Fólki verður tíðrætt um það nú á dögum, að flestir aðrir en það sjálft séu að miklu leyti hættir að hugsa.

Fólki verður tíðrætt um það nú á dögum, að flestir aðrir en það sjálft séu að miklu leyti hættir að hugsa. Hér er átt við alla alvarlega hugsun, sem tekur við af því daglega, eins og að hugsa um eða ákveða hvað á að borða, hvenær að fá sér næst neðaníðí eða spila golf. Svo virðist vera, að velmegun nútímans framkalli minni hugsun, sem lýsir sér m.a. í afskiptaleysi af þjóðmálum, lítilli kosningaþátttöku o.þ.h. Hérna í henni Ameríku kaus aðeins um helmingur kosningabærra í síðustu forsetakosningum. Bush og Gore fengu um helming hvor af greiddum atkvæðum, svo eftir því ætti um fjórðungur þjóðarinnar að standa við bakið á forsetanum, annar fjórðungur er þá á móti honum, en helmingi fólksins er skítsama hvað gerist! Sama var upp á teningnum í Englandi í þingkosningunum um daginn og í áríðandi koningum í Írlandi um framkvæmd EBS-mála. Í báðum tilvikum voru slegin met í lélegri kjörsókn.

Ef við kíkjum á nútímaþjóðfélagið er ef til vill ekki skrítið, að almúgamaðurinn skuli vera farinn að hugsa minna en fyrri kynslóðir gerðu. Tökum sem dæmi einn dag í lífi hversdagsmanneskjunnar: Aksturinn í vinnuna er ekki tími til djúpra hugsana. Það þarf að fylgjast með umferðinni og öllum vitleysingunum á veginum, sem kunna ekki að aka bílum. Svo er útvarpið í gangi og ef til vill þarf að tala í farsímann. Í vinnunni er síðan ekkert nema arg og þvarg, en kannske er setið á fundum, þar sem nokkrar persónur tala hver í kapp við aðra og reyna að taka ákvarðanir eða leysa vandamál með sem minnstri hugsun.

Á kvöldin og um helgar er alltaf yfirfullt að gera hjá flestum: Fara í sumarbústað, leika golf, veiða fisk, þreyta íþróttir, fara á veitingahús, horfa á sjónvarp, fara í leikhús eða bíó og spila á tölvuna. Reynt er á allan máta að forða því að fara einförum eða að öðru leyti skapa ástand, sem framkallað gæti djúpa hugsun. Þeir, sem blóta Bakkus, þurfa ekki að óttast, að heil hugsun angri þá, því eins og allir vita fyrirbyggir oft drykkjan notkun heilans og er þaðan komið máltækið: "Að ganga á mænunni." Hafi annars eitthvað verið reynt að nota hausinn sér óminnishegrinn um það, að viðkomandi man ekkert daginn eftir.

Einhver gæti sagt, að gott tækifæri til að iðka hugsun sé þegar fólk liggur og byltir sér í rúminu án þess að geta sofnað. Satt er það, að þá er hægt að íhuga margt, en á flesta sækja oft sérstakir þankar, þegar legið er í myrkrinu og beðið eftir miskunnsömu meðvitundarleysi svefnsins. Þá þrengja sér upp á hugann áhyggjurnar, sem ekki höfðu tækifæri til að smeygja sér inn í hausinn, þegar við vorum svo upptekin liðlangan daginn við að gera alla hina hlutina. Þeir fáu, sem ekki hafa neinar nógu stórar áhyggjur, snúa sér og bylta og svitna yfir því að geta ekki sofnað, og þeir óttast að verða illa upplagðir og geispandi næsta dag.

Eitt bezta tækifærið, sem ég veit um til að stunda þenkingar, er að fara í göngutúr eða skokk. Þá er fátt sem glapið getur hugann og virðist mér, að heilinn starfi afar vel undir slíkum kringumstæðum. Þótt ég fari alltaf sömu leiðina á heilsubótargöngum mínum hefir það komið fyrir, þá er ég hefi verið í óvenju þungum þönkum, að ég hefi gleymt að beygja og villst illilega af leið, inni í mínu eigin íbúðarhverfi! Fleiri og fleiri samborgarar hér, sem stunda göngur, skokk og hjólreiðar, hafa útilokað alla möguleika á einhvers konar hugsun með því að setja á sig heyrnartól og hafa með sér útvarp eða segulbandstæki.

