Ef til vill verður hægt að nálgast kvikmyndir Ritu Hayworth á Netinu í framtíðinni.
Ef til vill verður hægt að nálgast kvikmyndir Ritu Hayworth á Netinu í framtíðinni.
FIMM stór bandarísk kvikmyndaver hafa tekið höndum saman um að setja á stofn dreifikerfi fyrir afurðir sínar á Netinu.

FIMM stór bandarísk kvikmyndaver hafa tekið höndum saman um að setja á stofn dreifikerfi fyrir afurðir sínar á Netinu. Kerfið, sem byggt er á hugbúnaði frá Sony, mun virka eins og nettengd myndbandaleiga þar sem viðskiptavinir geta horft á kvikmyndir að eigin vali gegn gjaldi. Þetta er tilraun kvikmyndaveranna til að sporna gegn ólöglegri dreifingu kvikmynda á Netinu, en forrit svipuð tónlistardreififorritinu Napster hafa verið notuð í þeim tilgangi.

"Ég held að meirihluti neytenda geri sér grein fyrir mikilvægi þess að bera virðingu fyrir höfundarétti og fái þeir tækifæri til að greiða fyrir að sækja myndir á Netið muni þeir nýta sér það," segir Yair Landau, forstjóri þeirrar deildar Sony sem sér um stafræna skemmtun. "Ég hef það á tilfinningunni að allir sem starfa í kvikmyndaiðnaðinum vilji upplifa þann dag er maður getur horft á hvaða mynd sem er, hvenær sem er."

Sjálfseyðing eftir sólarhring

Kvikmyndaverin sem um ræðir eru MGM, Paramount Pictures, Sony Pictures, Warner Brothers og Universal Pictures. Athygli vekur að hvorki Disney-kvikmyndaverið né Twentieth Century Fox tekur þátt í samstarfinu, en bæði verin hafa tilkynnt áætlanir um að koma á netdreifikerfi upp á eigin spýtur.

Sony-fyrirtækið stóð á bak við samvinnuna, en talsmenn þess hafa sagst vera að vinna að slíku kerfi frá því snemma á þessu ári. Ástæðan fyrir töfinni sem orðið hefur er sú að forsvarsmenn Sony vildu sannfæra sem flest kvikmyndaver um að taka þátt í þessu með þeim. Samningaviðræðurnar tóku lengri tíma en áætlað var vegna þess að hvert kvikmyndaver kom með eigin kröfur og efasemdir um öryggi og hagkvæmni.

Fyrstu hundrað kvikmyndirnar verða komnar á Netið um áramótin og verður um að ræða blöndu af eldri myndum og nýjum. Það verður undir hverju kvikmyndaveri komið hvaða myndir verða settar á Netið og hvað þær munu kosta. Ver sem ekki eru aðilar að samstarfsfyrirtækinu munu einnig geta sett kvikmyndir á vefsíðuna.

Venjuleg kvikmynd er um það bil 500 megabæt að stærð og er því ljóst að aðeins þeir sem hafa sæmilega hraða nettengingu geta nýtt sér þessa nýju þjónustu. Kvikmyndin mun haldast á harða drifi tölvu þeirrar sem henni er hlaðið á, en mun eyða sjálfri sér 24 klst. eftir að á hana hefur verið horft. Neytandinn mun geta horft eins oft og hann vill á kvikmyndina meðan þessi sólarhringur líður og verður hægt að hraðspóla fram og til baka og stöðva kvikmyndina um stund eins og hægt er á venjulegu myndbandstæki.

Kvikmyndirnar verða settar á Netið eftir að hafa verið gefnar út á myndbandsspólum og DVD-diskum. "Við ætlum okkur ekki að grafa undan myndbandamarkaðinum, sem gefur okkur mikið í aðra hönd," segir Landau.

Öruggur hugbúnaður

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem áhorfendur munu geta pantað einstakar myndir, en slík þjónusta hefur tíðkast á kapalrásum vestanhafs um nokkurn tíma. Né er þetta í fyrsta skipti sem boðið er upp á kvikmyndir á Netinu, en þetta er í fyrsta skipti sem stóru kvikmyndaverin taka þátt í dreifingu kvikmynda um Netið. Fyrirtækin hafa hingað til verið hikandi að setja afurðir sínar á Netið af ótta við að auðvelt muni reynast að afrita þær og dreifa þeim ólöglega, en hugbúnaður Sony á að gera slíka glæpastarfsemi illmögulega. Mörg stórfyrirtæki í tónlistariðnaði hafa háð harða baráttu fyrir bandarískum dómstólum við netfyrirtækið Napster, sem gefur út samnefnt forrit sem notað er til að dreifa tónlist án þess að höfundar eða útgefendur fái nokkuð fyrir sinn snúð. Kvikmyndaiðnaðurinn hefur hins vegar átt auðveldara með að stjórna dreifingu kvikmynda á Netinu og því er þessi yfirlýsing risanna fimm talin merki um að öryggi vefsíðunnar sé tryggt.