Lúðvík Bergvinsson:Alltof algengt að markmið Íslendinga með drykkju sé að verða drukknir.
Lúðvík Bergvinsson:Alltof algengt að markmið Íslendinga með drykkju sé að verða drukknir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harðar deilur skjóta reglulega upp kollinum um stefnumótun í áfengismálum á Íslandi. Anna G. Ólafsdóttir og Hrönn Indriðadóttir leituðu svara við því hvort ríkjandi viðhorf hins opinbera væru gengin sér til húðar og önnur og frjálslyndari þyrftu að taka við. Aðaláhyggjuefni manna er að aukið frjálsræði hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér í tengslum við unglingadrykkju.

ÍSLENDINGAR hafa ekki frekar en nágrannaþjóðirnar verið á eitt sáttir um hvaða stefnu skuli taka í áfengismálum þjóðarinnar. Harðvítugar deilur hafa sprottið upp á milli andstæðra fylkinga og ágerðust þær mjög við upphaf 20. aldarinnar. Lengi vel höfðu bindindismenn betur og komu því til leiðar að innflutningur á áfengi var nánast alveg bannaður á árunum 1915 til 1935. Tvennum sögum fer af því hvernig gekk að framfylgja áfengisbanninu og heimildir herma að talsvert magn af bruggi og smygli hafi verið í umferð á "bannárunum". "Andbanningar" eins og andstæðingar bannsins voru kallaðir létu heldur ekki deigan síga og tókst með nokkurs konar sáttargerð við bindindismenn að fá bannið numið úr gildi eftir tuttugu ára baráttu.

Krafa bindindismanna vegna stefnumótunar í áfengismálum þjóðarinnar við afnám bannlagana kemur skýrt fram í blaðagrein í dagblaðinu Tímanum árið 1934. Fram kemur að nauðsynlegt verði að hafa fimm atriði sérstaklega í huga til að forða þjóðinni frá því að verða áfengisbölinu að bráð. Hið fyrsta er að kjósendur í hverju héraði taki ákvörðun um hvort áfengisútsala verði opnuð eða ekki. Annað að áfengisveitingar í skipum verði bannaðar. Þriðja að verðlagi verði haldið háu. Fjórða að bindindisfræðslu verði komið á í skólum og fimmta að skipulögð verði útbreiðsla bindindis. Eftir afnám bannsins fólst stefnumótun stjórnvalda með öðrum orðum í því að reyna að hamla gegn neyslu áfengis með því að halda verðlagi háu og aðgengi takmörkuðu. Þeirri stefnu hefur í megindráttum verið fylgt alla tíð síðan. Ekki er þó laust við að gagnrýnisraddir hafi orðið háværari með árunum og er þar skemmst að minnast Reykjavíkurbréfs Morgunblaðsins sl. sunnudag. Þar voru færð rök fyrir því að þótt áfengisstefna væri nauðsynleg, hefði núverandi stefna misst marks vegna þess að hún hefði fremur beinst að því að takmarka alla áfengisneyslu en að ráðast beint að misnotkun áfengis.

Í Reykjavíkurbréfinu var m.a. bent á að núverandi stefna græfi undan virðingu fólks fyrir lögum, þar sem nánast ógerlegt væri að framfylgja banni við áfengisauglýsingum og heimabruggi. Hvatt var til þess að foreldrar sýndu börnum sínum fordæmi og kenndu þeim að umgangast áfengi í félagsskap fjölskyldunnar fremur en að kynnast því í unglingasamkvæmum eða á útihátíðum. Jafnframt var hvatt til þess að tillögum um afnám ríkiseinkasölu og lækkun verðs yrði hrint í framkvæmd og stuðlað að því að efla léttvínsáhuga og bæta vínmenningu. "Við eigum að höfða til ábyrgðartilfinningar einstaklingsins og hvetja fólk til að misnota ekki áfengi, ákveði það á annað borð að nota það. Við eigum ekki að reyna að hafa vit fyrir fólki með haftastefnu og bönnum, sem hafa fyrir löngu gengið sér til húðar," sagði í Reykjavíkurbréfinu.

Af viðbrögðum lesenda og viðmælenda Morgunblaðsins er ljóst að ekki eru allir á sama máli og virðist aðaláhyggjuefnið felast í því að aukið frjálsræði hafi neikvæðar afleiðingar í för með sér í tengslum við unglingadrykkju.

Foreldrar sýni gott fordæmi

Sr. Björn Jónsson, fyrrverandi sóknarprestur á Akranesi og fyrrverandi forvígsmaður bindindishreyfingarinnar, er ekki sammála því að ríkjandi stefna í áfengismálum sé úrelt. Inntur eftir því hverju hún hafi skilað segir hann að fyrst og fremst hafi hún komið því til leiðar að minna sé drukkið hér á landi en ella. Þetta megi rekja til takmörkunar á sölu áfengis. "Ég staðhæfi að áfengisneysla hefur af þessum sökum verið verulega mikið minni þótt hún hafi alltaf verið of mikil," segir Björn, þótt hann hafi ekki tölulegar upplýsingar til staðfestingar.

Þrátt fyrir að hann sé fylgjandi núverandi stefnumótun í áfengismálum segir hann það vel geta verið að hana megi endurmeta á einhvern hátt. "Nefndir hafa verið skipaðar til athugunar og mats á þessu. Ég veit ekki til þess að nokkur maður sem er virkur í bindindishreyfingunni hafi verið skipaður í þær nefndir. Mér finnst alveg hiklaust að sú rödd eigi að heyrast ekki síður en aðrar raddir."

