Þátttakendur í afmælisdagskránni stilltu sér upp á tröppum Höfða. Fremst standa (f.v.) Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Fyrir aftan þau eru Toomas Hendrik Ilves, utanríkisráð
Þátttakendur í afmælisdagskránni stilltu sér upp á tröppum Höfða. Fremst standa (f.v.) Ingibjörg Sólrún Gísladóttir borgarstjóri, Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra. Fyrir aftan þau eru Toomas Hendrik Ilves, utanríkisráð
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni af því að um þessar mundir eru tíu ár liðin frá því Ísland varð fyrst ríkja til þess að taka upp formlegt stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin þrjú eftir að þau endurheimtu sjálfstæði komu utanríkisráðherrar landanna og fleiri saman í Reykjavík í gær til að minnast atburða ársins 1991. Auðunn Arnórsson fylgdist með.

VIÐ hátíðlega athöfn í Höfða héldu Davíð Oddsson forsætisráðherra og utanríkisráðherrarnir fjórir, Halldór Ásgrímsson og starfsbræður hans Toomas Hendrik Ilves frá Eistlandi, Indulis Berzins frá Lettlandi og Antanas Valionis frá Litháen, ávörp og undirrituðu þeir síðan sérstakt minningarskjal við sama borð og fyrirrennarar þeirra undirrituðu fyrir réttum áratug samninga um formlega upptöku stjórnmálasambands Íslands við þessi lönd. Tveir ráðherranna þáverandi, Jón Baldvin Hannibalsson og Litháinn Algirdas Saudargas, voru einnig viðstaddir sem sérstakir boðsgestir í afmælisdagskránni.

Davíð Oddsson forsætisráðherra sagði í ávarpi sínu í Höfða að er Eystrasaltslöndin brutust til sjálfstæðis fyrir rúmum áratug hefðu þau sýnt að "áratuga ok og kúgun hafði ekki náð að kæfa frelsisneistann sem falinn var djúpt í sálinni, skýldur af ódrepandi ættjarðarást og þjóðarvitund". Vesturlönd hefðu "de facto" afskrifað þessi lönd "inn í hinn sovézka efnahagsreikning". Baráttan og kjarkurinn sem þjóðirnar sýndu hefði því komið flestum á Vesturlöndum í opna skjöldu "er þær gripu tækifærið sem gafst, þegar þær sáu glufu í kúgunarkerfinu og ráku ofaní hana fleyga svo að hún lokaðist ekki á ný, og hófu að víkka hana af því ódrepandi afli sem frelsisþráin ein gat knúið". Sagði Davíð að hann og aðrir sem sátu þá í íslenzku ríkisstjórninni hefðu fylgzt með af áhuga og eftirvæntingu "og erum þakklátir fyrir að hafa mátt leggja okkar litla lóð á vogarskálar einstæðrar frelsisbaráttu". Hann minnstist þeirra stunda "sem einhverra þeirra ánægjulegustu sem ég hef komið að í íslenzku stjórnmálalífi".

Framganga Jóns Baldvins "aðdáunarverð"

"Ég minnist einnig ábendinga og aðvörunarorða sem við fengum frá ýmsum vina okkar bæði beint og óbeint um að nú mætti ekkert gera sem veikt gæti stöðu þeirra í Moskvu sem vestrænir leiðtogar hefðu sett traust sitt á. Allt var það vel hugsað og meint, en samt svo rangt," sagði Davíð. "Ég minnist einnig sérstaklega framgöngu íslenzka utanríkisráðherrans, Jóns Baldvins Hannibalssonar, sem vakti aðdáun mína fyrir festu, snerpu og hugrekki, sem að verðleikum mun halda nafni hans lengi á lofti," bætti forsætisráðherra við og bað Jón Baldvin, sem sat á fremsta bekk meðal annarra boðsgesta, að standa upp. Var honum klappað lof í lófa.

"Við Íslendingar erum stoltir og afar þakklátir fyrir að hafa mátt leika einn leikinn í þeirri æsispennandi baráttuskák sem fólk og forysta Eystrasaltsríkjanna háði fyrir tíu árum rúmum, þar sem allt var lagt í sölurnar," bætti Davíð við. "Þau 10 ár sem síðan eru liðin hafa vissulega ekki verið samfelldur dans á rósum, en þau hafa engu að síður verið mikil sigurganga og vitnisburður um að þeim þjóðum sem njóta frelsis eru allir vegir færir, en hinum undirokuðu þjóðum eru öll sund lokuð." Lauk Davíð ávarpi sínu á að segja að Eystrasaltslöndin væru komin "heim í fjölskyldu þjóðanna sem byggja á lýðræði, frelsi og sjálfstæði. Úr faðmi þeirrar fjölskyldu verða þær aldrei aftur hrifsaðar".

