Carlos Menem, fyrrverandi Argentínuforseti, lætur ásakanir um spillingu, vanhæfni og hóglífi á valdaferli sínum sem vind um eyru þjóta. Menem hefur boðað að hann hyggist bjóða sig fram til forseta á ný og fyrir skemmstu gekk hann í hjónaband í þriðja skipt
Carlos Menem, fyrrverandi Argentínuforseti, lætur ásakanir um spillingu, vanhæfni og hóglífi á valdaferli sínum sem vind um eyru þjóta. Menem hefur boðað að hann hyggist bjóða sig fram til forseta á ný og fyrir skemmstu gekk hann í hjónaband í þriðja skipt
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Boðað var á miðvikudag að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn væri tilbúinn að leggja sitt af mörkum til að afstýra algjöru hruni efnahags Argentínu. Ásgeir Sverrisson segir landsmenn ekki einvörðungu lifa í skugga efnahagsvandans; gömul spillingarmál og glæpaverk séu enn óútkljáð.

EFNAHAGSVANDI Argentínu hefur verið fyrirferðarmikill í fjölmiðlum á undanliðnum mánuðum. Argentínumenn hafa nú loks fengið þann stuðning, sem þeir fóru fram á því Alþjóðgjaldeyrissjóðurinn ákvað á miðvikudag að koma landsmönnum til hjálpar með átta milljarða dollara viðbótarframlagi. Sú aðstoð gerir að verkum að aukinnar bjartsýni gætir nú í Argentínu og raunar um gjörvalla Suður-Ameríku enda óttuðust margir að fyrirsjáanlegt hrun argentínska efnahagsins myndi hafa geigvænlegar afleiðingar í för með sér um álfuna alla. Erfiðleikarnir hafa kallað fram ákveðna endurskoðun en það endurmat er engan veginn bundið við efnahagslífið; yfirvöld dómsmála, þingmenn og fjölmiðlar huga nú í vaxandi mæli að mistökum fortíðarinnar og þá ekki síst þeirri alltumlykjandi spillingu, sem löngum hefur einkennt samfélag Argentínumanna.

Athyglin beinist einkum að "pitsu- og kampavínsárunum" en þannig vísa menn í Argentínu gjarnan til forsetatíðar Carlos Menem. Og ávirðingarnar skortir ekki; ólögleg vopnasala og peningaþvætti eru á meðal þeirra mála, sem dómstólar hafa nú til skoðunar. Raunar hafa núverandi valdhafar ekki sloppið. Traustar heimildir eru fyrir því að nöfn þeirra Fernando de la Rúa, núverandi forseta, og Domingo Cavallo fjármálaráðherra hafi verið nefnd í samhengi rannsóknar á peningaþvætti.

Og ekki mega gleymast mannréttindabrotin, ódæðisverkin og hryllingurinn, sem dómstólar hafa enn til umfjöllunar 18 árum eftir að bundinn var endi á einræði herforingja í Argentínu.

Tengdur eiturlyfjahringjum?

Nú líkt og svo oft áður er það Carlos Menem, fyrrverandi forseti, sem er einkum í sviðsljósinu. Menem, sem er annálaður fyrir heldur óhaminn lífsstíl, hefur nú verið bendlaður við peningaþvætti á Spáni. Í 1.500 blaðsíðna skýrslu, sem unnin var á vegum þings Argentínu, er að finna sannanir í þá veru að "valdamestu stjórnmálamenn landsins" hafi tengst hringjum eiturlyfjasala í Mexikó og Kólumbíu, að sögn þingkonunnar Elisu Carrio, sem stýrði rannsókninni en hún tilheyrir stjórnarandstöðuflokknum Union Civica Radical, UCR.

Menem er nú í stofufangelsi á meðan rannsökuð er meint hlutdeild hans í ólöglegri vopnasölu til Króatíu og Ecuador á síðasta áratug. Þá er hann og sakaður um að hafa dregið sér fé. Fyrir yfirvöldum í Sviss liggur nú beiðni frá argentínsku ríkisstjórninni þar sem farið er fram á upplýsingar um bankareikninga, sem Menem kunni að eiga þar í landi.