Þá segir hann að víðar megi taka í sama streng og tekur fjölmiðla og auglýsingar sem dæmi. "Talandi tákn um þetta er í sambandi við verslunarmannahelgina þar sem fjölmiðlar velta sér upp úr og auglýsa og auglýsa Eldborgarhátíðina og Vestmannaeyjar. Varla var minnst á bindindismótið í Galtalæk, sennilega af því að þar "gerðist" ekki neitt. Það eina sem ég hef séð er lítil þakkargrein í lesendabréfi Morgunblaðsins. Það virðist vísvitandi verið að þegja í hel."

Björn kveðst algjörlega andvígur auglýsingum á áfengi. "Áfengisauðvaldið er alltaf að reyna að komast inn bakdyramegin til þess að ná sínu fram. Það er að stelast og fela," segir hann. En hvernig á þá að framfylgja auglýsingabanni? "Það verður einfaldlega gert með hörku. Að auglýsendur verði dregnir til ábyrgðar."

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur forvarnarstarfi í áfengismálum ekki síst verið beint að því hvernig koma megi í veg fyrir að æska landsins misnoti áfengi. Aðspurður hvort honum finnist það vera hlutverk foreldra og forráðamanna barna að kenna þeim að umgangast áfengi segir hann að foreldrar og forráðamenn verði fyrst að líta í eigin barm. "Ég las í Morgunblaðinu nýverið lesendabréf þar sem sveitamaður nokkur var að segja frá heimsókn sinni til Reykjavíkur á menningarnótt og eitt það sem hann hryllti mest við var að hann sá dauðadrukkna foreldra ráfa með barnavagn niður Laugaveginn. Ég held að boð og bönn séu kannski ekki það besta. Það sem foreldrar eiga að gera og geta gert er að fylgjast með börnunum sínum og vera þeim gott fordæmi. Ekki neyta áfengis sjálf og finna að það er hægt að vera glaður og skemmta sér án áfengis. Ég vil því koma á framfæri áskorun til sjálfs mín, foreldra og forráðamanna ungmenna að standa dyggilegar á verðinum en gert hefur verið og reyna að vera æskunni það fordæmi sem við óskum eftir að hún fylgi. Ég tek heils hugar undir orð doktors Tómasar Helgasonar í Morgunblaðinu þar sem segir: "Vímuvarnastefna sem ekki leggur aðaláherslu á að draga úr eða koma í veg fyrir notkun algengasta vímuefnisins, áfengis, er dæmd til að mistakast."

Snýst um að græða peninga

Þorgerður Ragnarsdóttir, framkvæmdastjóri Áfengis- og vímuefnaráðs, fagnaði umræðunni og tók fram að ýmislegt ágætt kæmi fram í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins. "Annað ber vott um að höfundurinn hafi litla þekkingu á forvörnum og hugsi dæmið hreinlega ekki til enda," sagði hún og nefndi dæmi.

"Að spyrja Miguel Torres, fremsta vínframleiðanda Spánar, um hvernig hann myndi standa að forvörnum er svona álíka gáfulegt eins og að spyrja norska álframleiðendur sem vilja koma upp álveri á Íslandi hvernig eigi að standa að umhverfismálum hér á landi."

Þorgerður viðurkennir að tímarnir séu að breytast. "Lögin frá 1935 hafa breyst og munu halda áfram að breytast. Stóra spurningin snýst náttúrulega um hvað eigi að halda í og hvað eigi að heyra sögunni til. Áfengis- og vímuefnaráð er að hefja heildstæðar umræður um áfengisstefnuna, þ.e. áfengiskaupaaldurinn, auglýsingar, verðlag og aðgengi. Hingað til hefur ráðið aðeins mótað sér jákvæða afstöðu gagnvart því að munurinn á verðlagningu á léttvíni og bjór og sterku áfengi verði meiri."

Þorgerður segist hafa áhyggur af því að tjón geti hlotist af því að færa léttvín og bjór í matvöruverslanir. "Með því móti væri áfengið komið út um allt. Gleymum því ekki að þjóðir eins og Þjóðverjar og Danir hafa verið að reyna að fara í hina áttina og draga í land. Búðirnar eru heldur ekki í stakk búnar til að taka við áfengissölu. Aldur afgreiðslufólksins er nærtækt dæmi. Sextán ára unglingur neitar ekki jafnaldra sínum um afgreiðslu. Ekki er heldur víst að litlar búðir verði fjárhagslega færar um að fara út í áfengissölu. Stóru risarnir tveir á matvörumarkaðinum gætu átt eftir að einoka markaðinn með því að bjóða upp á sínar eigin innfluttu áfengistegundir á lágu verði. Þegar öllu er á botninn hvolft snýst þetta voðalega lítið um fagrar hugsjónir eins og mannréttindi heldur um að græða peninga."

Þorgerður segir alveg ljóst að ef léttvín og bjór verði selt í matvöruverslunum aukist áfengisneysla. "Sumir hafa haldið því fram að meiri neysla eigi eftir að felast í "menningarlegri" drykkju, fólk fái sér oftar léttvín með matnum o.s.frv. En erlendar rannsóknar benda til annars. Því meiri sem heildarneyslan er því meiri vandamál hljótist af henni, t.d. í umferðinni og vegna ofnotkunar. Annars höfum við auðvitað mestar áhyggjur af því að neysla unglinga eigi eftir að aukast."

