"Dæmigert verkefnaval íhaldssams og borgaralegs stofnanaleikhúss," segir leikhúsfræðingurinn Mikkjal Hjelmsdal um íslenska Þjóðleikhúsið í meistaraprófsritgerð um íslenskt leikhúslíf.
"Dæmigert verkefnaval íhaldssams og borgaralegs stofnanaleikhúss," segir leikhúsfræðingurinn Mikkjal Hjelmsdal um íslenska Þjóðleikhúsið í meistaraprófsritgerð um íslenskt leikhúslíf.
Á dögunum barst mér í hendur magistersritgerð eftir Mikkjal Hjelmsdal er hann vann við leikhúsfræðadeild Háskólans í Árósum og nefnist Teatret og teaterpolitikken i Island.

Á dögunum barst mér í hendur magistersritgerð eftir Mikkjal Hjelmsdal er hann vann við leikhúsfræðadeild Háskólans í Árósum og nefnist Teatret og teaterpolitikken i Island. Mikkjal er færeyskur að uppruna en hefur undanfarin ár gegnt starfi forstjóra Norræna hússins á Álandseyjum en hefur nýlega snúið heim til æskustöðvanna og tekið að sér stjórn Færeyska sjónvarpsins. Ritgerðina vann hann á sl. ári að mestu og dvaldi m.a. hérlendis við rannsóknir og átti þá viðtöl við ýmsa sem tengjast íslenskri leiklist á einn eða annan hátt. Niðurstöður sínar birtir hann í ritgerð sem er giska yfirgripsmikil og er víða farið hratt yfir sögu, því gera þarf grein fyrir ýmsum forsendum, sögulegum og félagslegum, svo að hinn erlendi lesandi geti sett sig inn þær aðstæður er skópu íslenskt leikhús. Þessi samantekt er mjög vel unnin og rétt er farið með allar staðreyndir svo þarna er samankomið á einn stað ágætlega skýrt yfirlit um þennan þátt íslenskrar leiklistarsögu.

Ritgerðina byggir Hjelmsdal þannig upp að fyrst er rakin sögulegur aðdragandi að stofnun fyrstu áhugaleikfélaganna í landinu, síðan er hverju stóru leikhúsanna gerð skil og fjallað um stjórnskipulag og listræna stefnu þeirra, listapólitík og hlutverk hvers leikhús í leikhúslífi þjóðarinnar sem og sínu nánara umhverfi. Þannig fæst ágætur samanburður á þeim hlutverkum sem Leikfélag Reykjavíkur og Þjóðleikhúsið hafa leikið í sínu hálfrar aldar nábýli, í blíðu og stríðu, í samkeppni og samstöðu gagnvart þjóð og leikhúslífi almennt.

Hjelmsdal beinir þó einkum sjónum sínum að íslensku leikhúslífi áratuginn síðasta milli 1990 og 2000 og dregur saman niðurstöður athugana sinna á þann hátt að lærdómsríkt ætti að vera fyrir íslenskt leikhúsfólk að kynna sér þær.

Gagnsemi athugana hans felst ekki hvað síst í því að hann á engra hagsmuna að gæta í íslensku leikhúslífi og dregur saman niðurstöður sínar á faglegan og hlutlægan hátt og hrekur ýmsar goðsagnir sem náð hafa fótfestu í huga íslensks leikhúsfólks. Hann bendir t.d. á að hlutfall íslenskra leikrita á verkefnaskrá stærri leikhúsanna hafi þegar best lét á 8. áratugnum verið á milli 40 og 50% af heildinni en undanfarin 10-15 ár hafi hlutfallið aldrei verið meira en 35%.

