Evelyn Waugh á ungum aldri.
Evelyn Waugh á ungum aldri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Feðgarnir Evelyn og Auberon Waugh settu mikinn svip á breskt menningarlíf og bókmenntir. Evelyn Waugh var hins vegar lítið gefið um börn sín og tókst Auberon aldrei að vinna hylli hans. Bergljót Ingólfsdóttir skrifar um feðgana.

Blaðamaðurinn og rithöfundurinn Auberon Waugh var 61 árs að aldri þegar hann lést í Bretlandi í janúar. Sagt var frá láti hans víða, m.a. hér í Morgunblaðinu, enda maðurinn kunnur af skrifum sínum þó þar hafi hann staðið í skugga föður síns. Hann var sonur hjónanna Lauru og Evelyn Waugh, annar í röð sjö barna þeirra, sem fæddust á árunum 1938-1950. Eitt barnanna lést við fæðingu en upp komust þrjár stúlkur og þrír drengir, elstur þeirra var Auberon Alexander, fæddur árið 1939, alltaf kallaður Bron.

Meðal dáðustu rithöfunda Breta

Evelyn Waugh (1903-1966) var meðal þekktustu og dáðustu rithöfunda Breta á sinni tíð, hann var háðfugl hinn mesti og þótti með allra fyndnustu mönnum. Hann beitti háði sínu miskunnarlaust á menn og málefni, þar undanskildi hann ekki sjálfan sig. Auk skáldsagna skrifaði hann ferðabækur, smásögur, fasta dálka og greinar í blöð og tímarit, hann flutti fréttir af gangi mála í heimsstyrjöldinni síðari, annaðist bókmenntagagnrýni og náði að skrifa fyrsta hluta sjálfsævisögu sinnar: "A Little Learning". Hann hélt dagbók mikinn hluta ævi sinnar og var afkastamikill við sendibréfaskrif.

Eftir lát hans hafa verið gefnar út nokkrar ævisögur hans (þar af ein nýleg) er þykja misgóðar. Eina þeirra hefur fjölskyldan lagt blessun sína yfir, þ.e. "Evelyn Waugh a Biography" gefin út árið 1975, höfundur hennar er Christopher Sykes en hann var fjölskylduvinur.

En fleira hefur verið gefið út að rithöfundinum látnum, hlutar úr dagbókum hans komu fyrir almenningssjónir árið 1976 í bókinni "The Diaries of Evelyn Waugh", sem Michael Davie ritstýrði. Fyrstu skrifin eru frá árinu 1911, þegar hann var 8 ára, en þau síðustu frá árinu 1965, árinu áður en hann lést.

Eins og fyrr sagði var Evelyn Waugh óþreytandi við bréfaskriftir, viðtakendum hefur greinilega þótt mikið til bréfanna koma og því haldið þeim til haga. Af 4.500 bréfum sem safnað var saman voru 840 valin til útgáfu í bókinni "The Letters of Evelyn Waugh" árið 1980, í samantekt Mark Amory. Bréfin voru skrifuð til eiginkonu, ættingja, barna, fjölda vina og annarra samtíðarmanna. Einstaka bréf í bókinni er merkt "Skrifað á ritvél".

Vart verður annað sagt en með lestri dagbóka og bréfa opnist sýn inn í líf afar sérstæðs manns, ritsnillings, en ekki að sama skapi geðþekks manns að margra dómi.

En bækurnar hans standa fyrir sínu og hafa verið lesnar með mikilli ánægju. Skrif hans hafa víða verið skyldulesning við enskukennslu á framhaldsstigi.

Evelyn Waugh kvæntist árið 1928 Evelyn Gardner, 24 ára gamalli jafnöldru sinni. Fjölskylda hennar var ekki sátt við ráðahaginn, enda framtíð ungs rithöfundar óráðin. En hamingjan varð ekki langvinn, eftir tæplega árs sambúð komst það upp að Evelyn væri í tygjum við annan mann og varð til þess að hún flutti á brott af heimilinu. Það varð eiginmanninum mikið áfall og eftir skilnaðinn var hann lengi á ferðalögum um heiminn og átti ekki fast heimilisfang á meðan.