Þorgerður viðurkennir að greinilega sé mjög erfitt að fylgja eftir banni um áfengisauglýsingar. "Í mínum huga er alveg ljóst að endurskoða verður lögin til að hægt sé að framfylgja auglýsingabanninu. Annars finnst mér býsna léleg rök gegn banninu að í öllum erlendum miðlum sé flóð af áfengisauglýsingum. Við Íslendingar getum sagt að við viljum ekki áfengisauglýsingar í okkar miðlum þó aðrir fari aðra leið. Rétt eins og með reykingarnar. Fólki getur liðið betur og viljað hafa reyklaust heima hjá sér þó aðrir reyki annars staðar."

Full þörf á endurskoðun

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir að í framhaldi af viðhorfsbreytingu í þjóðfélaginu sé ekki óeðlilegt að efna til málefnalegrar umræðu um stefnumótun í áfengismálum hér á landi. "Fyrst ætla ég að taka fram að ég er ekki sammála því að nota orðið "haftastefna" um ríkjandi stefnu eins og gert er í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins sl. sunnudag. Íslendingar tóku lýðræðislega ákvörðun um stefnumótun í áfengismálum á sínum tíma. Þjónusta, verðlagning og aðgengi hefur í framhaldi af því miðast að því að draga eftir fremsta megni úr heildaráfengisneyslu. Á hinn bóginn er alveg ljóst að tvennt hefur gerst með árunum. Annars vegar að embættismenn hafa ekki verið nægilega duglegir að tryggja að lögunum væri framfylgt. Hins vegar hafa viðhorfin breyst og valdið því að full þörf er á því að endurskoða ríkjandi viðmið."

Þórarinn nefndi veikleika í núverandi stefnumótum í tengslum við áfengisneyslu. "Annað er að heilsugæslan kemur ekki nægilega mikið inn í forvarnir í tengslum við áfengis- og vímuefnaneyslu. Hitt er hversu mikilli orku er eytt í að gera unglinga að bindindisfólki á sama tíma og neysla hinna fullorðnu eykst. Á sama tíma og áfengisneysla minnkar í löndunum í kringum okkur eykst hún hér á landi. Meiri áherslu þyrfti að leggja á að fá fullorðna fólkið til að drekka minna," sagði hann og var í framhaldi af því spurður að því hvort opinberar tölur um áfengisdrykkju á Íslandi væru í raun marktækar, t.d. vegna heimabruggs og smygls. "Við getum fylgst með neyslunni með því að styðjast við tölur frá ÁTVR og Hagstofunni og þróunin gefur auðvitað vissar vísbendingar. Óvissan er að ég held ekkert meiri heldur en í öðrum löndum, t.d. fara Norðmenn gjarnan til Svíþjóðar til að kaupa sér léttvín og bjór."

Þórarinn var spurður að því hvort að hann teldi að foreldrar ættu að kynna börn sín fyrir léttvíni og bjór heimafyrir. "Víða erlendis hafa foreldrar kynnt börn sín fyrir léttvíni og bjór heima. Með því hefur verið talið að dregið gæti úr líkunum á því að börnin misnotuðu áfengi. Hins vegar virðast þjóðfélagsbreytingar hafa valdið því að þessi ungmenni hafa breytt hegðun sinni og drekka líka áfengi í óhófi með vinum sínum utan heimilis. Annars er ekkert einhlítt svar til við þessari spurningu. Hver fjölskylda verður einfaldlega að taka ákvörðun um það í samræmi við aðstæður sínar og sögu gagnvart áfengi hvaða stefnu eigi að taka í þessu sambandi."

Þórarinn segist algjörlega á móti því að selja léttvín og bjór í matvöruverslunum. "Sem læknir get ég ekki verið sammála því að áfengi verði selt eins og hver önnur neysluvara. Áfengi er annars eðlis og nóg ætti að vera að minna fólk á að langt er síðan sannaðist að áfengisneysla gæti valdið fósturskaða. Áfram væri hægt að halda og nefna í sambandi við unglingadrykkjuna að á meðan taugamót eru að myndast og endurraðast eins og gerist á unglingsárunum er áfengisneysla sérstaklega skaðleg," sagði hann og var spurður að því hvaða leiðir hann myndi sjálfur telja vænlegar. "Ég get nefnt þann möguleika að reynt sé að stýra drykkjunni yfir á léttvín og bjór án þess að auka áfengismagnið, t.d. með aðgerðum eins og opnunartíma og verðlagningu."

Óhófið skaðlegt

Einari Thoroddsen, vínáhugamanni og lækni, finnst óskiljanlegt að léttvíni og bjór skuli ekki vera stillt upp hliðina á öðrum landbúnaðarvörum í almennum matvöruverslunum. "Ég get ekki skilið af hverju ég þarf að fara sérstaka ferð út í sérverslun til að kaupa áfengi fyrst áfengi er á annað borð selt í verslunum. Hver er í raun munurinn á því að selja áfengi í sérverslun og venjulegri verslun? Sumir vilja halda því fram að ekki eigi að stilla áfengi upp við hliðina á annarri matvöru í verslunum af því að áfengi sé skaðlegt. Gleymum því ekki að rétt eins og áfengi getur flest verið skaðlegt í óhófi. Frakkar þorðu ekki að ganga gegn vilja páfans með því að drepa kardinála fyrir 200 árum síðan. Eftir talsverðar vangaveltur var ákveðið að loka þá alla inni í landsins fegurstu höllum og bjóða upp á dýrindis veislumáltíðir alla daga. Að lokum réð lifrin ekki við álagið og kardinálarnir gáfu upp öndina hver af öðrum."