Hjelmsdal rekur með tilvitnunum í blaðagreinar, ræður og viðtöl ýmis þau hitamál sem komu upp á síðastliðnum áratug og ber þar hæst tvö mál, uppsagnir Stefáns Baldurssonar á leikurum og leikstjórum við Þjóðleikhúsið er hann var nýtekinn við sem Þjóðleikhússtjóri 1991 og aðdragandann að uppsögn Viðars Eggertssonar úr starfi leikhússtjóra Borgarleikhússins 1996. Hjelmsdal bendir á þá mótsögn sem felst í málflutningi Þjóðleikhússtjórans árið 1991 um nauðsynlegan hreyfanleika leikhúslistamanna í starfi innan leikhúsanna og þess hversu þaulsætinn hann sjálfur virðist ætla að verða í starfi sínu. Hann bendir ennfremur á að uppsagnirnar hafi notið breiðs stuðnings leikhúsfólks sem m.a. hafi birst í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu. Hann vísar síðan til kenningar í cand.mag. ritgerð Bjarna Jónssonar frá 1992 þar sem hann leiðir líkum að því að stuðningur hins stóra hóps hafi stafað af von um að fá tækifæri við leikhúsið. Vafalaust hefur þó vegið þyngra hið sögulega samhengi þessa víðtæka stuðnings, nefnilega að allt frá því Guðlaugur Rósinkrans var ráðinn þjóðleikhússtjóri og enginn gerði ráð fyrir að hann væri æviráðinn - ef marka má Harald Björnsson í ævisögu sinni (Sá svarti senuþjófur) - var uppi umræða um takmörkun á ráðningartíma þjóðleikhússtjórans og einnig listamannanna er við húsið voru ráðnir. Það voru söguleg tímamót er fest var í þjóðleikhúslögum árið 1977 að ráðningartími þjóðleikhússtjóra skyldi vera 4 ár með möguleika á einni endurráðningu. Það voru einnig söguleg tímamót 21 ári síðar er þetta ákvæði var afnumið með gildistöku nýrra leiklistarlaga. Árið 1991 hafði því nýráðinn þjóðleikhússtjóri sögulegan meðbyr með ákvörðun sinni um uppsagnir þar sem flestum þótti það tímaskekkja að listamennirnir væru ráðnir um aldur og ævi úr því að leikhússtjórinn yrði að hlíta takmörkun á ráðningartíma sínum. Engum datt í hug þá - ekki fremur en Haraldi Björnsyni árið 1950 - hver söguleg afglöp yrðu framin með nýjum leiklistarlögum 7 árum síðar.

Hjelmsdal skilgreinir síðan verkefnaval Þjóðleikhússins árin 1992-2000 sem "...dæmigert verkefnaval íhaldssams og borgaralegs stofnanaleikhúss. Hinn íslenski hluti verkefnanna skiptist á milli allra tegunda leikverka, þannig hafa 6 af 15 söngleikjum og óperum verið íslensk. Erlendu leikritin - að sígildu verkunum undanskildum - eru blanda af vinsælustu verkunum á meginlandi Evrópu og hinni minna þekktu en viðurkenndu nýju leikritun."

Hjelmsdal greinir ennfremur þær áherslur í listrænni stefnu Þjóðleikhússins undir stjórn Stefáns Baldurssonar að mikil endurnýjun hafi orðið í hópi listamannanna og undir stjórn hans hafi leikhúsið haft afgerandi forystu hvað varðar listræn gæði sýninga og kunnáttu einstakra listamanna.

Í umfjöllun sinni um Leikfélag Reykjavíkur telur Hjelmsdal að deilur og innri vandræði leikfélagsins lengst af áratugnum hafi haft afgerandi áhrif á listræna stöðu þess gagnvart almenningi. Sigurður Hróarsson var leikhússtjóri frá 1990-96 og kveðst Hjelmsdal eiga erfitt með að greina nokkra ákveðna listræna stefnu leikhússins á því tímabili. "Listrænar áherslur frá einu leikári til hins næsta virðast tilviljanakenndar og ógreinilegar. Tímabilið einkennist af listrænni upplausn."

Ráðning Viðars Eggertssonar 1. janúar 1996 og aðdragandi þess og eftirmáli að honum var síðan sagt upp 3 mánuðum síðar verður Hjelmsdal tilefni til ýtarlegrar umfjöllunar. Hann rekur gang þessa máls og er greinilegt að honum kemur spánskt fyrir sjónir að félagsfundur skuli geta snúið við ákvörðun rétt kjörinnar stjórnar félagsins þegar ákvarðanir leikhússtjórans eru ekki hluta félagsmanna að skapi. Telur Hjelmsdal allan þennan málatilbúnað hafa verið til marks um innbyggða veikleika hins lýðræðislega stjórnkerfis Leikfélags Reykjavíkur við stjórn Borgarleikhússins á þessum tíma og breytingar sem síðan hafa verið gerðar séu allar til góðs og skapi leikhústjóranum meira svigrúm til athafna og ákvarðanatöku.

