Sænsk-norski krónprinsinn Gustav og krónprinsessan Viktoría með föruneyti við Mena House. Þau nutu fyrstu egypzku ferðamannavertíðar Thomasar Cook, sem varði frá nóvember til marz, svo snemma sem árið 1890.
Sænsk-norski krónprinsinn Gustav og krónprinsessan Viktoría með föruneyti við Mena House. Þau nutu fyrstu egypzku ferðamannavertíðar Thomasar Cook, sem varði frá nóvember til marz, svo snemma sem árið 1890.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tvö hundruð ár hefur Evrópa elskað Egyptaland. Þetta ástarævintýri byrjaði með því að Napóleon Bónaparte enduruppgötvaði landið, ekki hið arabíska eða múslímska Egyptaland, heldur hið leyndardómsfulla land faraóanna. Egyptalandsæði gekk yfir Vesturlönd, skrifar Jens-Eirik Larsen, og töfrarnir vara enn.

ÞAÐ sem átti að verða hernaðarleg frægðarför varð í staðinn vel heppnaður vísindaleiðangur því Napóleoni mistókst tilraun sín til að ná völdum yfir Egyptalandi og áform frönsku stjórnarinnar um að grafa skipaskurð frá Miðjarðahafinu til Rauða hafsins komust ekki til framkvæmda fyrr en hálfri öld síðar. Hinn smái mikli herforingi var eltur á röndum á hafinu af flota Tyrkjasoldáns og bandamanna hans, erkifjendanna Breta. Nú á dögum er þessi ósigur nánast aðeins neðanmálsgrein í sögubókum, en Napóleons er enn minnzt fyrir að hafa tekið vísindamenn með sér í leiðangra, með þeim afleiðingum að heimurinn, þ.e.a.s. hinn vestræni, öðlaðist nýjan skilning á menningarsögu Níldalsins.

Fram að þessu var stærstur hluti heimsins utan Evrópu óskráð landslag. Vitneskja um lönd og þjóðir í suðri og austri var takmörkuð. Heiminum var skipt upp í nokkur meira eða minna "leyndardómsfull svæði". Sérstöðu höfðu Austurlönd - en við upphaf nítjándu aldar var það hugtak notað í raun yfir landsvæðið allt frá Norður-Afríku til Japans, en brennidepill athygli Evrópubúa á Austurlöndum voru þó tvímælalaust Biblíuslóðirnar við botn Miðjarðarhafs. Austurlönd voru lönd allra drauma og með tilraun Napóleons til að ná yfirráðum þar varð þetta framandi "landslag" í fyrsta sinn túlkað út frá pólitískum hagsmunum Vesturlanda. Austurlönd, sem fram til þessa höfðu í aðalatriðum verið böðuð rómantísku ljósi, voru nú skilgreind - að vísu eftir sem áður með rómantískum áherzlum, en fyrst og fremst í því skyni að láta þau passa inn í hina pólitísku heimsmynd Evrópubúa, þar sem Evrópuríkin voru öðrum löndum fremri á öllum sviðum. Þessi Austurlandahyggja (óríentalismi) varð mikilvægur liður í samkeppni evrópsku stórveldanna um yfirráðin í heiminum.

Bakgrunnur herleiðangurs Napóleons til Norður-Afríku var stríðið við Bretland, stríð sem knúði Napóleon til að freista þess að hindra að Bretar notuðu landleiðina milli Alexandríu og Súez til þess að gera flutningaleiðina og Englands og Indlands sem stytzta. Bretar vildu finna leið til að komast hjá því að þurfa að sigla alla leið suður fyrir Afríku til þess að komast til stoltustu nýlendu sinnar. Þeir voru meginnýlenduherrarnir í Asíu, Frakkar voru í aukahlutverki, en sáu tækifæri til að styrkja stöðu sína með því að finna styttri sjóleið til landanna í austri.

Þótt herleiðangur Napóleons í Egyptalandi hefði farið í vaskinn, náði Frakklands fram vissum hefndum, satt að segja í tvöföldum skilningi. Því þegar Súez-skurðurinn var opnaður árið 1869 hafði starf franskra erindreka, verkfræðikunnátta Frakka og franskt fé verið verkefninu mikilvægust, og í ofanálag höfðu vísindamenn Napóleons í bókstaflegum skilningi opnað dyrnar að fornleifafjársjóðum Egyptalands. Þeir höfði á þremur fyrstu áratugum aldarinnar gefið út nærri því óskiljanlega kunnáttusamlegt verk sem fékk elítu Evrópu; foystusveitina í herjum álfunnar, hjá konungum og aðli, til að skilja að menningin í Nílardal væri dýrmætur sameiginlegur arfur.