Einar sagðist gera ráð fyrir því að einkum væri óttast að ungmenni undir lögaldri fengju afgreiðslu í vínbúðum. "Eins og bent hefur verið á er þarna ákveðin hætta fyrir hendi eins og reyndar er í vínbúðunum núna. Börn og unglingar reyna að fá afgreiðslu eða fá einhverja eldri til að kaupa fyrir sig áfengi. Áfengi hefur haft skelfilegar afleiðingar fyrir tiltekinn hóp fjölskyldna út um allan heim og engu virðist skipta hvort frjálsræði ríkir þar í sölu áfengis eða ekki. Þannig að þeir sem ætla að eyðileggja fyrir sér eiga ekki í nokkrum vandræðum með að ná í áfengi," sagði Einar og lagði áherslu á að engu virtist skipta hvort áfengið væri selt í sérverslunum eða almennum verslunum. "Af hverju má þá ekki löglegt áfengi vera í almennri sölu eins og áfengi heimabruggarans í Breiðholtinu."

Hvað með auglýsingabannið? "Að fara í kringum bannið er orðið eins konar áhugamál eins og skattsvik á Íslandi. Fyrir utan að auglýsingar berast einfaldlega áfram um loftin blá með allri tiltækri tækni. Mér finnst svona yfirdrepsskapur og dálítil hræsni í gangi," sagði Einar og viðurkenndi að aðeins væri verið að reyna að halda í lögin. "Yfirvöld verða bara að átta sig á því að grundvöllurinn fyrir lögunum er ekki lengur fyrir hendi. Þetta er svona eins og að ætla að fara að anda í kafi í sundlauginni."

Einar var spurður að því hvort að hann teldi að foreldrar ættu að kynna fyrir börnum sínum hófdrykkju inni á heimilunum. "Ég á svo ung börn sjálfur að ég hef ekki gert upp við mig hvaða leið ég ætla að fara hér heima. Aftur á móti get ég ekki ímyndað mér að heimakennsla breyti nokkru um drykkjusiði barnanna á fullorðinsárunum. Upplag barnsins skiptir mun meira máli, þ.e. hvort að barnið er veikt fyrir eða ekki. Þegar einstaklingur kemur í heiminn er mjög erfitt að ætla að fara móta hann svo einhverju nemi. Þú breytir ósköp litlu hvað sem þú tuðar og röflar."

Einar víkur talinu að verðstýringu á áfengi. "Bent hefur verið á að sumar léttvínstegundir séu 60 til 70% dýrari á Íslandi heldur en í Svíþjóð. Yfirvöld hafa svarað því til að verðið sé svona hátt vegna óhollustunnar. Þegar lagðar eru fram niðurstöður rannsókna um að léttvínsdrykkja sé ekki eins óholl og haldið hafi verið er aðeins bitið saman tönnum hvæst: "Hún snýst nú samt." Meira að segja eru til dæmi um að hófleg léttvínsdrykkja og sérstaklega á rauðvíni geti haft afar jákvæð áhrif á heilsuna. Í tilraunum á dönskum elliheimilum kom í ljós að fólk hætti nánast að þurfa önnur lyf, gamla fólkið fór að tala saman og starfsfólkið við gamla fólkið. Ekki er því hægt að segja annað en þessari hófdrykkju hafi fylgt heilmikill yndisauki. Það ætti í rauninni að setja yndisauka í stað virðisauka á áfengi."

Einar viðurkenndi að fólk ætti eftir að gráta lokun vínbúða ÁTVR. "Rétt eins og Norður-Kóreubúar eiga eftir að gráta lát leiðtoga síns Kim-il Sung. Ekki af því að þeir elski hann svo mikið heldur af því að þeir örvænta yfir því hvað tekur við. Það getur nefnilega verið erfitt að brenna brýr að baki sér þótt betra taki við."

Svörum kröfum tímans

Hildur Petersen, formaður stjórnar ÁTVR, minnir á að stjórnin taki ekki ákvörðun um einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis. Þingmenn taki ákvörðun um stefnumótun í áfengismálum þjóðarinnar. "Okkar hlutverk er að reka fyrirtækið eins vel og nokkur kostur er innan ramma laganna. ÁTVR hefur svarað kröfum tímans með því að bæta þjónustu við viðskiptavini. Verslanirnar eru opnar lengur, áfengisútsölum fjölgar og áfram væri hægt að telja. Núna erum við að endurskapa ímynd fyrirtækisins eins og sjá má í nýjum verslunum í Garðabæ og Spönginni. Viðskiptavinir fyrirtækisins taka eftir því að varan er aðgengilegri, táknmyndinni og litavali hefur verið breytt," sagði hún og fram kom að tilraun hefði verið gerð til að bjóða út rekstur áfengissölu á smærri stöðum úti á landi og í Kópavogi. "Þótt tilraunin hafi gengið ágætlega held ég samt ekki að við höldum áfram á þeirri braut."

Hildur tók undir að rekstur ÁTVR líktist sífellt meir hefðbundnum rekstri fyrirtækis. "Við verðum náttúrulega að svara kröfum tímans eins og aðrir. Gleymum því heldur ekki að einkaleyfi gefur ýmsa möguleika. ÁTVR er í stakk búin til að hafa áhrif á vínmenninguna með því að efla áhuga á neyslu léttra vína á kostnað sterkra vína. Þær leiðir sem notaðar hafa verið eru að vekja áhuga á léttum vínum með því að miðla fróðleik um þau. Má þar nefna veglega verðskrá, feiknarlegt úrval léttra vína í Heiðrúnu, og margvíslegar upplýsingar á vef ÁTVR," sagði hún og játti því að neysla á léttvíni og bjór hefði farið vaxandi. "Sala á léttu víni og bjór hefur farið vaxandi á Íslandi á síðustu tveimur til þremur árum. Hins vegar hefur salan á sterka víninu dregist saman. Engu að síður eru fleiri í alkohóllítrar seldir, þannig að neyslan hefur aukist nokkuð."