Athyglisverð er sú hugleiðing Hjelmsdals - sérstaklega í ljósi þess sem áður var sagt um stuðning við ákvörðun þjóðleikhússtjórans 5 árum áður - að þrátt fyrir að margir yrðu til þess að lýsa yfir stuðningi við Viðar Eggertsson á opinberum vettvangi hafi engar sameiginlegar yfirlýsingar stærri hópa eða samtaka verið birtar í fjölmiðlum í formi auglýsinga eða tilkynninga. "Þetta má hafa til marks um takmarkanir hins litla leikhússamfélags. Menn styðja þann sem verður undir (Viðar) bæði í prinsippinu og siðferðilega en vilja ekki leggjast gegn þeim sem hefur sigur í stöðunni og fer með völdin í framhaldinu." Þrælsótti heitir þetta á venjulegu máli og hefur oft verið nefnt á undanförnum misserum í umræðum um íslenskt leikhúslíf.

Leikhússtjóratíð Þórhildar Þorleifsdóttur (1996-2000) fær stuttaralega umfjöllun og telur Hjelmsdal hana hafa einkennst af markaðskenndu verkefnavali. Má það að hluta til sanns vegar færa ef horft er til verkefna eins og Litlu hryllingsbúðarinnar, Hár og hitt, Grease, Galdrakarlinn í Oz, Pétur Pan, Kysstu mig, Kata, Sex í sveit en hann bendir jafnframt réttilega á að aðsókn að sýningum leikhússins hafi stóraukist í tíð Þórhildar ef undan er skilið afmælisleikárið 1996-97 sem var hið versta í sögu Leikfélagsins. Önnur þörf ályktun sem Hjelmsdal dregur af aukinni aðsókn árin 97-2000 að hinum léttvægari verkum er sú að þessir sömu áhorfendur skila sér ekki á aðrar sýningar Leikfélagsins í kjölfarið. Margendurteknar klisjur um að fyrsta skrefið í þá átt að byggja upp aðsókn sé að fá fólk í leikhúsið með allra handa léttmeti áður en hægt er að bjóða því upp á bitastæðari verk, falla um sjálfar sig að mati Hjelmsdals, þar sem þessi hópur sækir eingöngu sýningar af þessu tagi og ekki aðrar. Leikhúsin verði því að gera upp við sig hvort þau vilji þjóna smekk þessa hóps eða ekki; hvort sá smekkur er betri eða verri en einhver annar er aukaatriði í þessu samhengi.

Hjelmsdal sést hinsvegar yfir innri áherslur í listrænni leikhússtjórn Þórhildar Þorleifsdóttur þar sem konur urðu skyndilega meira áberandi í listrænu starfi hússins og skópu því þann prófíl sem Leikfélagið hafði meðan það laut forystu Þórhildar.

Hjelmsdal gerir því síðan skóna að Guðjón Pedersen muni leggja skýrari listrænar áherslur sem leikhússtjóri en forverar hans undanfarinn áratug, enda hafi hann mun betri forsendur til þess með breyttum fjárhagsramma Leikfélagsins og lagabreytingum sem gerðar hafa verið á lögum þess.

Eftir að hafa rakið sögu Leikfélags Akureyrar og lýst skipulagi þess og verkefnavali undanfarin ár, segir Hjelmsdal um LA að það hafi greinilega fjarlægst upphaf sitt sem grasrótarleikhús er óx upp úr sterku áhugaleikfélagi; "Nú gefur LA sig út fyrir að vera hreinræktað stofnanaleikhús, eins konar svæðisleikhús sem endurspeglar meginlínur leiklistarinnar í höfuðborginni."