"Description de l'Egypt" heitir þetta fyrsta grundvallarverk um sögu Egyptalands, sem taldi tólf bindi með hálfu fjórða þúsundi skýringarteikninga. Fyrsta bindið kom út árið 1809 og það síðasta 1828. Sem forsmekk að þessu stórvirki hafði einn leiðangursmanna, vísindamaðurinn, stjórnarerindrekinn og listamaðurinn Diminique-Vivante Denon, gefið út sína eigin lýsingu á her- og vísindaleiðöngrunum, og bókin var svo spennandi og svo grípandi frásögn að hún vakti ímyndunarafl allrar Evrópu. Hún steypti í engu viðteknum hugmyndum um Austurlönd, en spann hið leyndardómsfulla áfram.

Þegar vísindamenn Napóleons - sagnfræðingar, verkfræðingar, plöntufræðingar, jarðfræðingar og stjörnufræðingar í bland við listamannafjöld, alls 167 manns - voru eftir nákvæma úrvinnslu tilbúnir til að "segja allt" um land faraóanna beið Egyptaland í ofvæni. Og fyrsta bindið, sem ekki sízt vegna glæsilegra myndskreytinga náði að kalla fram stórfengleik hinna fornu rústa í Egyptalandi, hlaut bæði vísindalega viðurkenningu og náði að heilla almenning.

Eiginlega átti Napóleon að afhenda vísindalegar uppgötvanir sinna manna í hendur hinna brezku sigurvegara, en frönsku sérfræðingarnir voru sér meðvitandi um sögulega þýðingu verka sinna, og höfnuðu því að þau yrðu meðhöndluð sem hvert annað stríðsgóss sem sigurvegararnir sölsuðu undir sig. Þeir stóðu fast á því að eingöngu eigin liðsmenn vísindaleiðangurins væru færir um að túlka efnið og hótuðu að fleygja gögnum sínum í sjóinn. Þeir óttuðust að Bretar myndu, af hreinum valdhroka, vilja selja rannsóknagögnin í smáskömmtum. Þar sem á tímabili leit út fyrir að Bretar myndu fá vilja sínum framgengt, lýsti einn talsmanna leiðangursins, að Bretar ættu á hættu að gerast sekir um annan eins hrikalegan menningarsögulegan glæp og þegar kristinn múgur lagði eld að bókasafninu í Alexandríu 1.500 árum fyrr.

Með öðrum orðum gátu Bretar þakkað Frökkum að Egyptaland varð fljótlega fastur viðkomustaður á hefðbundnum menntunarferðalögum ungra evrópskra aðalsmanna. Hápunktur slíkrar "stórreisu" var Ítalía með sína rómversku arfleifð, Grikkland með arfleifð Forn-Grikkja og Egyptaland með faraóana og pýramídana, austurlenzka leyndardóma og kitlandi kvennabúrahefð.

En Bretar sáu að sjálfsögðu um að gera eigin rannsóknir á Austurlöndum. Skozki teiknarinn og málarinn David Roberts gerði nokkrar af allra árangursríkustu frásögnunum af leyndardómum Egyptalands. Eftir að hafa ferðast um Evrópu þvera og endilanga og fengið teikningar sínar útgefnar í einu virtasta tímariti Englands á þessum tíma, "The Landscape Annual", og gefið þær út í eigin nafni, ferðaðist Roberts til Egyptalands árið 1838. Hann dvaldi þar í ellefu mánuði og heimsótti einnig Landið helga, sem Palestína (nú Ísrael og Sýrland) var gjarnan kölluð. Teikningar hans frá Egyptalandi voru eftir hans daga gjarnan sagðar vera næstum því eins og ljósmyndir. Að minnsta kosti var litið á þær sem nákvæman vitnisburð um það sem raunverulega fyrir augu bar, en þegar allt kemur til alls var Roberts breyzkur maður. Rómantískt ímyndunarafl setti mark sitt á flestar myndir hans, og eins og títt var um málara þessa tímabils var hann veikur fyrir stórfenglegu útsýnislandslagi. Sólsetur í Giza, með pýramídana og Sfinxinn í forgrunni, voru vinsælt og sefjandi myndefni, og þar sem fáir gátu leiðrétt hann lét hann gjarnan sólina setjast í suðri, eða í norðri ef því var að skipta, bara ef það hjálpaði uppbyggingu myndarinnar. Einkum og sér í lagi var þetta vinsælt bragð þegar hann gerði myndir af Sfinxinum, sem á þessum tíma stóð upp að hálsi í sandi, rétt utan við sveitaþorpið Giza.