Hildur sagði aðspurð að rekstur ÁTVR hefði skilað um þremur milljörðum á ári í ríkiskassann vegna sölu á áfengi og tóbaki en auk þess eru tekin áfengisgjöld af innfluttu áfengi. "Með bættri vínmenningu og ákveðnum skilmálum gagnvart aldurstakmörkunum gæti ég séð fyrir mér að einkaleyfið yrði afnumið í framtíðinni. Aftur á móti veit ég auðvitað ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Hvort eða þá hvenær einkaleyfið verður afnumið."

Tvískinnungur og fordómar

Fimm þingmenn Samfylkingarinnar lögðu fram þingsályktunartillögu um að skipuð yrði nefnd til að endurskoða reglur um sölu á áfengi veturinn 1999 til 2000. Í þingsályktunartillögunni er sérstaklega tekið fram að nefndinni sé ætlað að huga að tvennu. Annars vegar hvort æskilegt sé að leyfa sölu á léttvíni og bjór í matvöruverslunum og hins vegar hvort mögulegt sé að hafa áhrif á neysluvenjur Íslendinga með því að breyta verðlagsstefnu á áfengi og bæta aðgengi að þeim tegundum sem stjórnvöld telji æskilegt að Íslendingar neyti.

Lúðvík Bergvinsson, fyrsti flutningsmaður tillögunnar, segir að tillagan hafi "dáið" í nefnd og því ekki komið til afgreiðslu. Hart hafi verið lagt að honum að bera hana fram aftur og ekkert sé útilokað í því efni.

Um aðdragandann að þingsályktunartillögunni segir hann að löngu sé orðið tímabært að taka ríkjandi fyrirkomulag á áfengissölu til endurskoðunar. Opinber stefna stjórnvalda sé í raun "sáttargjörð" andstæðra fylkinga undir lok bannáranna og eigi ekki lengur við. Sú hugmynd að hamla gegn neyslu á sama tíma og áfengissala sé leyfð sé alls ekki í takt við nútímaþjóðfélag. "Sú staðreynd ein sér að ríkið skuli með annarri hendi reka áfengissölu sem ætlað er að skila ákveðinni upphæð í ríkissjóð en með hinni standa að ýmiskonar forvarnarstarfi eins og t.d. að reka áfengis- og vímuvarnarráð er merkileg þversögn," segir hann og telur þennan veruleika endurspeglast í umræðum um áfengismál hér á landi. "Umræðan hefur því miður einkennst af tvískinnungi og fordómum, öfgum á báða bóga, í staðinn fyrir að vera upplýsandi og uppbyggjandi og taka mið af því að áfengi og neysla þess sé eðlilegur þáttur af samfélaginu. Að mínu mati ætti slík umræða að hefjast strax í grunnskóla."

Lúðvík segir að einkum þurfi að taka mið af tvennu við mótun nýrrar áfengisstefnu. "Í fyrsta lagi að viðurkenna að þjóðin vilji að áfengi sé flutt inn og selt á Íslandi. Í öðru lagi að sátt um að heimila sölu á áfengi geti aldrei byggst á öðru en því að einstaklingum sé treyst fyrir því að fara með og umgangast slíkar veigar. Í þeim efnum verði ekki bæði haldið og sleppt. Áfengi er ekki frekar en bifreiðar hættulegt eitt sér. Það er ekki fyrr en fólk fer að misnota áfengi að hætta steðjar að."

"Að mínum dómi er alltof algengt að markmið Íslendinga með drykkju sé að verða drukknir," segir Lúðvík og leggur áherslu á að slík hegðun beri íslenskri áfengismenningu slæmt vitni. "Þessa staðreynd verður að telja eðlilega afleiðingu ríkjandi áfengisstefnu. Þó er rétt að taka fram að sífellt er orðið algengara að fólk fái sér eitt og eitt léttvínsglas án þess að ætla sér að verða drukkið. Engu að síður þori ég að fullyrða að hitt er því miður enn mun algengara."

Þverpólitískt og kynslóðaskipt

Á síðasta þingi flutti Vilhjálmur Egilsson ásamt fjórum öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins frumvarp um að ÁTVR framseldi einkaleyfi sitt á smásölu áfengis til matvöruverslana gegn ákveðnum skilyrðum. "Ríkjandi fyrirkomulag á áfengissölu er löngu orðið tímaskekkja. Eftir bannárin var reynt að hefta aðgang að áfengi með ríkiseinokun. Verðlagning og erfiður aðgangur hefur væntanlega haft einhver hamlandi áhrif á neysluna í upphafi. Með tímanum hefur fyrirtækið neyðst til að veita betri þjónustu, opna fleiri verslanir, breyta verslunum og færa afgreiðslutímann nær óskum viðskiptavinanna. Hlutverk ÁTVR hefur því verið annars vegar að færast fjær því að takmarka aðgang viðskiptavinanna að vörunni og hins vegar nær því að þjónusta viðskiptavini sína rétt eins og hvert annað verslunarfyrirtæki," segir hann og samsinnir því að miðað við þróunina verði afnám einkaleyfis ÁTVR væntanlega ekki svo stórt skref. "Eina spurningin sem stendur eftir núna er eiginlega hvort ríkið eða einkaaðilar eigi að annast þessa þjónustu."

