt stefnumót við nokkrar górillur í fjallahéruðum í Úganda, Kongó eða Rúanda.

Borgar segir að hópar geti verið allt frá tveimur upp í átta manns og algengt sé að þeir velji þriggja vikna safarí sem hefst á ævintýrum á hásléttunni en enda í afslöppun við strandlengjuna þar sem hægt sé að læra köfun, fara í siglingar eða bara slappa af á ströndinni. Hann segist strax vera farinn að hlakka til næsta sumars enda sé hann þegar búinn að bóka nokkrar spennandi ferðir fyrir íslenska ferðalanga sem þrá alvöru ævintýri undir íslenskri leiðsögn.