Verði hann fundinn sekur kann hann að eiga allt að tíu ár í vændum innan fangelsismúra.

Forsetinn fyrrverandi hefur brugðist hinn versti við ásökunum þessum og boðað að hann hyggist bjóða sig fram að nýju í forsetakosningunum árið 2003. Menem er enn nokkuð vinsæll meðal alþýðu manna enda býr maðurinn yfir persónutöfrum og ótvíræðum hæfileikum til að ná til fjöldans. Í engu er þó hægt að bera stöðu hans saman við þær miklu vinsældir, sem hann naut í forsetatíð sinni á árunum 1989-1999.

Pitsur og kampavín

Menem var á sínum tíma lofaður mjög fyrir að hafa snúið við argentínskum efnahagsmálum, sem lengi höfðu einkennst af stöðnun, misskiptingu og spillingu. Nú er hann á hinn bóginn gerður ábyrgur fyrir kreppunni, sem staðið hefur á þriðja ár. Forsetinn fyrrverandi er vændur um að hafa í engu brugðist við aðsteðjandi vanda. Maðurinn hafi enda verið upptekinn við annað; hann hafi tamið sér hóflausan lífsstíl og skemmt sér "konunglega" á meðan efnahagurinn sigldi markvisst í strand. Argentínumenn kalla enda þau tíu ár, sem hann var við völd, "pitsu- og kampavínsárin".

Elísa Carrio segir að við rannsókn spillingarmálanna hafi vaknað spurningar um þátt Fernando de la Rúa, núverandi forseta. Þar ræðir um sölu á gullnámum, sem hópur manna grunaður um peningaþvætti keypti. Carrio bendlaði og í viðtalsþætti, er nefnist "3 Puntos", Cavallo fjármálaráðherra við starfsemi gullsmyglara. Nafn Cavallo hefur víðar verið nefnt. Þannig tjáði dómari honum fyrir skemmstu að hann þyrfti að svara spurningum, sem tengdust rannsókn á umdeildum samningi ríkisstjórnarinnar og Argentínudeildar IBM-fyrirtækisins frá síðasta áratug. Sá gjörningur var metinn á um 600 milljónir dollara, um 60 milljarða króna.

"Ljóshærði engillinn" gengur laus

En Argentínumenn glíma ekki einvörðungu við drauga spillingar og efnahagsóreiðu. Landsmenn lifa enn í skugga herstjórnarinnar sem stjórnaði Argentínu frá 1976 til 1983 og stóð fyrir grófum mannréttindabrotum og glæpaverkum. Talið er að á milli 11.000 og 30.000 manns hafi "horfið" á þeim árum, sem landið laut herforingjastjórn.

Stjórnvöld í Frakklandi brugðust ókvæða við á dögunum þegar Alfredo nokkur Astiz var látinn laus úr fangelsi í Argentínu. Astiz var dæmdur að honum fjarstöddum í lífstíðarfangelsi í Frakklandi árið 1990 fyrir að hafa borið á ábyrgð á dauða tveggja franskra nunna en konunum var rænt og þær pyntaðar áður en þær voru teknar af lífi.

Astiz, sem gengur undir nafninu "Ljóshærði engillinn", ("El angel rubio") er grunaður um ábyrgð og þátttöku í mörgum verstu ódæðisverkum herforingjastjórnarinnar. Honum er m.a. gefið að sök að hafa fengið vildarvinum herforingjastjórnarinnar nýfædd börn eftir að mæður þeirra höfðu verið myrtar.

Yfirvöld í Frakklandi og á Ítalíu og Spáni hafa farið fram á framsal Astiz vegna glæpaverka hans, sem bitnuðu m.a. á ríkisborgurum þessara tveggja landa. Yfirvöld í Argentínu hafa hafnað þeim framsalskröfum og vísað til þess að enn sé verið að rannsaka hlutdeild Astiz í barnsránunum.

Vera kann að Argentínumenn horfi nú loks fram til betri tíðar á efnahagssviðinu og enginn dregur í efa að lýðræðið stendur þrátt fyrir allt traustum fótum í landinu. Enn fer því þó fjarri að draugar hins liðna hafi verið kveðnir niður.

Byggt á La Nación. Clarín, AFP o.fl.