KOMIÐ er að síðasta fyrirlestri sumarsins á Jöklasýningunni á Höfn í Hornafirði. Þriðjudagskvöldið 28. ágúst mun Helgi Björnsson, jöklafræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ, flytja erindi sem varðar m.a samgöngur í héraðinu.

KOMIÐ er að síðasta fyrirlestri sumarsins á Jöklasýningunni á Höfn í Hornafirði. Þriðjudagskvöldið 28. ágúst mun Helgi Björnsson, jöklafræðingur hjá Raunvísindastofnun HÍ, flytja erindi sem varðar m.a samgöngur í héraðinu.

Meginhluti afrennslis frá Fláajökli hefur um áratuga skeið komið undan honum við austanvert Jökulfell og runnið í Hólmsá. Þó hefur það gerst nokkrum sinnum að vatn hafi runnið austur með jökuljaðrinum í Hleypilæk og suðaustur Mýrar.Heimamenn hafa því jafnoft orðið að grípa til varnaraðgerða. Enn hefur vaknað ótti við að svo mikið vatn sæki í Hleypilæk að farvegur hans geti ekki tekið við því og vatn gangi á gróið land og þjóðvegurinn gæti rofnað. Í erindinu verður rætt um mat á aðstæðum og hugsanlegum viðbrögðum við þessari stöðu mála.

Jökulsárlón á Breiðamerkursandi hóf að myndast á þriðja áratug 20. aldar og er nú um 15 ferkílómetrar að flatarmáli. Framburður aurs undan Breiðamerkurjökli hefur sest í lónið og ekki náð að bæta upp landbrot við ströndina svo að hún hefur hörfað og innan fárra ára stefnir í að vegurinn yfir Breiðamerkursand rofni. Stærð Jökulsárlóns á komandi árum mun ráðast af afkomu Breiðamerkurjökuls, innstreymi íss og hve hratt ísinn nær að bráðna í lóninu. Haldist afkoma jökulsins svipuð og hún hefur verið undanfarinn áratug benda líkanreikningar til þess að Breiðamerkurjökull hörfi upp úr 25 km löngu Jökulsárlóni á næstu tveimur öldum. Frá þessu mun greint í erindinu.

Fyrirlesturinn, sem er í máli og myndum að vanda, fer fram í bíósal Sindrabæjar og hefst kl. 20. Aðgangseyrir er kr. 400 og veitir auk þess aðgang að sýningunni.