Útkoman varð ásjáleg málverk og teikningar, og heima í Bretlandi birtist Egyptaland sem svipríkt land þar sem fortíðin var orðin nútíð. Seiðandi land, bæði fyrir ævintýramenn og fjárfesta. Myndir hans urðu beint boð um að fara til Egyptalands, og ungir vel stæðir Bretar lögðu upplitsdjarfir upp í ferðir á slóðir þessa landslags Biblíunnar. Og þegar Roberts tjáði sig ekki með myndum talaði hann gjarnan um að hinn siðmenntaði heimur bæri ábyrgð á því að bjarga sögulegri arfleifð: "Þessar stórfenglegu borgir, sem eitt sinn voru undur veraldar, liggja nú auðar og yfirgefnar eða undir vondri stjórn og villimennsku íslams, lítillækkaðar niður í ástand jafn frumstætt og dýrin sem valsa um þær." Að mati Roberts áttu Evrópumenn ekki að hika við að flytja fornegypzkar minjar heim til sín, þar sem þær væru óhultar, og myndu bæta skilning á rótum evrópskrar sögu. Á þennan hátt fékk Egyptaland mikilvægan sess í hugmyndafræði hinnar evrópsku heimsvaldahyggju, og nú á dögum fyllir egypzkt gull og aðrar gersemar Louvre og British Museum.

Á heildina litið var Egyptaland, hið nýuppgötvaða Forn-Egyptaland, sterk menningarleg og pólitísk innblásturslind í gegnum alla nítjándu öldina. Hið leyndardómsfulla var dýrkað, bæði af hálfu valdhafa, vísindanna, alþýðumenningunni og öðrum áhrifahópum. Gott dæmi eru frímúrarareglan, sem var undir áhrifum frá fornegypzkri arfleifð löngu áður en Napóeon enduruppgötvaði hana. Þessi áhrif styrktust nú um allan helming. Tákn og skraut reglunnar voru nú enn skýrar tengd hinu forn-egypzka.

Yfir alla Evrópur reið Egyptalandsdella, og bæði frönsku skýringarteikningarnar í "Description de l'Egypt" og myndir Davids Roberts hleypti innblástri í "exótisma" rómantískt þenkjandi menningarelítu álfunnar. Í London spreyttu arkítektar sig á nýjum stílbrigðum og það gerðu starfsbræður þeirra í Frakklandi og Belgíu einnig. Alls staðar komust egypzkar súlur í tízku, og híeróglýfur (egypzkt myndletur) varð vinsælt skraut. Skemmtilegt dæmi er gíraffahúsið í dýragarðinum í Antwerpen, þar sem Leópold I Belgíukonungur er umslunginn gylltum híeróglýfu-setningum. Honum er lýst sem "sól og lífi Belgíu, syni sólarinnar". Frá Sankti Pétursborg, höfuðborg víðfeðmasta stórveldis Evrópu, Rússlands, hafði Alexander I Rússakeisari fylgzt með leiðöngrum Napóleons af miklum áhuga. Og sem þakkarvott fyrir sýndan áhuga fékk hann að gjöf frá Napóleoni stórt diskastell með 72 diskum og tilheyrandi, allt í egypzkum stíl eða skreytt egypzku mynstri.