Ég man, hve heillaðir við krakkar vorum í dentíð, af sögum af indverskum fakírum, sem stóðu á haus upp við vegg svo dögum skipti. Skildist manni, að þeir væru að framkalla meiriháttar hugsun, því aukið blóðstreymi til heilans auðveldaði að mun slíka starfsemi. Nú eru komin hér á markað sænsk heilsubótar-umsnúningsborð og erum við konan búin að kaupa eitt slíkt. Leggst maður á borðið, spennir ökklana fasta á öðrum endanum og breytir síðan jafnvæginu með þar til gerðum stjórntækjum og hefir svo endaskipti á sjálfum sér.

Teygist nú heldur betur á skrokknum, bilið milli hryggjarliðanna eykst og með þessu eru gerðar æfingar. Dagleg notkun er sögð feikigóð fyrir bakið og fleiri líkamshluta, og er haft fyrir satt, að ekki bara komi notkunin í veg fyrir að fólk gangi saman með aldrinum, heldur geti það beinlínis hækkað í lofti! Ég hugsaði með mér, að með því að snúa sjálfum mér við, líkt og fakírarnir gerðu, gæti ég örvað hugsun stórlega. Ekki gerðist það þó, en stundum sortnaði manni fyrir augum og svimaði, ef of lengi var verið í viðsnúningi.

Lífið er fullt af andstæðum, eins og við öll vitum. Að framan hefir verið rætt um það, að nútímamaður hins vestræna velgengnisþjóðfélags hafi fá tækifæri og kannske lítinn vilja til þess að einbeita heilanum og hugsa alvarlegar hugsanir. Hvernig stendur þá á því, að talað er um í fornbókmenntunum, að forfeður okkar hafi lagst undir feld, þegar þeir þurftu að íhuga vandamál og taka stórar ákvarðanir? Ekki truflaði þá sjónvarp og útvarp og manni hefir alltaf skilist, að heldur lítið hafi verið um að vera í þá daga, sem glapið hafi getað hugann. Frægasta dæmið um notkun felds við úthugsun stórákvörðunar, sem reyndar skipti örlög þjóðarinnar miklu máli, var þegar Þorgeir Ljósvetningagoði lagðist undir feld á Þingvöllum, og bærði ekki á sér í meira en sólarhring. Þegar hann reis upp kvað hann upp sinn fræga og örlagaríka úrskurð, "...að allir menn skyldi kristnir vera og skírn taka".

Gæti ekki verið, að kominn væri tími til þess, að við tækjum ráð forfeðranna og endurvektum notkun feldsins? Ef einhvern tíma var þörf, þá er núna nauðsyn. Hér er á ferðinni leið til þess að stórauka heilastarfsemi Íslandsmanna og gæti það framkallað gæfuríkar og góðar breytingar hjá okkar litlu þjóð. Ekkert heimili gæti verið án þess að eiga feld. Og hvað þá með stofnanir, fyrirtæki og skóla? Framleiðsla á feldum gæti orðið stór iðnaður og hvað er í vegi fyrir því að útbreiða boðskapinn og hefja útflutning?

Framleiddar yrðu margar tegundir. Gerviskinn og vaðmál eða jafnvel flís gæti dugað í ódýrustu heimilisfeldina, en svo myndu þeir stighækka allt upp í stærstu dýraskinn. Ekki er ég viss um, hvers konar feldi fornmenn notuðu, en ég held, að við getum notað okkur meiri fjölbreytni í verkun skinna nú á dögum. Dýrustu feldirnir myndu vera fóðraðir, jafnvel með silki, og skreyttir á annan máta. Fyrsta feldinn væri upplagt að gefa unglingum í fermingargjöf, og svo væru þeir tilvaldir í stórafmælisgjafir.

Öllum ráðuneytunum yrði séð fyrir úrvalsfeldum, líklega hrosshúðum, nema hvað landbúnaðarráðuneytið myndi líklega frekar kjósa kýrhúð. Get ég ímyndað mér, að ráðherrarnir yrðu að eyða löngum stundum á gólfinu undir feldum sínum, brjótandi heilann um landsins vandamál. Forsetinn fengi eðlilega stærsta og veglegasta feldinn, og yrði e.t.v. að útvega húð af stærra hestakyni en íslenzku, líklega Clydesdale frá Bretlandi. Allar þessar snilldarhugmyndir fékk ég, þegar ég lá á gólfinu í stofuhorninu um daginn. Ég lét konuna fleygja yfir mig gamla Gefjunarteppinu okkar, því engvan á ég feldinn enn þá.