Sjálfstæðu leikhúsin fá að sjálfsögðu sinn kafla sem hefst reyndar með þeim orðum að 10. áratugurinn hafi verið áratugur frjálsra leikhópa í íslensku leikhúsi. Hann viðurkennir reyndar að hóparnir eigi ekkert sameiginlegt nema þá helst hvað þeir séu ólíkir innbyrðis og meðal þeirra megi finna allt frá barnaleikhúsum og tilraunahópa í dansi og óperu til markaðsmiðaðra einkaleikhúsa (þ.e.komercielle privatteatre). Hann gerir þann grundvallarmun á leikhópum 9. áratugarins og þess 10. að starf hinna fyrrnefndu hafi verið bundið við verkefni en æ fleiri leikhópar á 10. áratugnum hafi farið út í samfelldan rekstur í eigin leikhúsum.

"Listræn stefna og verkefnaval er mjög ólík frá einum hópi til annars. Þar má finna mjög hefðbundna leiklist sem og mjög framsækna og tilraunakennda. Þar á meðal eru leikhús sem reka starfsemi sína út frá skýrt mótaðri hugmyndafræði t.a.m. Hafnarfjarðarleikhúsið sem eingöngu sviðsetur ný, íslensk leikverk og Möguleikhúsið sem flytur aðeins íslensk barnaleikrit og svo leikhús sem hafa hrein og klár markaðsviðmið, einsog Leikfélag Íslands sem ekki dregur dul á að markmiðið með hverri einustu sýningu þess sé að selja sem flesta aðgöngumiða."

Hjelmsdal rekur síðan málarekstur SL, Sjálfstæðu leikhúsanna, fyrir Samkeppnisstofnun þar sem Þjóðleikhúsið og Leikfélag Reykjavíkur voru kærð fyrir óeðlilega viðskiptahætti, aðallega undirboð á aðgöngumiðum í krafti opinbers stuðnings frá ríki (Þjóðleikhúsið) og Reykjavíkurborg (Leikfélag Reykjavíkur). Hjelmsdal bendir á að Sjálfstæðu leikhúsin berjist við sérkennilega mótsögn í málflutningi sínum þar sem annars vegar séu færð góð og gild rök fyrir nauðsyn þess að styðja við nýsköpun og framþróun í leiklistinni sem vitaskuld eigi sér fyrst og fremst stað í frjálsum leikhópum utan stofnanaleikhúsanna. Hins vegar séu einnig höfð uppi þau rök að vegna þess hversu mjög stofnanaleikhúsin séu styrkt af almannafé þá beri þeim fyrst og fremst skylda til að standa í nýsköpun og þróunarvinnu. Ennfremur bendir hann á að Sjálfstæðu leikhúsin haldi mjög á lofti - með réttu - hversu mikillar aðsóknar þau njóti og beiti tölum í því efni óspart í rökstuðningi sínum fyrir auknum opinberum fjárveitingum. "Þetta er mjög skiljanlegur málflutningur en utanfrá séð er hann leikhúspólitískt vanhugsaður. Með þessu verða sjálfstæðu leikhúsin að helstu boðberum þeirrar stefnu að atvinnuleikhús eigi að starfa eftir forsendum markaðarins hverju sinni. Þannig snýst baráttan - sem í upphafi snerist um listrænt frelsi leikhópanna - upp í baráttu við stofnanaleikhúsin þar sem krafan um að leiklistarstarfsemin sé metin útfrá magnforsendum, þ.e.a.s. fjölda seldra aðgöngumiða, verður markmið í sjálfu sér og aðalviðmiðunin um listræna framleiðslu. Það er ekki erfitt að sjá hversu vel slík rök falla markaðsþenkjandi og íhaldssömum stjórnmálamönnum í geð, sem helst vilja draga úr opinberum stuðningi við leiklistina eða skera hana alfarið niður. Samhliða er erfitt að sjá hvernig ofangreind rök eiga að sannfæra sömu stjórnmálamenn um nauðsyn þess að styrkja hina fjölmörgu og listrænt leitandi tilraunaleikhópa sem mynda þó meirihlutann af samtökum Sjálfstæðu leikhúsanna."

Það er ferskur blær yfir ritgerð Mikkjal Hjelmsdal. Hann hefur unnið verk sitt vel og þó hann sé gagnrýninn þá er hann ávallt málefnalegur og sjálfsagt fyrir íslenskt leikhúsfólk að kynna sér þetta verk gaumgæfilega.

Hávar Sigurjónsson havar@mbl.is