Á sjöunda áratug nítjándu aldar var Egyptaland í brennidepli atburðarásarinnar sem aldrei fyrr. Skipaskurðurinn milli Miðjarðar- og Rauðahafs var að verða að veruleika. Súez-skurðurinn, eitt mesta verkfræðistórvirki 19. aldar, var borinn saman við byggingu pýramídanna. Þetta leiddu ásamt öðru til þess, að landið - þ.e. hið sögulega Forn-Egyptaland - varð að sögusviði óperu- og ballettsýninga á helztu leiksviðum Evrópu. Í Mariinskí-leikhúsinu, einkaleikhúsi Rússakeisara, þreytti sýningarstjórinn Marius Pepita frumraun sýna með ballettinum "Dóttir Faraósins", sýning sem er heilt kvöld í flutningi, byggð á skáldsögu franska rithöfundarins Théophile Gautier. Þessi ballettsýning féll greinilega inn í tíðarandann á þessum tíma og var vel tekið, en féll síðan í gleymskunnar dá allt þar til Bolshoj-ballettinn dustaði rykið af henni í fyrra og endurskapaði hana með nærri því upprunalegu sviðsetningunni, þ.e.a.s. með pálmum, risavöxnum styttum og löngum súlnagöngum.

En hin eina sanna, stóra Egyptalands-sýning er óperan "Aida" eftir Giuseppe Verdi. Í ár, í tengslum við að 100 ára ártíðar Verdis er minnzt, verður þessi ópera færð upp í ótal óperuhúsum úti um allan heim. Á sínum tíma var hún pöntuð sem vígslusýning nýbyggðs óperuhúss varasoldáns Tyrkjaveldis, Kedive Ismail, í Kaíró. Óperuhúsið bar greinileg stíleinkenni evrópsks ný-renaissance-stíls, og passaði fullkomlega inn í evrópska miðborg Kaíró. Hefð er fyrir þeim skilningi að "Aida", sagan um ást egypzka herforingjans Rademes til Aidu, eþíópískrar ambáttar, væri hylling Verdis og textahöfunarins Antonios Chislanzoni til Forn-Egyptalands. Svo var þó ekki, því Kedive Ismail pantaði Aidu til þess að gera viðskiptafélögum og bandamönnum sínum í Evrópu til geðs, og hugmyndin að söguþræði óperunnar kom frá hinum franska forstöðumanni egypzku stjórnarskrifstofunnar sem sá um þjóðminja- og fornleifamál. Við opnun Súez-skurðarins vildu allir málsmetandi leiðtogar Evrópu vera viðstaddir í Kaíró og hátíðarsýningin í nýja óperuhúsinu átti að vera sniðin að áheyrendum, rjómanum af yfirstétt Evrópu sem fyrirfram hafði draumkenndar hugmyndir um egypska sögu.

Söguþráður óperunnar var mátulega auðskilinn og mátulega egypzk til að höfða til þessa áheyrendahóps, tónlistin inniheldur nokkra hljóma sem minna á egypzka tónlist, mátulega mikið til þess að Evrópubúarnir myndu kunna að meta "hinn austurlenzka hljóm". Í augum hins víða áheyrendahóps hefur "Aida" ætíð staðið sem einmitt það sem tyrkneski varasoldáninn hafði vonazt til; ekta egypzk ópera, þótt vissulega væri hún byggð meira á hugmyndaflugi en staðreyndum. Kennslustund í Austurlandafræðum, svo að segja.

Það eina sem spillti gleðinni fyrir Ismail hlýtur að hafa verið að "Aida" var ekki fullsamin fyrir frumsýninguna. Óperan var samin og framleidd á Ítalíu, og vegna stríðs Frakka og Prússa náðu sviðsmyndirnar, leikmunirnir og búningarnir aldrei til Kaíró. Óperuhúsið og Súez-skurðurinn voru opnuð með annarri Verdi-óperu, "Rigoletto", og "Aida" var fyrst frumflutt í Kaíró tveimur árum síðar, árið 1871, og náði strax vinsældum. (Óperan var fyrst færð upp í Stokkhólmi árið 1880).

Opnun Súez-skurðarins hinn 17. nóvember 1869 var atburður sem enginn evrópskur leiðtogi eða háaðallinn gat látið framhjá sér fara. Loksins gátu þeir séð með eigin augum landið sem þeir höfðu fram til þessa aðeins kynnzt með lestri bóka, fyrst og fremst "Description de l'Egypt". Aðsóknin var svo mikil að nýta varð hverja einustu byggingu í Kaíró til að hýsa hina göfugu gesti. Hátíðahöldin stóðu vikum saman og gistihús hinna evrópsku kónga og fursta í Kaíró voru veiðilendur varasoldánsins, úti við pýramídana. Og áhrifin af þessari rækilegu heimsókn evrópsks kóngafólks hófst saga eins elzta og bezta hótelsins í Afríku, hótels sem enn er á þessum sama stað, í útjaðri Giza.