Vilhjálmur var spurður að því hvort að hann hefði áhyggjur af því að unglingadrykkja ykist í kjölfar greiðari aðgangs að léttvíni. "Nei, ég held ekki. Börn komast náttúrulega í áfengi í dag. Mestu skiptir auðvitað hvernig foreldrar stjórna heimilum sínum," sagði hann og viðurkenndi að væntanlega myndi áfengisdrykkja Íslendinga almennt aukast. "Hófdrykkja gæti aukist. Afnám einkaleyfisins breytir væntanlega engu fyrir ofdrykkjufólk enda hefur aðgangurinn alltaf verið fyrir hendi."

Vilhjálmur sagði augljóst að erfitt væri að framfylgja banni á áfengisauglýsingum. "Mér sýnist bannið einfaldlega ekki ganga upp og í rauninni aðeins opinbera hvað kerfið er fáránlegt."

Ekki reyndist unnt að ræða frumvarpið á þingi í vor. "Ég stefni að því að frumvarpið komist í nefnd á næsta þingi," segir Vilhjálmur og vill engu spá um framgang þess. "Áfengismálið er þverpólitískt og reyndar talsvert kynslóðaskipt. Með fjölgun nýrra þingmanna eykst fylgi við tillögurnar. Fleiri hafa kynnst því af eigin raun að heilu þjóðirnar hafa getað búið við frelsi án þess að fara sér að voða."

Fylgjandi aðhaldsstefnu

Tveir þingmenn hafa einkum beitt sér gegn tillögum um aukið frjálsræði í áfengismálum. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs segist aðhyllast aðhaldssama stefnu í áfengismálum eins og öðrum vímuefnamálum. "Ég tel að árangur þeirrar aðhaldssömu stefnu sem Norðurlöndin, að slepptri Danmörku, hafa fylgt um áratugaskeið sé mjög góður," segir hann og getur þess ennfremur að á vettvangi Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sé ítrekað bent á góðan árangur Norðurlandanna. Þjóðir sem glíma við mikil vandamál á þessu sviði séu þannig hvattar til að skoða þau fordæmi sem þar hafa verið gefin.

Þegar Norðurlandaþjóðirnar fjórar ræddu um gerð EES-samningsins á sínum tíma settu þær fyrirvara um visst fyrirkomulag á áfengissölu, það er að segja einkasölu á vegum ríkisins.

"Rökin sem þar voru gefin eru að þetta væri hluti af heilbrigðis- og forvarnarstefnu landanna en ekki viðskiptamál. Þetta segir sína sögu um það grundvallarviðhorf sem legið hefur að baki þessu fyrirkomulagi í gegnum tíðina. Ég tel að það að ríkið haldi utan um sölu á áfengum drykkjum hafi mikla kosti," segir Steingrímur og bætir við að hann sé sannfærður um að þetta sé langbesta tryggingin fyrir því að unglingar undir lögaldri eigi ekki greiðan aðgang að því að kaupa áfengi. "Reynslan með tóbakið sýnir að ef þetta færi í allar búðir þá er öruggt mál að það yrðu stórfelldar brotalamir á því að aldursmörk yrðu virt." Steingrímur segir ennfremur að á meðan ríkið sjái um söluna, en markmið þess sé ekki að græða á versluninni, sé aftengdur sá hagnaðarhvati sem væri í myndinni ef einkaaðilar væru með söluna í sínum höndum, það er að græða á því að selja sem mest. Ríkið sitji hins vegar líka uppi með útgjöldin sem þessu viðkoma. "Þá ætla ég að gerast svo djarfur að segja að að sumu leyti er þetta trygging fyrir betri þjónustu en ella væri vegna þess að í gegnum rekstur á stórum sérverslunum með áfengi, þar sem er mikið vöruúrval og þekking, áttu vísan aðgang að betri þjónustu. Þá má ekki gleyma því að allar kannanir sýna að það eru viss tengsl á milli aðgengis og þess hversu mikið er keypt.

Í aðalatriðum er ég sáttur við núverandi stefnumótun í áfengismálum. Ég er eindreginn stuðningsmaður auglýsingabanns og tel að besta fyrirkomulagið í smásölu séu sérverslanir á vegum hins opinbera. Í gegnum þær getur hið opinbera alltaf komið fram markmiðum sínum í áfengismálum en um leið og þessu væri sleppt lausu yrði allt slíkt miklu erfiðara, hvort sem það er að tryggja aldurstakmörk eða brotnar reglur um auglýsingabann."

Inntur eftir því að undanfarið hafi birst auglýsingar um óáfengan bjór undir vörumerki þekktra bjórframleiðenda segir hann að því miður séu einhver brögð að þessu.

"Það er ákaflega dapurlegt að sjá jafnvel virt iðnfyrirtæki standa í áralöngum tilraunum til að brjóta þetta bann. Mér finnst menn lítillækka sig með því. Ég tel að menn verði að nálgast þetta með svipuðum hætti og ýmsar aðrar reglur sem við setjum í samfélaginu. Að þótt eitthvað sé um að menn séu að reyna að brjóta þær þá séu það ekki rök fyrir því að fella þær niður ef góð og gild rök liggja að baki því að reyna að viðhalda þeim," segir Steingrímur og bendir því til samlíkingar á að 90 kílómetra hámarkshraði gildi. Þó að talsvert sé um að hann sé brotinn séu mjög gild rök fyrir því að reyna að halda hraðanum niðri, það sé því ekki gefist upp með því að hækka.

Steingrímur segir samfélagið þurfi að vera virkara í allri umræðu um þessi mál. Skynsamleg og aðhaldssöm stefna stjórnvalda, fræðsla og forvarnir í skóla og síðast en ekki síst virkur þáttur foreldra og forráðamanna þurfi að haldast í hendur.

