Benedikt leikur á nýja gítarinn sinn í Barcelona, en vinkona hans fylgist með.
Benedikt leikur á nýja gítarinn sinn í Barcelona, en vinkona hans fylgist með.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Hákon Bjarnason sótti síðasta vetur lýðháskóla í Danmörku. Benedikt er fjölfatlaður og í tuttugu ár hafði Dóra S. Bjarnason, móðir hans, vart vikið frá honum lengur en viku í senn. Þennan vetur komst hún hins vegar að því að í amstri kennslu og félagslífs var henni skyndilega ofaukið.

Benedikt, sonur minn, hefur nýlokið skólavist við Egmont højskolen í Danmörku. Hann hefur dvalið þar frá því í ágúst og notið menntunar við sitt hæfi, samveru við yndislega félaga og góða kennara. Þetta væri ekki í frásögur færandi nema vegna þess, að Benedikt er fjölfatlaður, talar ekki og þarf manninn með sér dag og nótt. Mig langar að segja landsmönnum örlítið frá þessu mikla ævintýri og þakka þeim sem hafa hjálpað okkur til þess að hann fékk notið þessa tækifæris.

Við héldum utan 3. ágúst 2000, Benedikt, fylgdarmaður hans, félagi og skólabróðir, Friðrik Rafn Guðmundsson, og ég. Þeir félagar höfðu meðferðis 13 töskur, hjólastól og rauða skutlu, sem Benedikt var rétt búinn að læra að nota. Starfsfólk Flugleiða hjálpaði okkur að koma okkur og dótinu um borð og á þakkir skildar fyrir. Einhvern veginn tókst að koma öllum farangrinum og piltunum tveim heilu og höldnu til Jótlands, en þar er skólinn.

Fötluðum og ófötluðum gefið tækifæri

Þetta er merkilegur skóli, danskur lýðháskóli af bestu gerð, sem leggur áherslu á að gefa ungu fólki, bæði fötluðu og ófötluðu, tækifæri til að bæta við sig þekkingu og færni á bóklegum og verklegum sviðum og kynnast listsköpun af ýmsu tagi. Nemendur eru rúmlega 120, ungir menn og konur frá ýmsum löndum. Aðstoðarmenn fatlaðra nemenda fá skólavist og vasapeninga fyrir að hjálpa þeim sem þess þurfa með vegna fötlunar. Dönsku sveitarfélögin borga kostnað vegna fatlaðra nemenda við skólann, en Benedikt fékk til þessa opinberan stuðning og styrki, en annað greiddum við sjálf.

Benedikt settist fyrst á tónlistarbraut, enda er tónlist hans líf og yndi, en Friðrik fór á myndlistarbraut. Þeir félagar völdu einnig ýmis námskeið, en voru ekki saman á neinu þeirra, þannig að Friðrik festist ekki í hlutverki aðstoðarmannsins. Benedikt fór í siglingahóp, íþróttir og dönsku.

Himinsæll í fangi dökkrar blómarósar

Ég hvarf fljótlega á braut, með hálfum huga þó, enda höfðum við sonur minn tæpast verið aðskilin lengur en viku í senn í þau tuttugu ár sem hann hafði lifað. Ég fór heim til Íslands til að ljúka þar ýmsum verkefnum, en skólalífð tók við hjá strákunum. Um miðjan september fór ég utan aftur og hraðaði mér í skólann. Þar kom ég á föstudagskvöldi og hugði gott til glóðarinnar að hitta son minn aftur.