Evelyn Waugh snerist til kaþólskrar trúar árið 1930 og lagði við hana rækt við hinstu stundar. Eftir margar tilraunir tókst honum loks að fá hjónaband þeirra Evelyn ógilt árið 1936.

Hann kvæntist Lauru Herbert árið 1937, hún var kaþólsk, af aðalsætt, komin af vel efnuðum foreldrum og var 14 árum yngri en hann. Það hjónaband entist meðan bæði lifðu. Börn þeirra voru áður nefnd.

Gagnrýndi stíl konu sinnar í sendibréfum

Eftir að trúlofun þeirra Lauru og Evelyn varð opinber skrifaði hann bróður sínum og þakkar hamingjuóskir þeim sendar. Síðan stendur: "Hlakka til að koma með Lauru til þín næst þegar við verðum öll í London. Hún er grönn, hljóðlát, með langt nef, hún hefur engar bókmenntalegar tilhneigingar, er reglusöm en ekki mjög iðin. Ég held að hún sé kona fyrir mig og ég er mjög hrifinn af henni."

Mörg sendibréfanna eru til Lauru enda var hann mikið fjarverandi frá heimilinu, hann var úti í sveitum landsins á hótelum eða bjó í klúbbum í London. Hann ávarpar konu sína jafnan hlýlega í bréfunum, segist sakna hennar, tíundar það sem á daga hans hefur drifið, segir t.d.með hverjum hann snæddi hádegis- og kvöldverð, hvaða matar var neytt og hvaða vín drukkið með.

Í einu bréfanna hvetur hann konu sína til að skrifa sér betri bréf. Í öðru, frá árinu 1943, þakkar hann henni gott og fullorðinslegt bréf. Nokkru síðar kvartar hann yfir því að hafa ekki heyrt frá henni lengi og skrifar: "Ég hef engan áhuga á að frétta af því sem kemur fyrir dags daglega, hvort Teresa (elsta dóttir þeirra) hefur hnerrað eða Bron dottið. Mig langar til að heyra frá þér einu sinni til tvisvar í viku af þeirri ástæðu að þú hefur áhuga á mér og segir mér það"!

Samkvæmt ævisögu Christopher Sykes, sem vel þekkti til, lifðu þau í hamingjusömu hjónabandi alla tíð.

Eftir því sem best er vitað hefur engin bóka Evelyn Waugh verið þýdd á íslensku. Sjónvarpsþættir gerðir eftir bók hans "Brideshead Revisited" (Ættaróðalið) voru sýndir hér fyrir nokkrum árum.

Auberon Waugh sannar sig

Auberon fékk styrk til náms í Oxford. Lærdómurinn vék þar fyrir hinu ljúfa stúdentalífi, þótti hann þar minna á föður sinn og félaga hans. Eftir að hafa fallið tvisvar á undirbúningsprófi þurfti hann frá að hverfa. Hann hóf störf við blaðamennsku og brátt kom í ljós að hann var afbragðs penni og tekið var eftir skrifum hans. Hann varð dálkahöfundur, gagnrýnandi og skrifaði um mat og drykk í mörg blöð og tímarit, þar má nefna Private Eye, The Spectator, The Times, The New Statesman og The Daily Mail.

Auberon var fátt óviðkomandi í bresku þjóðlífi, stjórnmálamenn fengu sinn skammt, honum fannst menn ekki kunna almenna mannasiði lengur, væru illa uppfræddir og málfari fannst honum fara hrakandi. Skyndibitamenningu kunni hann ekki að meta og mataðist sjálfur að heldri manna sið. Hann dró ekki dul á að honum féll betur samneyti við menntamenn og yfirstéttarmenn. Hann skrifaði fyrstu skáldsögu sína "The Foxglove Saga" árið 1960, fjórar fylgdu á eftir en hann sneri sér alfarið að blaðamennsku aftur eftir 1970.