Halldór Ásgrímsson sagði í sínu ávarpi meðal annars, að atburðir ársins 1991 hefðu sýnt og sannað, að lítil ríki geti haft áhrif í alþjóðasamfélaginu.

Vinur í neyð er vinur í raun

Fyrir athöfnina í Höfða höfðu utanríkisráðherrarnir átt samráðsfund í utanríkisráðuneytinu og sagði Halldór Ásgrímsson á blaðamannafundi að umræðuefnin hefðu í megindráttum verið þrjú: Þróun tvíhliða samskipta Íslands við ríkin þrjú, bæði að því er varðar viðskipti og menningarmál; síðan hefðu öryggismálin verið rædd, sérstaklega með tilliti til inngöngu Eystrasaltsríkjanna í Atlantshafsbandalagið. "Fyrir hönd Íslands höfum við ítrekað afdráttarlausan stuðning okkar við aðild þessara landa að bandalaginu og við höfum einnig vakið athygli á því að þau hafa staðið sig vel í undirbúningi fyrir hana," sagði Halldór, og bætti við: "Þetta er mjög mikilvægt, því aðildarhæfni hvers lands [sem nú sækist eftir inngöngu í NATO] verður metið á eigin forsendum og því erum við bjartsýnir á að hægt verði að hafa Eystrasaltsríkin með í næstu stækkunarlotu bandalagsins."

Í þriðja lagi hefðu þeir ráðherrarnir rætt um Evrópusambandið (ESB). Öllum Eystrasaltsríkjunum er það mikið kappsmál að fá aðild að því og sagði Halldór íslenzkstjórnvöld fagna því og hinni væntanlegu stækkun ESB til austurs, þar sem löndin verði þar með jafnframt aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu "og upp frá þeim degi mun opnast fyrir frjálst flæði fólks, vöru, þjónustu og fjármagns milli landa okkar og það mun verða til þess að þétta tengsl okkar enn frekar."

Toomas Heldrik Ilves vísaði í sínu ávarpi til máltækisins um að "vinur í neyð sé vinur í raun". Þetta eigi einmitt við um það skref sem Ísland tók árið 1991. "Hefði Ísland ekki gerzt brautryðjandi meðal hinna vestrænu þjóða [og orðið fyrst til að viðurkenna sjálfstæði Eistlands] hefðu þær allar kosið að bíða, og hefðu þær beðið - hver veit hvað þá hefði gerzt?" sagði Ilves, með tilvísun til þess mikla óvissuástands sem ríkti í Sovétríkjunum á þessum tíma. Þess vegna viti hvert einasta mannsbarn í Eistlandi hvaða þjóð það var sem varð fyrst til að viðurkenna sjálfstæði landsins. Af þessari ástæðu hafi líka verið ákveðið að skíra torgið sem eistneska utanríkisráðuneytið stendur við í Tallinn eftir Íslandi, "því við höfum miklar mætur á vinum okkar," sagði ráðherrann.

Berzins og Valionis tóku fyrir hönd sinna landa heils hugar undir þessi orð hins eistneska starfsbróður síns. Það hefði skipt gríðarmiklu máli að Ísland varð fyrst NATO-ríkja til að viðurkenna sjálfstæði landanna sem hefðu gegn eigin vilja verið föst í helzi Sovétríkjanna í nærri hálfa öld. "Staðreyndin er sú, að á þessum tíma bar annars enginn [á Vesturlöndum] okkur saman við lönd eins og Pólland, Ungverjaland eða Tékkland. Nú erum við jafningjar þessara landa í aðildarviðræðum við Evrópusambandið og eigum einnig eftir að ganga í NATO - við verðum í sama félagsskap og Ísland," sagði Berzins.

Myndlistarsýning opnuð

Eftir athöfnina í Höfða héldu ráðherrarnir og aðrir þátttakendur í afmælisdagskránni til Þingvalla, þar sem þeir snæddu hádegisverð í boði íslenzku utanríkisráðherrahjónanna. Og síðdegis var að viðstöddum ráðherrunum opnuð myndlistarsýninginn Ars Baltica í Gerðarsafni í Kópavogi, en á henni gefur að líta nútímamyndlist frá löndunum þremur. Í Gerðarsafni var jafnframt opnað málþing um ferþaþjónustu í Eystrasaltslöndunum.