Ég mun aldrei gleyma því þegar ég kom inn í samkomusal skólans þetta kvöld. Þar var mikið um dýrðir, matarveisla og ball. Mér brá við þegar ég sá son minn. Hann var á miðju dansgólfinu, himinsæll í fangi dökkrar blómarósar, íklæddur örgustu lörfum. Mér fannst sem ég hefði aldrei séð jafn hallærislegt ungmenni. Brátt áttaði ég mig á því að þessi múndering sómdi sér ágætlega enda voru félagarnir ekkert glæsilegri, og ballið helgað minningu ´68- kynslóðarinnar. Það rann upp fyrir mér, að svona vorum við sjálf í dentíð og þótti flott. Daman leiddi Benedikt að borðinu og þakkaði dansinn með leiftrandi brosi. Hann hafði ekki af henni augun. Þegar ég heilsaði var það deginum ljósara, að Benedikt var ekki yfir sig hrifinn að fá móður sína á dansleikinn. Næstu daga fylgdist ég með kennslu og félagslífi og áttaði mig á því að þarna var mér hreinlega ofaukið. Eftir það staldraði ég stutt við á skólanum þegar ég kom þar í heimsókn, en var til taks í Kaupmannahöfn ef Benedikt og félagar vildu bregða sér bæjarleið. Ég sat við danska kennaraháskólann og kenndi nemendum víðsvegar um Ísland og erlendis um Netið, og dundaði við að skrifa. Þannig höfum við notið tækninnar og velvilja vinnuveitanda míns.

"Benni and the Bo Bos"

Benedikt hefur fullorðnast og eignast fjölda vina. Hann var um tíma í hljómsveit, "Benni and the Bo Bos", samdi tónlist og söng með félögum sínum á hljómdisk, sem síðan var leikinn við mikinn fögnuð á skólaböllum. Á haustmisseri fór hann í skólaferðalag til hinnar rómuðu borgar Prag, og kom heim reynslu ríkari með mynd eftir kunnan þarlendan listamann í farteskinu. Hann hafði bæði sótt tónleika, skoðað fagrar byggingar, notið kaffihúsanna og heimsótt skelfilegar búðir nasista. Benedikt fór óvart með úreltan passa með sér í þessa ferð en íslenski ræðismaðurinn í Prag bætti úr því og bauð þeim Friðriki og skólastjóra Egmonts højskolen, Ole Laut, meira að segja í mat. Í haustfríinu lagðist Benedikt enn í flakk, í það sinn með mér og góðum vini okkar, og heimsóttum við þá Rómaborg, borgina eilífu.

Nemendur fara í ferðir til útlanda einu sinni á misseri, og er það vel að verki staðið þegar um er að ræða að ferðast í rútum með svo stóran hóp af ungu fólki, auk 20 hjólastóla og annarra hjálpartækja. Ole Laut skólastjóri, hefur þá bjargföstu trú, að ólíkir nemendur eflist og þroskist á því að læra að hjálpast að og taka tillit til mismunandi þarfa. Ekki fæ ég betur séð en þetta gangi eftir þarna. Haustmisserinu lauk með því að allir nemendur skólans unnu saman að því að skapa leikhús, með viðeigandi texta, tónlist, dönsum, búningum, útgáfustarfsemi, sviðsbúnaði og kaffihúsi. Eftir viku vinnu var verkið sýnt á þriðja hundrað leikhúsgestum, fyrrverandi nemendum, nágrönnum og velunnurum skólans. Nemendur kvöddust með sárum söknuði þegar jólafríið hófst. Sumir hurfu til háskólanáms eða starfa, en margir væntu þess að hittast aftur við skólann á vormisseri. Þeir Benedikt og Friðrik voru meðal hinna síðarnefndu.

Hitti konungsfjölskylduna á aðfangadag

Friðrik hélt heim til Íslands, en við vorum saman mæðginin, í Kaupmannahöfn um jól og Benedikt hitti þá alla dönsku konungsfjölskylduna í hámessu í Holmens Kirke á aðfangadag. Þetta bar þannig við að við fórum til kirkju og var vísað til sætis fremst. Rétt í þann mund að ég var búin að koma hjólastólnum hans fyrir, gekk konungsfjölskyldan framhjá okkur og til sæta sinna við altarið. Benedikt, sem ekki þekkir mun á hátignum og öðru fólki gerði sér lítið fyrir og tók djarflega, fast og lengi í hönd Önnu Maríu fyrrverandi drottingar. Ég hugsaði, skelfingu lostin: Hvað gerist næst? En hátignirnar brostu ósjálfrátt allar til Benedikts, sem hló við þeim glaður. Svo hófst jólamessan. Milli jóla og nýárs komu félagarnir úr hljómsveitinni "Benni and the Bo Bos" í heimsókn og hlustuðu stoltir á eigin tónlist. Nágranni minn, skallapoppari, og góður drengur bað strax um eintak af laginu og hefur spilað það nú ásamt eigin verkum í klúbbum Kaupinhafnar. Hann segir verkið flott, og það finnst mér líka.

