Þorgeir, Andrés Örn, Þóra Gréta og Birgir eru Dúett Plús.
Þorgeir, Andrés Örn, Þóra Gréta og Birgir eru Dúett Plús.
Í KVÖLD kl. 21.30 hefjast tónleikar í kjallara skemmtistaðarins Ozio þar sem djasskvartettinn Dúett Plús leikur með djasssöngkonuna Þóru Grétu Þórisdóttur í fararbroddi.

Í KVÖLD kl. 21.30 hefjast tónleikar í kjallara skemmtistaðarins Ozio þar sem djasskvartettinn Dúett Plús leikur með djasssöngkonuna Þóru Grétu Þórisdóttur í fararbroddi. Henni til fulltingis eru ungir en reyndir djassleikarar, þeir Þorgeir Jónsson bassaleikari, Andrés Örn Gunnlaugsson gítarleikari og Birgir Baldursson trommuleikari.

Lög í okkar búningi

Það verður að segjast að nafn sveitarinnar er fullfrumlegt fyrir kvartett.

"Nafnið er þannig komið til að við Andrés Örn gítarleikari höfum verið að spila dúett saman í tvö, þrjú ár, en síðasta sumar fengum við þá Þorgeir og Birgi til liðs við okkur og þá bættist við dúettinn eins og nafnið segir til um," útskýrir söngkonan.

"Við ætlum að leika djassstandarda í kvöld sem við höfum verið að setja í okkar búning og þar förum við svolítið vítt og breitt," segir Þóra Gréta. "Það læðast inn ballöður en lögin ná líka alla leið yfir í fönkið, þannig að dagskráin verður mjög fjölbreytt.

Við höfum líka verið að leika okkur að íslenskum þjóðlögum og erum með að minnsta kosti tvö þeirra á dagskránni. Andrés Örn hefur útsett þau og við höfum leikið þau í sumar, og það hefur komið vel út. Við héldum nokkra tónleika á Mývatni, bæði á kaffihúsinu og í kirkjunni, og síðan á Stykkishólmi. Það var mjög gaman, en okkur langaði samt að enda sumarið í bænum því Andrés er að fara út eftir helgi."

Þóra segir þetta því síðasta séns fyrir fólk að sjá og heyra Dúett Plús í sumar, og lofar að kvöldið verði skemmtilegt.