Mikil stemmning var á vellinum fyrir leikinn og hér hefur verið kveikt á nokkrum blysum hringinn í kringum völlinn.
Mikil stemmning var á vellinum fyrir leikinn og hér hefur verið kveikt á nokkrum blysum hringinn í kringum völlinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúmlega 200 stuðningsmenn knattspyrnuliðs Fylkis úr Árbænum brugðu sér í dagsferð til borgarinnar Szczecin í Póllandi á fimmtudaginn til að hvetja sína menn til dáða í Evrópukeppninni í knattspyrnu. Til fararinnar hafði verið leigð þota hjá Flugleiðum og voru þeir Skúli Unnar Sveinsson og Ragnar Axelsson meðal farþega. Ferðin öll tók um 18 klukkustundir. Sannarlega mikið á sig lagt til að styðja við bakið á liðinu, en enginn sá eftir þeim tíma.

FERÐIN gekk vel í alla staði, flestir skiluðu sér í flugvélina fyrir heimferðina en þó ekki allir. Szczecin er borg í norðvestur hluta Póllands og þar búa um 400 þúsund manns og virtist borgin hin snyrtilegasta að sjá út um rúðuna á langferðabílunum. Þegar lent var á flugvelli rétt utan borgarinnar var farið beint í rúturnar og komið á völlinn stundarfjórðungi áður en leikurinn hófst. Þar var Íslendingunum komið fyrir í sértaklega afgyrtu hólfi og var greinilegt af öryggisgæslunni að dæma, að þar á bæ óttuðust menn að til óláta kæmi, kannski ekki hjá stuðningsmönnum Fylkis heldur ef til vill frekar að heimamenn tækju sig til, enda voru nokkir þeirra handteknir fyrir leikinn.

Leikurinn sjálfur var svo sem ekki mikið fyrir augað en Árbæingar létu það ekki trufla sig frá því að skemmta sér enda veðrið til þess, heiðskírt og tæplega 30 stiga hiti. Heldur sljákkaði í Íslendingunum tvö hundruð þegar heimamenn skoruðu í upphafi leiks en að sama skapi kættust um 8.000 stuðningsmenn Pogon-liðsins. Leikhléið var notað til að fá sér grillaðar pulsur og eitthvað til að skola þeim niður með og síðan hófst síðari hálfleikur þar sem heimamenn voru miklu betri og brúnin var orðin þung á Fylkisfólkinu þegar aðstoðardómarinn sýndi að dómarinn ætlaði að bæta fjórum mínútum við leiktímann. Þegar ein mínúta var eftir af þeim tíma höfðu flestir gefið upp alla von og sátu niðurlútir í sólinni.

En skjótt skipast veður í lofti því Fylkismönnum tókst að jafna og liðið því komið áfram og það kunnu Árbæingar svo sannarlega að meta. Leikmenn hlupu út um allan völl eins og kýrnar þegar þeim er sleppt út á vorin, vissu varla hvernig og hverjum þeir áttu að fagna og uppi í stúku slepptu menn sér hreinlega af fögnuði. Meira að segja heimamenn klöppuðu leikmönnum og stuðningsmönnum Fylkis lof í lófa enda höfðu allir staðið sig vel og verið landi og þjóð til sóma og sjálfsagt hafa öryggisverðir á vellinum sjaldan haft eins lítið að gera.

Síðan lá leiðin út á flugvöll með viðkomu á tveimur veitingastöðum, þar sem enginn staður gat tekið við 200 manns og afgreitt á stuttum tíma. Flugvélin lagði af stað tæpum tveimur tímum síðar en áætlað var og lent var í Keflavík rétt um 23:30, tæpum þrettán klukkustundum eftir að lagt var af stað frá Keflavík. En menn voru glaðir og reifir og sjálfsagt tilbúnir að fylgja liðinu til Hollands í næsta mánuði þar sem Fylkir mætir Roda JC.