"Eitt af því allra mikilvægasta í þessari umræðu er að sporna við að neyslan færist niður í yngri aldurshópa vegna þess að þá er skaðsemin af misnotkun margföld. Eitt af því ískyggilega sem við stöndum frammi fyrir er að meðaltöl og aldursmælingar sýna að neyslan hafi heldur verið að færast í yngri aldurshópa hér á landi."

Steingrímur segir að almennt séu aðhaldssemi og hófsemi lykilorðin í þessu að svo miklu leyti sem menn hafa áfengi um hönd á annað borð.

"Ég held að allar viðmiðanir sem við getum notað til að átta okkur á því hvar við erum á vegi stödd í áfengis- og vímuefnamálum ættu frekar að hvetja til að menn færu varlega í sakirnar. Við höfum engar ástæður, eða leyfi til að fara út í meira kæruleysi í þessum efnum," segir hann og bætir við að það sé háskalegur hugsunarháttur að áfengisbaráttan sé tapað stríð og menn eigi að leggja meiri áherslu á eiturlyfjabaráttuna. Þetta haldist allt í hendur.

Viðhorf þjóðarinnar breytist

"Ég sé ekki betur en að hér sé hægt að nálgast áfengi hvenær sólarhringsins sem er og fer því ekki mikið fyrir haftastefnu hvað slíkt snertir," segir Sigríður Jóhannesdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, innt eftir því hvort henni finnist haftastefna vera ríkjandi í áfengismálum. "Það hefur ekki einu sinni tekist að halda þau aldurstakmörk á sölu áfengis sem þó hafa verið sett," segir hún.

Sigríður var spurð að því hvað henni fyndist um ríkjandi stefnumótun í áfengismálum. "Ég held að það sé í rauninni ekki til nein sú forvarnarstefna sem dugir önnur en sú að breyta viðhorfi þjóðarinnar til áfengis," segir hún og bætir við að það verði aðeins gert með miklum áróðri, upplýsingum og umræðu. "Ég held að á þessu sviði sé mikið verk að vinna. Ég tel að það þurfi að láta bæði skólum og foreldrum í té aðgengilegt og auðskilið lesefni um skaðsemi áfengis. Það er fyrst og fremst viðhorfið til drykkju sem þarf að breytast. Það viðhorf að allt sé í lagi með að vera draugfullur á almannafæri þarf að hverfa. Slík hegðun fólks, að ég tali nú ekki um barna og unglinga, er nánast óþekkt annars staðar í heiminum. Forvarnarstarf okkar þarf að beinast að því að breyta tískunni í þessum efnum. Það er ekki nóg að benda á unglingana, hinir fullorðnu sem eru fyrirmyndirnar þurfa líka að breyta sinni hegðun. Kannski væri hugsanlegt að fá ýmis félagasamtök í landinu, ég nefni t.d. Rótarý-, Lions-klúbba og kvenfélög, til samstarfs um þetta."

Um ríkjandi stefnu tekur Sigríður fram hversu gott meðferðarstarf sé unnið á Íslandi. "En að mínu mati þá skiptir það ekki síður máli að reyna að fyrirbyggja ofneyslu með því að takmarka aðgengi að áfengi. Mér finnst t.d. ekki koma til greina að fara að selja áfengi í matvöruverslunum. Við það að innflutningur á áfengi var gefinn frjáls til einkaaðila jókst áfengisneysla stórlega. Það er gömul og ný reynsla að hátt verð og takmörkun á aðgengi draga úr neyslu. Ef við viljum takmarka neyslu áfengis er sú leið augljóslega fær."

Mikilvægt að draga úr aðgengi

Kristinn Tómasson, yfirlæknir hjá Vinnueftirliti ríkisins og geðlæknir, segir áfengisneyslu hafa aukist síðastliðin hundrað ár vegna aukins frjálsræðis. Grunninntak í stefnu stjórnvalda á þessu tímabili hefur að hans sögn breyst frá því að reyna að koma í veg fyrir áfengisneyslu í að gera áfengisneyslu sjálfsagða í daglegu lífi fólks og meðhöndla afleiðingarnar.

"Þetta sýnir sig í að líkur á áfengissýki hafa tífaldast hjá stúlkum og meira en tvöfaldast hjá piltum á síðastliðnum hundrað árum. Við sjáum þessa stefnubreytingu víða," segir Kristinn og vitnar hann þá sérstaklega til fjölgunar vínveitingastaða.

Aðspurður hvað beri að gera segir hann að aðalmálið sé kannski fyrst og fremst að framfylgja þeirri stefnu, að reyna að draga úr aðgengi eins og frekast sé kostur. "Það á að koma í veg fyrir að einkaaðilar hafi beinan hag af sölu áfengis. Þá er ég á því að það eigi að reyna að draga úr auglýsingum bæði á áfengi og tóbaki." Inntur eftir því hvernig best sé að framfylgja því nefnir hann mat reiðslumenn til sögunnar. Hann gagnrýnir þá matreiðslumenn, sem í fjölmiðlum mæla með einhverju sérstöku víni af ákveðnum árgangi með tilteknum mat. Þetta segir Kristinn vera óæskilegt og því þurfi að sporna gegn þessu eftir föngum. Annað dæmið er hjá flugfélögum "Þegar maður gengur um borð í viðskiptafarrýmið í flugvél Flugleiða er manni réttur vínlisti með morgunmatnum. Stjórnendur í ferðaþjónustu verða að skynja að það orkar mjög tvímælis að bjóða upp á áfengi í tíma og ótíma. Þessir aðilar verða að móta sér heilsuverndarstefnu og takmarka og draga úr neyslu vímuefna, þ.á.m. áfengis og tóbaks."