Það finnst varla betri staður til að lifa sig inn í fortíð Egyptalands sem stórpólitísk vegamót, menningarlega gullgistu og ferðamannaparadís en það sem nú heitir The Mena House Oberoi Hotel and Casino. Það eru til mörg fín hótel, vel búin og fræg, en það finnst bara eitt hótel með Keops-pýramídann sem næsta nágranna, og 140 ára sögu sem í grófum dráttum fellur saman við sögu landsins. Með einstæðu útsýninu að hinzta hvílustað faraóanna hefur hótelið verið eftirsóttur dvalarstaður í öll þau ár sem liðin eru síðan franska keisaraynjan Eugéne opnaði Súez-skurðinn.

The Mena House dregur nafn sitt af faraónum Mena sem sameinaði efra og neðra Egyptaland í eitt ríki, og það voru brezk hjón sem keyptu staðinn af Khedive Ismail á áttunda áratug nítjándu aldar, en hann hafði lagt þar grunninn að gististaðarhefð hússins. En það voru næstu eigendur þess, Ethel og Hough Lorck-King, ríkir Bretar sem áttu nógan tíma og voru næmir fyrir þeirri sögu, rómantík og lúxus sem gerði The Mena House að stað sem ungu yfirséttarevrópumennirnir á menntunarferðalögum sínum urðu að koma á.

Að þetta skuli hafa tekizt tengist gullvægu bandalagi við annan Breta, Thomas Cook; manninn sem fann upp fjöldaferðaþjónustuna og sem opnaði Egyptaland og Landið helga fyrir ferðamennsku. Cook, "Henry Ford ferðamannaiðnaðarins", var sjálfur leiðsögumaður fyrir ferðamenn í fyrstu ferðinni árið 1869. Gestirnir voru 32 talsins, og þótt hans eigin bækistöðvar hefðu verið á öðru frægu hóteli í Kaíró, Shepards Hotel, var það svo í þá tíð sem nú, að enginn gat komið til Egyptalands án þess að fara og sjá pýramídana. Og þar sem Giza er tíu kílómetra vestur af Kaíró mælti Cook með því við gestina að þeir gistu á The Mena House. Og þegar þeir voru einu sinni komnir þar inn fyrir dyr og gerðu sér grein fyrir að þeir væru komnir í litla vin með sögulegt útsýni og svalandi skugga, urðu gistinæturnar fleiri en ein.

Svona hefur þetta verið allt fram til þessa, og á hinum langa lista yfir þá sem hafa látið hrífast af sjarma nýlendutímans er meðal annarra sænsk-norski krónprinsinn Gustav og krónprinsessan Viktoría. Þau nutu fyrstu egypzku ferðamannvertíðar Thomasar Cook, sem varði frá nóvember til marz, svo snemma sem árið 1890. Síðar komu önnur fyrirmenni, svo sem brezki hershöfðinginn Bernard Montgomery og Sir Winston Churchill. Þessir tveir voru hér svo að segja í vinnuerindum, í heimsstyrjöldinni síðari, þegar þeir settu upp Egyptalandshöfuðstöðvar sínar hér. Á síðari tímum hafa verið gerðar ótal tilraunir til að leysa deilur í Mið-Austurlöndum í The Mena House, í garðinum sem á barnum. Camp David-viðræðurnar voru til að mynda undirbúnar hér, með pýramídana sem söguleg vitni.

Hve lengi mun Egyptaland verða land faraóanna? Hve lengi munu leyndardómsfullar ímyndir Austurlandafræðinnar standast tímans tönn? Segið Egyptaland við meðal-Svía og hann mun ekki tengja fyrst við það araba og íslam, heldur Ramses 2, Keops og Tut Ankh Amun. Enn hefur ímyndunaraflið sterkari tök á okkur en raunveruleikinn. Þegar Egyptaland er annars vegar er auðvelt að láta berast burt á vængjum draumanna og trúa því að fortíðin sé nútíð.

Höfundur er norskur blaðamaður. Auðunn Arnórsson íslenzkaði.