Vormisserið hófst snemma í janúar og hefur ekki verið tíðindaminna. Benedikt gekk í kór, en valdi líka, auk íþrótta og tónlistartíma, að sérhæfa sig í samfélags- og umhverfisfræðum. Hann hefur farið víða um Jótland og heimsótt sögustaði, náttúrudjásn og öskuhauga. Hann hefur tæpast haft tíma til að heimsækja mig til Kaupmannahafnar, svo hefur hann verið hlaðinn önnum. Stundum er líka meira gaman að heimsækja skólasystkini og fjölskyldur þeirra en að fara til mömmu um helgi. Allt þetta er skrýtin og skemmtileg reynsla fyrir okkur bæði. Síðast þegar ég heimsótti Benedikt í skólann fórum við ásamt hjálparmanni, til eyjarinnar Samsö. Við nutum þar samveru í dönsku sveitaþorpi, Nordhavn, sem minnti einna helst á sviðsetningu á ævintýri eftir H.C. Andersen. Það vantaði einungis storka á stráþökin og "Pápa sem veit hvað hann syngur" á leið sinni niður þjóðveginn. Oft höfðum við Benedikt samt hist í Kaupmannahöfn. Strikið, Tívolí og Copenhagen Jass Club hafa til allrar hamingju aðdráttarafl, og ég tek á móti syni mínum og félögum sem höfðingjum, þegar þeir láta svo lítið að heimsækja mig.

Um páska vorum við mæðgin sitt í hvoru landinu, ég á Íslandi en hann heima í Kaupmannahöfn. Benedikt var þá nýkominn úr vorferðalagi skólans. Hann gat valið á milli þess að fara til Japan, Uganda eða til Spánar. Þeir Friðrik völdu Barcellona, enda var sú ferð greidd að fullu af skólanum. Ferðin var ánægjuleg, en ströng, því enn var farið með rútu og gist einhvers staðar miðja vegu, í franskri sveit. Þetta ferðalag skilaði Benedikt gítar og plakati af höfrungi. Þemaverkefni vormisseris snerust um þessar ferðir, og um innflytjendur til Danmerkur, reynslu þeirra og bakgrunn.

Lífið getur jafnvel orðið bjartara en draumarnir

Nú er þessari skólaveru lokið og við Benedikt komin aftur heim til Íslands. Okkur var farið að lengja heim og fuglarnir í hinum grænu dönsku skógum virtust syngja "í..s..land, höldum heim". Benedikt er fluttur í íbúð í Reykjavík, ásamt tveimur skólabræðrum sínum frá Egmont. Vonandi finna þeir einhverja vinnu. Við erum stödd við dæmigerð tímamót. Ég er bæði glöð og hrædd við að horfa á eftir syni mínum verða fullorðinn og skapa sitt eigið líf, með viðeigandi aðstoð. Þegar ég lít til baka yfir þetta síðastliðna ár, þá er ég full gleði og þakklætis. Nú veit ég að sumir draumar geta ræst, og lífið jafnvel orðið bjartara en draumarnir. Þetta er þakkar vert. Fjölfatlaðir námsmenn eru ekki dæmigerðir íslenskir stúdentar erlendis. Fordæmi Benedikts verður vonandi fleirum slíkum hvatning til að hleypa heimdraganum. Margir hafa hér komið við sögu og hjálpað okkur með ráðum og dáð. Við þökkum af alhug.