Kristinn segir að það verði að höfða meira almennt til fólks og yfirvalda. "Yfirvöld þurfa að fylgja þeirrigrundvallarstefnu, að draga úr aðgengi að áfengi, með því að halda verði háu og koma í veg fyrir að einkaaðilar hafi hag af aukinni sölu.

Það skiptir máli að sinna almennum forvörnum, þannig margfaldar kvíði eða þunglyndissjúkdómur hjá barni eða unglingi hættuna á því að það misnoti tóbak eða áfengi. Þess vegna er mikilvægt að huga að velferð fjölskyldna og barna sem eiga á einhvern hátt undir högg að sækja." Kristinn segist þess fullviss að ef áfengi verði fært í matvöruverslanir muni neysla áfengis meðal ungmenna aukast. "Það þýðir að langvarandi skaði ungmenna af völdum áfengis verður meiri."

Hann kveðst vilja skerpa núverandi stefnumótun í áfengismálum. "Nauðsynlegt er að þetta sé stefna sem slær taktinn í þjóðfélaginu. Stefna Reykjavíkurborgar að fjölga vínveitingastöðum í gamla miðbænum og lengja afgreiðslutímann er í engu samræmi við þá stefnu að reyna að draga úr skaðsemi áfengis á einstaklinginn og umhverfi hans. Mestu skiptir þó að fara fram með varúð í þessum málum og safna upplýsingum um tóbaks-, áfengis- og aðra vímuefnanotkun og skaðsemi neyslunnar, og hafa bætta heilsu þjóðarinnar að meginmarkmiði."

Stór vandi í grunnskólunum

Ingjaldur Arnþórsson hefurstarfað við áfengisráðgjöf í 16 ár og hefur undanfarin fjögur ár starfað á unglingameðferðarheimilinu Laugalandi í Eyjafjarðarsveit. Spurður hvort hann telji að áfengisvandi unglinga muni aukast ef betra aðgengi yrði að áfengi, t.d. í matvöruverslunum, segir hann það tvímælalaust. "Enda eru ekki skýrar reglur um aldur af greiðslufólks. Við sjáum þennan vanda gagnvart tóbakinu, hvernig verslanir hafa ekki getað sinnt þessari lagaskyldu sinni, þ.e. að selja unglingum ekki tóbak vegna þess að það eru unglingar sem eru að afgreiða. Þá getur maður ímyndað sér hvernig vandræði þetta verða í tengslum við vínsölu."

Hann segir stefnumótun í áfengismálum í dag slappa og það þurfi að taka miklu fastar á málunum. "Í mínu starfi er ég að kljást við neyslu grunnskólanema og mér finnst stóri vandinn í dag vera neysla þessa hóps. Við fáum talsvert marga unglinga á aldrinum 14 til 15 ára í meðferð sem hafa verið í neyslu frá 12 ára aldri en þar virðast aldursmörkin liggja nokkurn veginn," segir hann og bætir enn fremur við að þetta sé sá hópur sem honum hafi fundist að þjóðfélagið væri ekki tilbúið að taka nægjanlega fast á. "Ég fagna því að í nýju grunnskólalögunum er gert ráð fyrir að skólarnir verði að sinna forvarnarstarfi.

Skólarnir skulu koma sér upp námsráðgjafa sem geti sinnt þessu verkefni. Þessi nýja þjónusta gæti leyst þetta verkefni að hluta til, þ.e. að grípa fyrr inn í þennan vanda unglinganna," segir hann og bætir við að tvímælalaust þurfi að grípa fyrr inn í, það sé allt of seint að fá 15 ára ungling í meðferð þegar hann er búinn að vera í mikilli neyslu í þrjú ár. Það taki langan tíma að snúa þeim til betri vegar. "Grunnskólinn getur komið inn í þetta samstarf með okkur í samvinnu við félagsmálayfirvöld. Kennarinn sér vandann fyrstur. Hann vísar til námsráðgjafa, sem talar við foreldra. Skili það engu, fer málið til félagsþjónustunnar. Það er þannig sem verður að vinna þetta og löngu tímabært að fá fulla virkni í þessi mál."

Ingjaldur var spurður að því hvernig þróunin hefði verið frá því hann hóf störf við áfengisráðgjöf fyrir um 20 árum.

"Menn eru alltaf að tala um að heimur versnandi fari. Ég er ekki alveg sammála því. Fyrir tíu til fimmtán árum var mikil unglingadrykkja hér á landi líka. Mér finnst aftur á móti skelfileg þessi mikla neysla harðra efna í grunnskólum. Hún hefur verið til staðar síðustu fimm til sex ár, en er bara orðin svo áberandi vegna þess að henni fylgir svo mikið ofbeldi. Auðvitað er einnig skelfileg þessi drykkja sem viðgengst á nýju sjónvarpsstöðvunum. Það er erfitt að segja unglingum hvað þeir eigi að gera þegar fullorðnir drekka "í beinni" í sjónvarpinu. Ég held að við höfum betri tækifæri í dag en nokkru sinni til að taka á þessu en við þurfum að stilla saman krafta til þess."

Ingjaldur segist vilja auglýsa eftir samstarfi við félagsmálayfirvöld, sveitarfélög og grunnskóla til að koma hörðu neyslunni út úr skólunum. "Það er ekki hægt að uppræta þetta með því einu að benda á vandann. Það þarf átak og með nýju grunnskólalögunum opnast möguleiki sem ég vona að menn eigi eftir að nýta."