Árið 1986 stofnaði Auberon mánaðarritið Literary Review, mönnum kom saman um að þar hafi hann náð lengst í skrifum sínum. Til liðs við hann kom ungt, vel menntað fólk sem tilbúið var að vinna hjá honum fyrir lægri laun en það gat fengið annars staðar. Starfsemin var inni í miðju Sohohverfi í London.

Auberon kvæntist stúlku af aðalsætt, Teresu dóttur Onslow lávarðar, þau eignuðust fjögur börn, tvær stúlkur og tvo drengi. Hann var sagður góður faðir.

Samstarfsmenn Auberon og fleiri skrifuðu um hann látinn. Þeim bar saman um að blaðamaðurinn og persónan sjálf hefðu verið gjörólík, hann hefði verið afar kurteis, velviljaður og hlýlegur í samskiptum, gagnstætt því sem halda mætti af skrifum hans. Einn orðaði það svo að hann hefði skipt um ham þegar hann settist niður með auða pappírsörk fyrir framan sig.

Dáði föður sinn og hræddist

Þegar Auberon fæddist skrifaði faðir hans í dagbókina sína: "Laura hamingjusamari en hún er líkleg til að verða aftur." Eins og þá tíðkaðist meðal yfirstéttar í Bretlandi voru ungbörn fengin barnfóstrum til umönnunar fyrstu árin. Auberon sagði frá því sjálfur að hann hefði ekki þekkt móður sína úr þeim hópi kvenna sem á heimilinu voru fyrsta árið. Drengurinn var bráðger og þótti mikill fyrir sér. Hvorugu foreldranna var sýnt um að veita ástúð. Þekkt eru ummæli föðurins þegar hann sagði son sinn barnungan leiðindasegg og fleira í þeim dúr. Auberon var aðeins rétt orðinn 6 ára gamall þegar hann fór á heimavistarskóla.

Hann dáði föður sinn en hræddist um leið, allar tilraunir hans til að vinna hylli hans voru unnar fyrir gýg.

Evelyn Waugh var ekki mikið fyrir börn, hann skrifaði einu sinni í dagbók sína, þegar hann kom heim frá London: "Bron ekki farinn eins og mér hafði verið lofað." Á meðan börnin voru heima í jólafríi árið 1945 sat heimilisfaðirinn ekki til borðs með fjölskyldunni heldur mataðist á skrifstofu sinni. Á nýársdag 1946 skrifar hann í dagbók sína: "Kaldur nýársdagur, börnin mín þreyta mig. Ég lít á þau sem ófullkomna fullorðna einstaklinga, þau eru framtakslaus, niðurdrepandi, léttúðug, gefin fyrir sællífi og gjörsneydd kímnigáfu."

Auberon skrifaði sjálfsævisögu sína "Will This Do?" sem kom út árið 1991. Þar segir hann að hann hafi átt hamingjuríka æsku, segir frá ýmsum strákapörum sínum í skóla, m.a. þegar hann átti met og var hegnt 14 sinnum á einni önn vegna óhlýðni.

En hann segir líka frá atviki sem gerðist í lok heimstyrjaldarinnar. Allt var skammtað í Bretlandi, ávextir og annað ófáanlegt. Stjórnin tók þá ákvörðun að gefa hverju bresku barni einn banana. Auberon og tvær litlar systur hans biðu óþreyjufull eftir að móðir þeirra kæmi heim með þeirra skammt. En bananarnir þrír lentu á diski föður þeirra, hann stráði sykri á, hellti rjóma yfir og borðaði með bestu lyst fyrir framan angistarfull börnin!